Leiðist ekki eftir starfslok

Nýjasta bók Guðrúnar nefnist tuskuprjón.

Guðrúnu Magnúsdóttur kannast eflaust margir við en hún var kennari þar til hún ákvað að hætta að vinna, þá 56 ára gömul. Hún segir brosandi frá því að hún hafi verið svo heppin allan sinn feril að hún hafi alltaf fengið að kenna bestu börnunum. Það eitt segir nú líklega allt um það hvað Guðrún hefur verið góður kennari ef mestu ólátabelgirnir urðu meira að segja ljúfir eins og lömb í tímum hjá henni. Hún er nú komin yfir sjötugt og leiðist aldrei.

Guðrún kenndi fyrst í Ísaksskóla þar sem hún kenndi yngstu börnunum, þaðan fór hún til Akraness þar sem hún kenndi í Grundarskóla og endaði í Selásskóla í Reykjavík þar sem hún kenndi  þar til hún hætti. Guðrún var handmenntakennari til að byrja með og bætti síðar við sig almennu kennaranámi og þar gat hún notað handmenntareynsluna með í alla aðra kennslu.

,,Ég ákvað að það væri komið nóg af kennslu og tími kominn til að njóta lífsins óbundin því kennslan er auðvitað

Guðrún og Jón hafa haldið ótal veislur í sumarbústaðnum.

mjög bindandi,“ segir Guðrún um það af hverju hún hætti svo snemma að kenna. ,,Maður getur nefnilega ekki farið í frí þegar það hentar manni sjálfum best,“ segir Guðrún. ,,Ég ákvað því að hætta á meðan ég hefði góða heilsu og snúa mér að öðru. Ég á geysilega góðar minningar úr kennslunni en allir góðir hlutir taka enda og nú var komið að því hjá mér.“

Fyrsta bókin

,,Það vildi þannig til að ég hafði ekkert að prjóna eftir að ég hætti kennslunni því það voru allar skúffur fullar hjá börnum og barnabörnum af alls konar prjóni eftir mig. Þá ákvað ég að einbeita mér að því að prjóna eitt par af sokkum á viku. Dóttir mín var svo hrifin af þessu uppátæki mínu að hún fór til Forlagsins og sagði þeim af þessari hugmynd og þeir kveiktu strax á perunni. Þau vildu fá að gefa út bók með þessum sokkum sem ég hafði verið að prjóna og það var fyrsta bókin. Alls hafa komið út 7 bækur og nokkrar hafa verið endurprentaðar. Auk þess hafa nokkrar þeirra verið þýddar á norsku, sænsku og dönsku.“ segir Guðrún ánægð.

4 börn og 12 barnabörn

Nú fer Guðrún að huga að jólakortaföndrinu.

Guðrún á fjögur börn og 12 barnabörn sem mörg voru notuð sem fyrirsætur við vinnslu bóka hennar. Í bókum sínum kennir Guðrún í máli og myndum hvernig prjóna má allt frá sokkum og vettlingum til jólaskrauts og sú nýjasta heitir tuskuprjón. ,,Prjónaskapur hefur blómstrað enn meira núna en oft áður. Ég held að prjónið hafi tekið svona vel við sér á covid-tímanum og margir fundu út hversu skemmtilegur og gefandi prjónaskapur er,“ segir Guðrún. Dætur hennar eru allar liðtækir prjónarar og ein dóttirin er með mjög skemmtilegan prjónavef sem nefnist www.knithilda.is.

Sumarbústaður í Melasveitinni

Séð frá útidyrahurðinni út eftir pallinum á sumarbústaðnum.

Guðrún og eiginmaður hennar, Jón Sveinsson lögfræðingur, byggðu sér sumarbústað í Melasveitinni í Borgarfirði fyrir mörgum árum þar sem þau dvelja mikið bæði sumar og vetur. Þar eru þau með eyju þar sem er dúntekja og á vorin og fram eftir sumri eru þau upptekin við að tína dún. ,,Þá koma krakkarnir gjarnan og hjálpa við dúntekjuna og allir una sér vel í sveitinni. Elsta barnabarnið er 21 árs strákur og yngsta barnabarnið 7 mánaða strákur og svo eru hin tíu þar á milli. Ég hef mikið yndi af því að vera nálægt þessum ólíku og skemmtilegu einstaklingum,“ segir Guðrún brosandi svo þar fer amma sem óhætt er að biðja um að passa.

Samvinna

Ein dóttir Guðrúnar hefur sett bækur hennar upp og sonurinn tók allar myndir. Hinar tvær dæturnar hjálpuðu Guðrúnu að prufuprjóna það sem fór í bækurnar en að baki hverri bók liggur gífurleg vinna við að útbúa allar uppskriftirnar þannig að auðvelt sé að fara eftir þeim enda margprófaðar.

Að njóta lífsins

Svar Guðrúnar við spurningunni um hvað hún sé með á prjónunum um þessar mundir var ,,að njóta lífsins“. ,,Við höfum verið að byggja við sumarbústaðinn og setja niður plöntur svo þar er töluverð vinna. Og svo getur maður aftur farið að ferðast ef sá gállinn er á manni. Ég er svo lánsöm að hafa alltaf eitthvað að hlakka til,“ segir Guðrún og iðar í skinninu að takast á við næsta verkefni. Nú líður að jólum og hún hefur alltaf föndrað jólakort sem hún hefur sent og samið vísu sem hún lætur fylgja.

Guðrún segir að útgáfa prjónabókanna hafi verið einstaklega gefandi og skemmtileg vinna. ,,Ritstjórinn minn hjá Forlaginu, Oddný Jónsdóttir hefur verið ótrúlega jákvæð sem gerði alla vinnuna óviðjafnanlega skemmtilega,“ segir þessi lifandi kona sem lætur aldurinn ekki stoppa sig í að lifa lífinu lifandi.

Ritstjórn september 30, 2022 07:00