Lækningajurtaganga í Viðey á sunnudaginn

Gengið í Viðey

Viðey er náttúruperla Reykjavíkur og þar vaxa fjölmargar lækningajurtir. Sunnudaginn 27. júní kl. 13:30 leiðir Anna Rósa grasalæknir göngu í Viðey og segir frá áhrifamætti helstu lækningajurta sem þar vaxa, tínslu þeirra og þurrkun.  Gestum er frjálst að tína jurtir í samráði við grasalækninn.

Anna Rósa er menntuð sem grasalæknir í Englandi og hefur starfað við ráðgjöf á eigin stofu í yfir 20 ár ásamt því að framleiða vinsælar vörur úr íslenskum jurtum sem hún tínir sjálf.

Gangan tekur um 1½ klukkustund og eru gestir sem vilja tína jurtir hvattir til að taka með taupoka, skæri eða lítinn hníf.

Athugið að siglt er samkvæmt áætlun frá Skarfabakka kl. 13:15. Þátttaka í göngunni er gestum að kostnaðarlausu en greiða þarf í ferjuna.

Gjald í ferjuna fram og til baka eru 1.650 kr. fyrir fullorðna, 1.500 kr. fyrir eldri borgara og nemendur og 825 kr. fyrir börn 7–17 ára í fylgd fullorðinna. Börn 6 ára og yngri sigla frítt. Við minnum á að handhafar Menningarkorts Reykjavíkur fá 10% afslátt í Viðeyjarferjuna og handhafar Gestakortsins sigla frítt.

Við minnum á að það er veitingasala í Viðeyjarstofu og því tilvalið að sigla fyrr út í Viðey og njóta góðra veitinga áður en gangan hefst, eða setjast inn að göngu lokinni.

Ritstjórn júní 23, 2021 17:18