Tengdar greinar

Guðný flutti úr raðhúsi í fjölbýli og er alsátt

Guðný Kristjánsdóttir og eiginmaður hennar Alfreð Þorsteinsson voru búin að festa kaup á íbúð í Austurhlíð, nýbyggingu á vegum Samtaka aldraðra, þegar hann lést fyrir ári síðan. ,,Auðvitað hefði verið gaman ef Alfreð hefði getað flutt með mér en svona er lífið,” segir Guðný sem er þessa dagana að koma sér fyrir á nýjum stað. ,,Það tók auðvitað svolítið á að pakka saman búslóð eftir 49 ár á sama stað en nú finn ég að það er í raun dásamleg tilfinning. Þetta er auðvitað nýtt upphaf á einhverju. Mín niðurstaða er sú að flestir taka þessa ákvörðun of seint. Það er betra að hafa enn krafta þegar komið er að því að pakka niður svo ég tali nú ekki um að nú er kominn tími til að láta drauma rætast, ferðast og læra eitthvað nýtt. ,,Og svo losna ég alveg við að reita illgresið,” segir hún fegin á svip.

Erfiðara fyrir dæturnar

,,Ég held samt að það sé búið að vera erfiðara fyrir dætur okkar en mig að sjá æskuheimili þeirra pakkað niður,” segir Guðný og brosir. ,,En þeim þykir auðvitað skemmtilegt að taka þátt í þessu með mér,” bætir hún við. Dætur Guðnýjar og Alfreðs eru þær Lilja Dögg, mennta- og menningarmálaráðherra og Linda Rós, sérfræðingur í félagsmálaráðuneytinu. ,,Maður á svo mikið af óþarfa dóti sem hefur safnast að manni í gegnum tíðina, sumt tengt góðum minningum en annað ekki. Þá þarf að taka ákvörðum um hvað á að gera við þetta dót og það getur sannarlega vafist fyrir manni.”

Guðný segir að nú þurfi hún ekki lengur að moka snjó, er ekki lengur ein á fyrstu hæð og er með útsýni. Hún flutti úr raðhúsi í Breiðholti á fjórðu hæð í blokk og finnst hún núna eiginlega vera orðin miðbæjarrotta miðað við að búa í Breiðholti. ,,Það tekur ekki langan tíma að minnka við sig“, segir hún og vildi bara óska þess að hún hefði gert það fyrr.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn maí 26, 2021 07:29