Lífið gekk út á að færa björg í bú

Páll Halldór Halldórsson fæddist á Ísafirði, er ættaður frá Grunnavík en ólst upp í Hnífsdal. Hann heldur úti hlaðvarpinu Bílar, fólk og ferðir og hefur alla tíð starfað í kringum bíla. Hann segir að lífið fyrr á tímum þegar fólk var einangrað á Vestfjörðum og bjó við óblíða náttúru hafi ekki bara mótað eina kynslóð heldur næstu kynslóðir sem á eftir komu.

Lífsbaráttan hafði áhrif til næstu kynslóða

Í Hnífsdal þar sem Páll Halldór ólst upp eru há fjöll beggja vegna dalsins þar sem hætta er oft á snjóflóðum en Hnífsdalur stendur við ólgandi hafið sem hefur tekið til sín mörg líf. Slíkt hefur áhrif á Hnífsdælinga en þeir eru duglegt fólk og samhent. Mamma Páls er ættuð norðan af Ströndum en faðir hans var Grunnvíkingur. „Mamma var send í sveit á Dynjandi og í Bolungarvík á Ströndum. Hún fór með bát bráðung til að gera gagn. Lífsbaráttan á þessum tíma var allt önnur en við þekkjum í dag.“ Páll segir að Grunnvíkingar hafi ekki verið eins afskiptir og þeir sem bjuggu norðar eins og á Hornströndum, í Aðalvík og í Fljótavík en byggðin í Grunnavík fór í eyði 1962. „Pabbi vildi ekki segja nokkurn neikvæðan hluti um lífið í Grunnavík. Ég las þó á milli línanna og ímynda mér að þetta hafi verið afar erfið lífsbarátta. Það er til Grunnvíkingabók en þar segir t.d. að föðuramma mín hafi átt borðbúnað fyrir fjóra.

Það eru tún þarna, en svolítið framfrá, en fólk byggði húsin niðri við fjöru þar sem stutt var í fiskinn og svo var farið eitthvað eftir eggjum en það var langt í bjargið. Pabbi sagði að það hefið alltaf verið til nóg af mat, maturinn var reyktur og settur í súr. Mér skilst t.d. að það hafi ekki verið margir hestar í Grunnavík. Það er til mynd af pabba fjögurra til fimm ára við hest en hann var látinn á þessum aldri fara með hestinn á næstu bæi, jafnvel dagleið með hann í vinnu til að lána hann undir dráttarvélina. Svo beið hann og kom til baka um kvöldið.

Amma kom sem ráðskona til afa sem eftir að hann missti konuna sína, en hann átti fimm börn með sinni fyrri konu.  Þau bjuggu á Sútarabúðum, húsið sendur enn og er gistihús á sumrin. Friðbjörn afi var duglegur á sjó og amma Sólveig var heima. Albræðurnir urðu svo tíu, sá yngsti ætíð kallaður Kristján tíundi.

Páll segir að oft hafi verið mjög skýlt í Grunnavík og þá algjör paradís að vera þar en alveg jafnvont þegar veðuráttin var önnur. Böll voru haldin á Flæðareyri og fólk lagði ýmislegt á sig til að komast þangað og gekk langar leiðir. „Fólk hafði væntingar til lífsins og til að finna lífsförunaut. En fólk var líka að para sig mjög skylt á þessu svæði. Þetta var ekki auðvelt alltaf, einangrunin átti þarna þátt og svo var hitt að fólk vildi halda börnunum ef makinn dó. Afi minn dó 1942, yngsti bróðirinn var eins árs og amma stóð uppi ein. Presturinn þarna, sr. Jónmundur, vildi taka hana heim á bæ til að gera hana að húsfreyju eða hjálpa sér við að reka bæinn. Hún hugsaði þetta vel og ákv. að láta slag standa. Hún fór til að semja við prestinn þegar henni varð ljóst að drengirnir áttu ekki að fylgja með. Þá sagði hún: Nei, ég kem ekki hingað nema að taka drengina með og hún fór ekki en flutti í Bæi á Snæfjallaströnd og svo í Hnífsdal löngu seinna. Pabbi sagði frá því þegar þau fluttu frá Grunnavík 1948. Hann var 15 ára og fékk það hlutverk að fara með beljurnar, rak þær yfir heiði og kom niður í Unaðsdal Djúpmegin, þau fluttu um hásumar og það tók um sólarhring. Og það var farið það seint af stað dags til að ná heiðinni yfir hánótt til þess að hafa froststirningu á snjónum svo það væri auðveldara að fara með kýrnar yfir.“

