Frampartur eða rúta

Sigrún Stefánsdóttir

Sigrún Stefánsdóttir skrifar

Ég lærði einhvern tímann að bílakaup væru ein versta fjárfesting sem að maður gerði.  Ég veit ekkert hvort þetta er rétt en ég hef lifað samkvæmt þessari kenningu. Við keyrum á smábíl, sem eldri sonur minn kallar frampart og ber hann enga virðingu fyrir farartækinu sem nú er orðið eldra en ég í bílárum – keypt árið 2006.

Við vorum í stuttri heimsókn í Árósum fyrir skömmu og sáum að framparturinn okkar hefði fallið vel inn bílaflota heimamanna sem flestir aka á smábílum sem eiga ekkert sameiginlegt með jeppunum á stóru dekkjunum sem keyra um götur Reykjavíkur.

Við reynum að fara vel með okkar aldraða frampart með því að aka sem minnst og fara heldur á tveimur jafnfljótum eða með rútu. Rútur eru gróflega vanmetin farartæki. Ég held að mörgum þyki rútur hallærislegar og að þær séu bara fyrir fólk sem á ekki bót fyrir rassinn á sér eða hefur aldrei tekið bílpróf. En rútur eru merkileg farartæki. Undanfarna mánuði höfum við verið í útlöndum, bíllaus, og höfum notað rútur til ferðalaga. Það er ódýrt að ferðast með rútu, sem er ágætis bónus. En kostirnir eru miklu fleiri. Þær koma og fara á föstum tíma. Bílstjórinn í rútunni þekkir leiðina. Það þýðir að bæði ég og sambýlingurinn getum setið slök og áhyggjulaus, laus við þrasið í honum um að ég segi honum of seint að hann eigi að beygja eða segi að hann eigi að beygja til vinstri þegar ég meina auðvitað til hægri. Við erum örugglega ekki eina parið sem lendir í svoleiðis senum.

Það er líka áhugaverð tómstundaiðja að skoða fólkið sem er í rútunni. Hvernig sumir kunna sig og aðrir ekki. Sumir tala í gemsa eins og þeir sé einir í heiminum. Aðrir steinsofa og virðast finna það á sér hvenær þeir eiga að vakna til þess að fara út á réttum stað. Það er alltaf eitthvað að gerast inni í rútunni og úti líður landslagið ljúflega hjá. Já –  það er gott fyrir sálina að ferðast með rútu.

 

 

 

 

Sigrún Stefánsdóttir janúar 8, 2018 12:29