Garðar Cortes er fæddur 1940 og er því orðinn 81 árs gamall. Eftirnafnið er frá föðurafa hans en hann kom hingað til lands frá Svíþjóð með Gutemberg prentvélar á sínum tíma. Hann hitti hér á landi íðilfagra, íslenska stúlku og þá var ekki aftur snúið.
Spurður um heilsufarið segist Garðar vera eldklár í kollinum enda hafi hann enn í mörgu að snúast. Garðar hætti að koma fram á tónleikum um sextugt en ástæðuna fyrir því segir hann hafa verið fyrst og fremst þá að á þeim tíma hafi eðlilega verið komið að kynslóðaskiptum á óperusviðinu og yngri söngvarar að taka við. Hann tók þá til við að syngja inn á diska svo eftir hann liggja sem betur fer dýrgripir þótt við heyrum ekki lengur í honum á sviði.
Óþrjótandi listrænn kraftur
Garðar hefur komið viða við í tónlistarlífi á Íslandi og við höfum fengið að njóta krafta hans vel. Hann var rétt rúmlega þrítugur þegar hann réðst í að stofna Söngskólann í Reykjavík 1973 en það var aðeins byrjunin á farsælum ferli hans á tónlistarsviðinu. Skólinn er 50 ára á næsta ári og Garðar hefur stýrt honum alla tíð og er hvergi nærri hættur að láta til sín taka þótt röddin sé ekki til staðar lengur.
Garðar lauk einsöngvara- og söngkennaraprófum frá The Royal Academy of Music, Trinity College of Music London og Watford School of Music í Englandi á árunum 1963 og 1969 þar sem leiðir hans og Krystynu Cortes eiginkonu hans lágu saman en Krystyna er píanóleikari. Garðar stofnaði Sinfóníuhljómsveitina í Reykjavík 1975 og Íslensku Óperuna 1979 þar sem hann var óperustjóri til 2000 auk margra annarra verkefna sem hann hefur komið að. Hann tekur skýrt fram að það sem hafi gert gæfumuninn og gert þessar stofnanir að því sem þær eru hafi verið ótrúleg heppni hans að fá til liðs við sig hæfileikaríkt fólk. ,,Þetta er ekki fólk sem kom og fór heldur er það búið að vera með mér meira og minna öll árin,” segir hann.
Heimska að selja Óperuna
Garðar er ómyrkur í máli þegar Íslensku óperuna ber á góma. Það var 1979 sem Sigurliði Kristjánsson, eða Silli, og eiginkona hans Helga Jónsdóttir, gáfu fé til kaupa á Gamla bíói fyrir Íslensku óperuna. ,,Þessi höfðinglega gjöf var gefin af miklum rausnarskap af tveimur einlægum listunnendum. Það hefði aldrei átt að selja Óperuna og flytja starfsemina,” segir Garðar. ,,Það var mikil vanhugsun, eiginlega svo mikil heimska að ég trúi ekki enn að það hafi gerst.,” segir Garðar ákveðinn. ,,Gamla bíó var eins konar varnarheimili sem veitti okkur skjól og kraft til að halda áfram á erfiðum tímum. Þeir sem stóðu að þeirri aðgerð þurfa að vita að þetta voru mikil mistök. Óperuheimurinn mátti ekki við þessu og enn stendur styr um Óperuna.”
En hvað segir Garðar um Óperuheiminn á Íslandi í dag? ,,Mér líst ekki alveg á hann,” segir Garðar. ,,Það eru í rauninni fleiri óperusöngvarar á Íslandi en gott er því lykilsöngvarar komast ekki að.
Þegar íslenskir söngvarar fara út í framhaldsnám er tekið eftir þeim því það eru meðmæli að vera frá Íslandi raddlega séð. Þegar þeir syngja fyrir flykkjast umboðsmenn, skólastjórar og óperustjórar að til að hlusta á þá en samfélagið okkar er bara svo lítið að þegar þeir koma heim sem atvinnumenn komast þeir ekki að því það vantar atvinnuvettvang.“
Afdrifarík liðskiptaaðgerð
Eins kaldhæðnislegt og það hljómar missti Garðar röddina í hnjáliðskiptaaðgerð fyrir sex árum. ,,Ég var mjög vel sönghæfur fram að þeim tíma og auðvitað er það sorg og eftirsjá að svo skyldi hafa farið en það þýðir ekki að sýta það. Ég var orðinn fullorðinn og eins gott að velta því ekki fyrir sér of lengi,” segir Garðar og er reynslunni ríkari.