Áhrifin koma fram í næstu kynslóðum Páll Halldór og Sólveig, amma hans.

Hjálpsemin sem hafi verið manna á milli í Grunnavík gætti hjá kynslóð foreldra Páls og hans kynslóðar í Hnífsdal. „Fólkið heima skildi t.d. lyklana eftir í bílunum sínum og aðrir tóku þá að láni, þetta þótti bara eðlilegt. Fólk hjálpaðist að við að byggja hús. Hnífsdalur er allur byggður upp af hjálpsemi nágrannanna. Það er mikið um karla í fjölskyldunni og alltaf var amma með heimabakað fyrir strákastóðið. Ég man bara eftir ömmu sem gamalli og þreyttri, þetta fólk var útslitið.

Það er oft sagt að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn og ég held að það hafi verið mín lukka að hafa alist upp þar sem um 350-400 manns áttu heima. Mamma var heima með okkur krakkana en pabbi vann mjög mikið og ég er honum þakklátur fyrir að hafa lagt það mikið á sig að mamma gæti verið heima. Þau eignuðust dreng sem þau misstu fimm mánaða og ég ber nafn hans. Ég hef fundið í gegnum árin að mamma hefur skýra sýn fyrir mig, þó að hún hafi ekki pressað á mig þá hef ég stundum þurft að fylla skarð bróður míns. Mamma sagði að það að missa barn en þora samt að sleppa tökunum á börnunum sínum væri erfitt en ég fékk frelsi til að gera það sem ég þurfti og mig langaði. Pabbi var á sjónum en hætti og kom í land þegar systir mín fæddist sem er fjórum árum eldri en ég. En ég átti marga skólafélaga sem höfðu misst feður sína í hafið og man eftir bát þar sem sex manns fórust, allir úr Hnífsdal. Þessi lífsbarátta hafði margvísleg áhrif. Ég t.d. býð alltaf fólki góðan daginn, fólk lítur á mig oft hissa hér í Reykjavík, það er sterkt í mér líka að heildin sé það sem þarf, ég þekki alla í götunni heima, ég vil hafa það þannig því þá verður nærsamfélagið gott.

En það eru náttúrlega líka alls konar vandræði í þorpi. Það var t.d. ein fjölskylda þar sem fjölskyldufaðirinn var mikið á sjónum en frúin heima. Eins og gengur, þá var vín mikið haft um hönd er í land var komið. Hún veiktist eitt sinn en þau áttu fjögur börn. Þá komu konur og tóku hver eitt barn til sín. Einn strákurinn kom til okkar og annað barn í næsta hús. Það var ekkert verið að kalla til barnayfirvöld, mömmurnar fóru bara í þetta, þannig var samfélagið.“

Páll segir það hafa verið þegjandi samkomulag í þorpinu um að siða börn til ef það sást til þeirra gera eitthvað sem þau áttu ekki að gera. „Sjálfur geri ég þetta í dag, ég stoppa bílinn ef ég sé t.d. krakka slást. Þetta er líka í mínum börnum.“

Alinn upp við að gera gagn

„Ég var farinn að vinna fjóra tíma á dag sumarið sem ég varð 11 ára gamall. Maður fór yngri að fylgjast með útkalli hjá slökkviliðinu eða björgunarsveitinni til að læra og elta karlana. Maður gekk í hús og rukkaði fyrir menn sem unnu í þorpinu, maður fékk alltaf verkefni og var treyst. Hraun er bóndabær í Hnífsdal, maður vann í frystihúsinu fyrir hádegi og fór í sveit eftir hádegi,“ segir Páll og skellir upp úr. Hann segir ekki mikla peninga hafa verið í umferð heldur hafi fólk gert greiða á móti greiða. „Við krakkarnir vorum látnir gera gagn og það er sterkt í manni. Þegar flutningabílar komu með varning voru krakkarnir mættir til að grípa kassana og fara með á réttan stað.

