Í vikunni sögðu hjúkrunarfræðingar við bráðadeild Landspítalans upp störfum vegna ofálags. Skortur á hjúkrunarfræðingum og fleira fagfólki í heilbrigðisþjónustu hrjáir íslenska heilbrigðiskerfið. En það er ekki eitt um það. Breska stórblaðið The Financial Times birtir í dag, fimmtudag, stóra grein um hina „hnattrænu hjúkrunarkreppu“.
„Hjúkrunarfræðingar voru hylltir sem hetjur af ríkisstjórnum heimsins þegar heimsfaraldurinn skall á. En afleitar starfsaðstæður hafa leitt marga til að yfirgefa stéttina,“ segir í inngangsorðum greinarinnar.
5,9 milljónir vantar til starfa
Á árinu 2020 áætlaði Alþjóða heilbrigðismálastofnunin WHO að 5,9 milljónir hjúkrunarfræðinga vantaði til starfa á sjúkrastofnunum heimsins, en það er nærri fjórðungur þess fjölda sem mannar stéttina nú samkvæmt tölum stofnunarinnar, nærri 28 milljónir. Alvarlegasti skorturinn er í löndum með miðlungs tekjur á mann eða lægri, en flest þessara landa eru í Afríku, Suður- og Mið-Ameríku, SA-Asíu og austanverðum Mið-Austurlöndum.
Heimsfaraldurinn gerði illt verra. Samkvæmt upplýsingum WHO dóu alls um 180.000 heilbrigðisstarfsmenn úr Covid-19 á fyrsta rúma ári faraldursins, eða frá janúar 2020 til maí 2021. Margir fleiri upplifðu kulnun og andleg veikindi af því að fást alla daga við óreiðuna, óttann og sífellt nýjar smitbylgjur stökkbreyttrar veirunnar sem yfirfyllti bráðamóttökur sjúkrahúsa um allan heim.
Heilbrigðisyfirvöld í mörgum ríkum löndum vara nú við því að flótti fagfólks úr stétt hjúkrunarfræðinga, ásamt stóraukinni tíðni veikindaleyfa framlínustarfsfólks, reyni nú á öll þolmörk og hafi gert að engu þann árangur sem náðst hafi árin fyrir faraldurinn í að bæta mönnun sjúkrastofnana.
Ein stærsta ógnin við heilbrigði í heiminum
Howard Catton, framkvæmdastjóri Alþjóðaráðs hjúkrunarfræðinga (International Council of Nurses), samtökum fleiri en 130 landssamtaka hjúkrunarfræðinga, segir að hjúkrunarfólk hafi með réttu verið hyllt sem hetjur þegar faraldurinn skall á. En þrátt fyrir það eru stjórnvöld í ríkjum heims ekki að gera nóg til að bæta úr kerfislægum vandamálum eins og lágum launum, slæmum starfsaðstæðum eða ófullnægjandi þjálfun fagfólks.
„Hinn hnattræni skortur á hjúkrunarfagfólki er ein stærsta ógnin við heilbrigði fólks í öllum heiminum,“ hefur FT eftir Catton. Hann gizkar á að allt að þrjár milljónir hjúkrunarfræðinga í viðbót kunni af völdum heimsfaraldursins að yfirgefa stéttina fyrr en þeir hefðu annars ætlað sér.
Á krísutímum er oft gripið til þess – í ríkum löndum nota bene – að ráða heilbrigðisstarfsfólk frá útlöndum. Catton segir að þetta starfsfólk komi oft frá löndum sem mega sízt við því að missa það.
Óánægja áfram útbreidd
Í Bandaríkjunum hættu um 15 prósent hjúkrunarfræðinga á fyrsta ári faraldursins, samkvæmt niðurstöðum úttektar sem ráðgjafarfyrirtækið McKinsey & Co birti í ágúst í fyrra. 2021-2022 yfirgáfu 13 prósent fleiri hjúkrunarfræðingar stéttina í Bretlandi en árið á undan. Óánægja meðal hjúkrunarstarfsfólks er útbreidd um allan heim. Samkvæmt eftirfylgniskýrslu frá McKinsey kveðst um þriðjungur hjúkrunarfræðinga í fimm af sex löndum sem úttektin náði til (Bandaríkjanna, Bretlands, Singapore, Japans og Frakklands) vera að íhuga að hætta innan árs.
Sláandi samræmi er í ástæðunum sem þessi þriðjungur gefur upp fyrir óánægju sinni: Launakjör komu tiltölulega neðarlega á lista; þess í stað snúast aðaláhyggjuefnin meira um viðurkenningu, álag og fleira sem varðar daglegar starfsaðstæður.
Covid hefur nú þegar valdið „fordæmalausum skaða“ á stétt hjúkrunarfræðinga í heiminum, að því er segir í skýrslu Alþjóðamiðstöðvar um flutninga hjúkrunarstarfsfólks milli landa (International Centre on Nurse Migration) sem birt var í byrjun þessa árs. Miðstöðin hvetur heilbrigðisyfirvöld í ríkjum heims og alþjóðastofnanir til að grípa þegar í stað til aðgerða. Fylgjast verði betur með flæði hjúkrunarstarfsfólks milli landa, mönnunarþjónustumilliliðunum og samningum sem gerðir eru milli ríkra landa og fátækra um slíka flutninga.
Fjárfesting í hjúkrun borgi sig
„Það sem við þurfum er samhæft átak landsyfirvalda og alþjóðlega,“ segir James Buchan, talsmaður brezku góðgerðarsamtakanna Health Foundation. Stjórnvöld í hverju ríki fyrir sig ættu að gera það sem í þeirra valdi stendur til að bæta úr hættulega bágri mönnun sjúkrastofnana sem leiðir til kulnunar og stéttarflótta. Finna verði leiðir til að fjölga tækifærum til þjálfunar starfsfólks og að gera þessi störf meira aðlaðandi með bættum launakjörum og starfsaðstæðum.
„Stjórnvöld verða að viðurkenna að hjúkrun á eftir að verða kjarnaatriðið í efnahagsbata framtíðarinnar,“ segir Buchan. „Veigamestu skilaboðin hér er að við lítum ekki á hjúkrun sem kostnað fyrir hagkerfið, heldur fjárfestingu til framtíðar.“