Sumarsólstöðuganga í Viðey í tólfta sinn

Farin verður sumarsólstöðuganga í Viðey að kvöldi þriðjudagsins 21. júní undir leiðsögn Guðbrands Benediktssonar, safnstjóra Borgarsögusafns og Þórs Jakobssonar veðurfræðings. Siglt verður frá Skarfabakka kl. 20, gengið um austurhluta Viðeyjar og stefnt að heimferð um kl. 22. Gangan er ókeypis en greiða þarf fyrir ferjuna. Mælst er til þess að gestir mæti tímanlega, því búast má við fjölmenni ef sólin skín, segir í fréttatilkynningu frá Borgarbókasafni. Þar segir ennfremur:

Á sólstöðum er sólargangur lengstur hér á norðurhveli jarðar og hádegissólin hættir að hækka dag frá degi. Hún fer að lækka og dagurinn styttist. Viðsnúningur þessi gerist á „sólstöðumínútunni“ sem að þessu sinni verður kl. 09:14 morguninn 21. júní.

Gestir eru hvattir til að taka með sér nesti og heitan drykk til að njóta á göngunni. Gönguleiðin er hæfileg, gengið er á mjúku undirlagi en mælt er með góðum skóm og skjólgóðum jakka.

Sumarsólstöðuganga í Reykjavík og nágrenni hefur nú verið stunduð árlega síðan 1985 en þetta verður tólfta gangan í Viðey. Gangan hefur verið kölluð „meðmælaganga með lífinu og menningunni“ og gestir eru hvattir til að spjalla saman og njóta samvista.

Gjald í ferjuna fram og til baka eru 1.950 kr. fyrir fullorðna, 1.755 kr. fyrir eldri borgara og nemendur og 975 kr. fyrir börn 7 – 17 ára í fylgd fullorðinna. Börn 6 ára og yngri sigla frítt. Við minnum á að handhafar Menningarkorts Reykjavíkur fá 10% afslátt í Viðeyjarferjuna og handhafar Gestakortsins sigla frítt.

Viðey er hluti af Borgarsögusafni Reykjavíkur – Eitt safn á fimm frábærum stöðum.

Ritstjórn júní 20, 2022 12:51