Það er margt í uppvextinum sem hefur haft áhrif á fólk. Pabbi færði mér t.d. alltaf stoltur mat þegar hann kom suður til mín, harðfisk, kæfu, saltfisk, svið o.fl, allt sem hann hafði lært að búa til. Ég held að þetta hafi verið arfleifð frá Grunnavík. Lífið gekk út á að færa björg í bú. Hann gerði gamaldags gæðamat og fékk annað í staðinn. Fólk úr Reykjavík var sólgið í þetta, sérstaklega harðfiskinn sem hann nostraði við.“

Páll segir fólk hafa verið nægjusamt og að það hafi gengið áfram til afkomendanna. „En manni var líka sagt að gera hlutina, það var ekkert endilega val. Þegar ég var 18 ára sagði pabbi við mig: Jæja, Páll minn, nú verður þú að taka við af mér og fara í björgunarsveitina. Og ég fór. Við nokkrir strákar vildum gera björgunarsveitina enn betri á 50 ára afmæli hennar og fá ný tæki við björgun. Við fórum til Jóakims Pálssonar sem var útgerðarmaður í Hnífsdal og einn stofnenda björgunarsveitarinnar. „Hvað eigum við að gera, vantar ekki eitthvað?“ spurði hann. „Vélsleða, galla, kerrur,“ svaraði ég. „Vantar ekki eitthvað meira?“ „Það væri gaman að eiga Zodiac-gúmmíbát með mótor.“ „Við kaupum hann líka.“ Og Jóakim hafði áður gefið skíðalyftu. Svona var samfélagið. Þetta útgerðarfélag er enn til og heitir nú Gunnvör. Það sem líka gerir okkur Hnífsdælinga að því sem við erum er að fólk gerir það sem þarf og bjargar sér, það er ekki að lobbýast og fer ófeimið í hlutina.“

Snjóflóð og skólinn sem fauk út á haf

Náttúran á Vestfjörðum getur verið óblíð og erfið, snjóþungi getur verið mikill, hætta skapast á vegum og víða hafa verið snjóflóð eins og alþjóð veit. „Maður þekkir ekkert annað, maður lærði að lesa í aðstæður og sjá þegar eitthvað var við það að gerast. Ég hef lent fjórum sinnum í snjóflóði. Í eitt skiptið lenti ég í stóru sjóflóði og var þá á flutningabíl í Skötufirði og sé að það kemur veghefill á móti þannig að ég stoppa til að hleypa honum fram hjá. Allt í einu kemur svakalegt högg og læti. Það var vindurinn að koma á undan snjóflóðinu sem sjatnaði á einhverjum sekúndum. Þá sé ég ekki veghefilinn, hann er hinum megin við bunguna. Maður hefur nokkrar sekúndur til að komast út úr snjóflóði áður en mjöllin sest og verður að e.k. steypu. Veghefillinn komst út úr flóðinu og hugsanlega vildi mér það til lífs að framhjólin hjá mér voru í snjóflóðinu en afturhjólin á þurru malbiki. Ég náði því að bakka út. Ef ég hefði verið kominn bíllengd lengra, væri ég líklega ekki hér.“

Svo vill til að engin kirkja er í Hnífsdal en sóknin er lítil. „Það er bara kapella í nýrri skólanum, sá gamli fauk út á haf 1952 með öllum börnum og kennurum og þau duttu bara niður hér og þar á leiðinni en allir lifðu af,“ segir Páll um þennan atburð sem varð í Hnífsdal og lýsir lífinu og aðstæðum sem fólkið hefur löngum búið við og lítur á sem hluta af lífinu.

Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna.

Ritstjórn maí 17, 2024 07:00