Lífið hefur farið um vinina mismjúkum höndum

Ragnhildur Erla Bjarnadóttir

 

Ragnhildur Erla Bjarnadóttir skrifar:

Það er áhugavert að fylgjast með velgengni íslenskra spennusagnahöfunda erlendis og hefur Ragnar Jónasson slegið met víða um heim, bæði vestan hafs og austan. Þá verður áhugavert að sjá þætti CBS gerða eftir bókinni Dimmu.

Úti var valin af bóksölum þriðja besta íslenska skáldverkið sem kemur út fyrir þessi jól.

Fjórir vinir ganga til rjúpna þrátt fyrir tvísýna spá en einn í hópnum er leiðsögumaður og þekkir aðstæður vel og þrátt fyrir kuldann er ástæðulaust að óttast því þau ætla ekki langt. Við kynnumst hverju og einu þeirra þar sem bókinni er kaflaskipt, þar sem hvert og eitt þeirra hefur orðið. Lífið hefur farið um þau mismjúkum höndum og óuppgerð mál eru rifjuð upp. Við grípur niður í bókina þar sem Daníel hefur orðið:

Svo tók við dauðaþögn.

Daníel stóð stjarfur um stund, reyndi að átta sig á því hvað hefði gerst.  Eitthvað hafði Gunnlaugur séð, það fór vart á milli mála.

Daníel tók nokkur skref í viðbót inn í húsið, leit til beggja hliða með hjálp höfuðljóssins, en sá ekkert óvenjulegt. Svo horfði hann beint fram.

Og sú sýn sem blasti við honum var svo óvænt, svo óhugnanleg, að hann fann hvernig hjartað hætti næstum því að slá eitt augnablik.

Daníel reyndi að hrópa , en hann kom ekki upp orði, gat ekki hreyft sig, stóð bara kyrr og horfði fram fyrir sig.

Honum snögg kólnaði, hrollurinn hríslaðist upp eftir líkamanum á ógnarhraða.

Hann hafði aldrei verið svona hræddur.

Daníel hörfaði og það sama gerðu vinir hans. Og eins og hendi væri veifað voru þau öll komin út úr kofanum, aftur út í nístandi kuldann sem enginn grið gaf.

„Hver … hver andskotinn var þetta …?“ tókst Daníel loks að stynja upp. Hann skalf og kom orðunum rétt svo frá sér. „Hver andskotinn …“

Hann leit á Ármann, Helenu og Gunnlaug.

Hafði honum missýnst? Blekkingar hugans við svona óvenjulegar aðstæður.  Hann var uppgefinn, andlega og líkamlega, eftir baráttuna við storminn, og einhvern veginn höfðu augun svikið hann. Það var eina skýringin sem eitthvert vit var í.

Samt … samt höfðu þau öll brugðist eins við. Og það var undarleg stemmning í hópnum. Ótti, einhvers konar óskilgreindur ótti, fannst honum. Og sekúndurnar liðu svo löturhægt að hann langaði að öskra upp í himinhvolfin, öskra út í snjóinn sem æpti svo grimmilega á móti.

Ritstjórn desember 16, 2021 14:21