Sumarið 1986 áttum við hjónin, ég og Harpa Hreinsdóttir, barn á fyrsta ári – dvöldum að Laugarvatni og vissum hvorki hvað fram undan var né hvernig við ættum að sjá fyrir okkur – flettum atvinnuauglýsingum – rákumst á það fyrir tilviljun að Fjölbrautaskóli Vesturlands hefði ef til vill kennarastöður fyrir okkur bæði. Þegar við sóttum um hafði ég aldrei komið á Akranes. Þarna ílentumst við samt. Fyrir utan tveggja ára hlé frá 1996 til 1998 bjuggum við á Skaganum þar til haustið 2020 þegar við fluttumst til Reykjavíkur.
Þá rúmu þrjá áratugi sem ég átti heima á Akranesi fór ég æði oft hjólandi, skokkandi og gangandi um nágrenni bæjarins, og mér tók að þykja vænt um landslagið og fuglalífið. Svæðið milli þéttbýlisins og fjallsins kallast Garðaflói. Þar er hægt að staldra við á vorin og hlusta á mófuglana. Þarna eru vaxandi skógræktarsvæði í Garðalundi, við Klapparholt og Slögu – svo er Akrafjallið skemmtilegt uppgöngu og þar höfum við félagar í Rótarýklúbbi Akraness sett þrep í Selbrekkuna og göngubrú yfir Berjadalsá sem rennur niður úr fjallinu.
Sumar bestu gönguleiðirnar á Akranesi eru við sjóinn. Greiðfært er með ströndinni norðvestanvert í bænum og áfram í norðaustur úr í Innstavogsnes. Allt það svæði er auðugt af fuglalífi og náttúrufegurð sem blasir við hvort sem maður horfir niður í fjöruna eða lítur upp og sér Snæfellsnes, fjöllin yfir Mýrunum, Hafnarfjall og Skarðsheiði. Sunnanvert á nesinu er hægt að ganga frá gamla vitanum neðan við Breið, meðfram höfninni og eftir Langasandi og áfram yfir Sólmundarhöfða.
Sá af þessum stöðum sem ég heimsótti oftast í huganum nú í vetur, eftir að ég fluttist til Reykjavíkur, er Langisandur. Það er eitthvað við birtuna þar sem er erfitt að lýsa og um sandinn sjálfan duga engin orð. Hann er síbreytilegur. Stundum er hann eins og spegill og hefur lit himinblámans, stundum er hann gullinn og stundum nær hvítur. Lögun hans breytist með flóði og fjöru þannig að í raun gengur þar enginn sömu leiðina dag eftir dag. Sjávarhljóðin hafa samt alltaf jafn góð áhrif á hugann og eru líkast til heilsubót ekki síður en hreyfingin og útiloftið.