Laufabrauðsgerð í Viðey um helgina

„Sumir vanda sig og aðrir vanda sig ekki. Þú veist hvernig þetta er“, segir Margrét Sigfúsdóttir skólastýra Hússtjórnarskólans í Reykjavík, sem ætlar um helgina að kenna gestum í Viðey kúnstina að skera út laufabrauð. „Sumir eru ofboðslega flínkir strax. Það þarf mikla natni og nákvæmni til að skera brauðið fallega út. Það er ekki hægt að kasta til hendinni, það verður aldrei fallegt svoleiðis“, bætir hún við.

Margrét Sigfúsdóttir skólastýra

Ólst ekki upp við að gera laufabrauð

Um helgina verður laufabrauðsgerð í Viðey, en það er orðinn árviss viðburður á vegum Borgarsögusafns. Margrét hefur séð um það undanfarin ár að leiðbeina gestunum við laufabrauðsskurðinn. Hún segir að þetta sé vel sóttur viðburður og skemmtilegur. Sjálf ólst hún ekki upp við að það væri gert laufabrauð fyrir jólin, en lærði það bæði í húsmæðraskóla og húsmæðrakennaraskólanum. „Við vorum einmitt að baka laufabrauð í morgun“, segir hún þegar Lifðu núna náði tali af henni, en 16 stúlkur eru hjá henni í námi um þessar mundir. Það er að vísu heldur færra en vanalega, en fjöldi þeirra sem fer í húsmæðraskóla ræðst nokkuð af hagsveiflunni að sögn Margrétar. „Þegar það er næg atvinna, þá minnkar aðsóknin. Þannig var það á árunum 2006 til 2007, þá minnkaði hún. Svo komu ár þegar maður hafði ekki undan“.

Aðalmálið að vanda sig við að skera út

„Kúnstin við að gera gott laufabrauð, snýst um að mæla rétt og brædda smjörið og mjólkin þurfa að vera vel heit, þegar það er sett út í mjölið svo það hlaupi saman. Það þarf líka að passa að það sé ekki of þurrt. Kökurnar þurfa svo allar að vera jafn stórar og jafn þykkar“, segir Margrét og heldur áfram að útlista leyndardóminn við að gera fallegt laufabrauð. „Aðalmálið er að vanda sig við að skera út, fletta vel við og fallega. Svo þarf að passa að pikkka kökurnar vel áður en þær eru steiktar. Hliðin þar sem útskurðurinn er festur niður, þarf að snúa niður þegar kakan fer í pottinn. Ef hún snýr upp, vill hann losna upp“, segir hún.  Það þarf að hafa hraðar hendur við að steikja laufabrauðið á báðum hliðum, því feitin í pottinum er 180 gráðu heit.  Þegar búið er að steikja það er kakan sett á þurran flöt og lok sett ofaná hana til að slétta hana“.

Það er gaman að spreyta sig við Laugabrauðsgerðina

Sama fólkið kemur ár eftir ár

Það er oft sama fólkið sem kemur í laufabrauðsgerðina í Viðey ár eftir ár. Margrét segir að hjá einhverjum sé þetta hluti af jólaundirbúningnum. Laufabrauðsgerðin á sunnudaginn hefst klukkan 13:30. Margrét segir að fólk fái litla hnífa í útskurðinn en þeir sem eigi laufabrauðsjárn séu hvattir til að taka þau með sér. „Svo fær fólk kökurnar og sker út. Deigið er steikt fyrir það og menn fá síðan litla öskju og taka brauðið með sér heim“, segir hún. Tíu laufabrauð í öskju kosta 2000 krónur.

Gaman ef útskurðarmeistarar kæmu

Í tilkynningu frá Borgarsögusafni segir að Viðey skarti sínu fegursta þessa dagana og fjölskyldur eru hvattar til að koma út í eyju og eiga þar góða stund saman við laufabrauðsútskurð og orðrétt segir: „og gaman væri ef vanir útskurðarmeistarar myndu koma og miðla þekkingu sinni. Svo er aldrei að vita nema jólasveinninn renni á steikarlyktina og kíki í heimsókn“. Í tilkynningunni eru einnig eftirfarandi upplýsingar um siglingar út í Viðey á sunnudaginn.

Ferjan – áætlun og verð

Ferjan siglir til Viðeyjar frá Skarfabakka klukkan 13:15, 14:15, 15:15.

Ferjukostnaður:

Fullorðnir 16 ára og eldri: 1.500 kr.

Börn 7-15 ára 750 kr.

Eldri borgarar og öryrkjar 1.350 kr.

 

Ritstjórn nóvember 24, 2017 10:40