,,Ég þakka bara fyrir tímann sem ég átti í söngnum því ég naut hverrar mínútu,” segir hann en það er ekki eins og Garðar sé hættur í söngnum þótt hann syngi ekki sjálfur því annað hefur tekið við.
Kórarnir eins og hann vill hafa þá
Garðar stjórnar tveimur kórum í dag. Hann stofnaði upphaflega Kór Söngskólans í Reykjavík og þegar Óperan var stofnuð varð sá kór að Kór íslensku óperunnar. Og þegar Garðar hætti hjá Óperunni varð sá kór að Óperukórnum í Reykjavík, blönduðum kór ungra og fullþroskaðra radda, alveg eins og hann vill hafa góðan kór. Í honum eru 50 manns. Hann en líka með Karlakór Kópavogs sem hann segir að samanstandi af 62 áhugasömum karlaröddum.
Inn kom ung stúlka
Viðtalið fór fram á skrifstofu Garðars í Söngskólanum og allt í einu var bankað á dyrnar. Inn kom ung stúlka sem Garðar fagnaði innilega. Hann sagðist brosandi ekki heilsa öllum nemendum sínum svona innilega heldur væri þetta afabarn sem væri líka nemandi hjá honum. Garðar og Krystyna eiga nokkra afkomendur sem hafa numið söng en þau eiga saman þrjú börn. Garðar átti fyrir dóttur, Sigrúnu Björk, og stúlkan, Ísafold, sem kom að knúsa afa sinn er dóttir hennar. Garðar segir brosandi að Sigrún Björk hafi sannarlega rödd en hafi ákveðið að vera skynsöm og fara aðra leið.
Hver afkomandinn á fætur öðrum stígur fram
Nú stígur hver afkomandi af öðrum inn á óperusviðið á Íslandi. Flestir þekkja nafna Garðars, Garðar Thór Cortes yngri, bróðir hans Aron Axel er á leið heim úr söngnámi í Saltzburg og systir þeirra, Nanna María er
fastráðin í óperukórnum í Osló þar sem hún býr. Garðar segir brosandi frá því að krakkarnir þeirra hafi öll farið þessa leið í lífinu án aðkomu foreldranna. ,,Þau völdu söngin sjálf jafnvel þótt við segðum þeim að það væri nú kannski skynsamlegra að gera eitthvað annað. En í ljós kom að þau höfðu öll raddirnar í þetta svo val þeirra blessaðist. Þau sungu eitt sinn öll í uppfærslu með mér, stórri sinfóníuhljómsveit og óperukórnum í Noregi. Eftir tónleikana kom gagnrýni þar sem var sagt að stjórnandinn hefði aldeilis farið út á hálan ís með því að láta börnin sín vera sólista. Svo bætti gagnrýnandinn við: ,,En, hann vissi greinilega hvað hann var að gera,” segir Garðar ánægður á svip. ,,Þau hafa komið fram öll saman við fleiri tækifæri eins og til dæmis í fyrra þegar þau sungu með mér í Mozart Requiem þar sem Nanna söng sópraninn, Sigríður Ósk altinn, Garðar tenórinn og Aron Axel bassann.“
Hvernig líða dagarnir hjá Garðari
Garðar er vanur að vakna snemma, allt frá því hann stundaði hestamennsku áður fyrr. ,,Ég vakna 6 á morgnana og í stað þess að fara og moka undan hestum fer ég í morgunmat í bakaríið í Suðurveri þar sem við félagarnir höfum hist svo árum skiptir. Þar les ég blöðin og spjalla við strákana og stundum leysum við heimsmálin,” segir Garðar og hlær. ,,Síðan kem ég hingað niður í Söngskóla og sinni vinnu, er meðal annars með master klassa tíma þar sem ég segi flestum nemendum skólans til. Í eðlilegu ári hitti ég svo kórana mína og nú förum við að geta hist aftur,” segir Garðar Cortes og er ánægður með lífið þótt röddin sé sködduð. Hann hefur svo margt annað til að lifa fyrir.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.
Viðtalið birtist áður á vef Lifðu núna vorið 2021