Skrítið að hafa engan starfstitil lengur  

“Ég varð 67  ára í byrjun janúar á síðasta ári og hætti störfum á vinnumarkaði  1. febrúar, sem var föstudagur. Er ég vaknaði á mánudegi var svolítið skrítið að þurfa ekki að fara til vinnu framar. Ég réði mér sjálfur. Viðurkenni að ég hefði viljað trappa mig niður í vinnu 50% svo 30% og hætta svo”, segir Aðalsteinn Örnólfsson í pistli sem hann sendi Lifðu núna og brtist hér.

Lofaði að verða ekki nöldursamt gamalmenni

“Þessi vika var svona til að átta sig á hlutunum. Ég ákvað að ég yrði að koma mér upp rútínu í lífinu. Vakna til að mynda á sama tíma og ég hafði alltaf gert. Núna get ég lesið og hlustað á  allar fréttir og farið í sund, því það er frítt fyrir eldri borgara. Þarna sit ég á morgnana og hlusta á samborgara mína spjalla um hvort einhvers staðar sé hægt að fá ábót á kaffið.

Mér finnst notalegt að ef ég nenni ekki einhverju í dag, þá bíður það bara morgundagsins. Ég er einn af þeim sem myndi aldrei viðurkenna að ég væri orðin gamall, en hraðinn hefur minnkað.

Ég lofaði góðum vini mínum að ég yrði aldrei nöldursamt og neikvætt gamalmenni.  Eftirlaunaárin eru mér gleðiefni og valda mér ekki áhyggjum. Vinnufélagar mínir sögðu, þú ert svo heppinn að hafa mörg áhugamál.

Sér um heimilisstörfin 

Þar sem ég var alltaf útivinnandi og þjálfaði knattspyrnu í 40 ár, var handknattleiksdómari og golfdómari, gerði ég nú ekki mikið heimavið. En nú myndi það snúast við. Nú sé ég um að halda heimilinu hreinu og þvo þvotta, því konan er ekki orðin eldri borgari og vinnur ennþá úti. Hún tjáir mér að hún muni ekki standa við hliðina á mér ef ég tek upp eldri borgara skírteinið. Skrítið að hafa engan starfstitil og teljast ekki lengur karl í krapinu.

Fór í bumbubolta

Ég verð að segja að hugurinn getur truflað mann. Ég fór í bumbubolta úti í USA hjá syni mínum, aldurinn var frá 37 ára til 66 ára. Á mínum yngri árum var ég mjög fljótur að hlaupa. Í bumbuboltanum var boltinn ekki langt undan og ég var búinn að ná honum í huganum en fæturnir svöruðu ekki eins hratt og hugurinn. Ég gat ekki annað en brosað að sjálfum mér.

Viðhorf til eftirlaunaaldursins misjafnt milli landa.

“Ég var að spila golf á mánudögum, með körlum og konum sem voru hætt að vinna. Það var misjafnt hvenær fólk hafði hætt, sumir hættu að vinna 55 ára eða 58 ára og seinna.  Þegar þeir heyrðu að ég væri ennþá að vinna 66 ára, sögðu þeir allir í kór  “Hættu að vinna” . Það væri ekki jafn auðvelt að segja það ef þeir vissu hvað ellilífeyririnn væri á Íslandi. Sumir þarna úti fá ellilífeyrinn frá fyrirtækinu sem þeir störfuðu hjá í ákveðinn árafjölda eftir að þeir hættu störfum.  Þeir sem þjónuðu í hernum áður fyrr fengu góðar tekjur í mörg ár, en fengju síðan 80% af laununum sínum það sem eftir var ævinnar. Þetta var skemmtilegur hópur sem ég naut þess að vera með.

Áhugamálin mörg

Áhugamál mín hafa verið mörg gegnum tíðina. Ég hef verið í stjórn Þjálfarafélagsins í knattspyrnu, þjálfað landslið 16 ára og A landsliðið í  kvennaknattspyrnu, dæmt á 7 Íslandsmótum í golfi,  setið í stjórn Rauðakrossins í Garðabæ, séð um söfnunarhóp Rauðakrossins í ,,Göngum til góðs“ og er nú í stjórn Íbúasamtaka Urriðaholts.

Markmið á eftirlaunaaldrinum

Eitt að mínum stærstu markmiðum í dag er tónlist, en ég hef gefið út 4 lög og texta sem eru á Spotify og 48 lög sem eru á Soundcloud. Heimasíðan mín er alliornolfs.com. Sagan á bak við þetta er sú að á mínum yngri árum spilaði ég í skólahljómsveit. Þegar ég varð eldri, þurfti  ég að velja á milli tónlistarinnar eða fótboltans. Ég valdi fótboltann og spilaði því ekkert á gítar fyrr en ég varð fertugur. Á fimmtugs aldrinum var ég búinn að semja 20 lög og setja í tölvuna mína, svo “krassaði” tölvan og ég tapaði öllum lögunum mínum. En lífið heldur áfram. Ég samdi 14 lög til viðbótar aftur. Svo fékk ég hjartaáfall 62 ára og sagði þá við sjálfan mig, “Ætlar þú ekki að gefa þetta út áður en þú deyrð?”. Ég lét verða af því að gefa út 4 lög til að kanna hvort einhver vildi hlusta á mig.

Fólk á efri árum á að finna sér áhugamál sem það langar og hefur getu til að læra og stunda. Ég er að læra á upptökutæki. Hljóðblöndun, upptökur fyrir hljóðfæri og söng. Trommuheila, beat og fleira. Er í námi í Songwriter Academy um textaskrif og læri á píanó sem mig hefur alltaf langað til.

 

Ritstjórn janúar 7, 2021 08:27