Lífskúnstnerar rugla saman reytum á efri árum

Þórir Gunnarsson er menntaður matreiðslumaður frá Íslandi og Hildigunnur Haraldsdóttir lærði arkitektúr í Þrándheimi. Í fljótu bragði myndi maður ætla að fólk með svo ólíkan bakgrunn ætti ekki mikið sameiginlegt en annað kom á daginn. Hann er 71 árs og hún 63 og þau eiga tvö börn hvort um sig með fyrri mökum og samtals 6 barnabörn. Þórir var ekkill og Hildigunnur fráskilin þegar þau hittust fyrst. Þórir hafði verið  búsettur í Prag um langt skeið þar sem hann rak m.a. veitingastaðinn Reykjavík og Hildigunnur var í heimsókn hjá vinkonu sem bjó í Vín þegar þau hittust á þorrablóti Íslendingafélagsins þar í borg 2012. Nú fimm árum síðar eru þau að byggja saman húsið við Tryggvagötu 13 við hlið Borgarbókasafns Reykjavíkur, hún teiknar og hann sér um framkvæmdir.

Kenndi hamborgarakónginum að steikja hamborgara

Þórir hóf störf á Matstofu Austurbæjar 1962. Nokkrum árum síðar fór hann til Bandaríkjanna að freista gæfunnar, síðan til Sviss og aftur til Bandaríkjanna en kom svo aftur til Íslands 1971 og keypti þá hlut í Matstofunni. Þremur árum síðar keypti hann svo fyrirtækið allt. Árið 1980 stofnaði Þórir Winnie´s hamborgarastaðinn og þar vann Tómas Tómasson hjá honum. Þórir segir hlæjandi frá því að hann hafi kennt hamborgarakónginum að steikja fyrsta hamborgarann.

Tengingin við Tékkland

Árið 1989 var Þórir með veitingaþjónustu fyrir fyrirtæki og sendiráð í Reykjavík, m.a. tékkneska sendiráðið. „Ég hafði starfað töluvert fyrir tékkneska sendiráðið og þeir spurðu mig hvort þeir mættu ekki borga mér með því að lána mér hús í Prag. Þetta var svolítið ævintýralegt boð og við slógum til. Þar vorum við fjöskyldan svo í 10 daga og borðuðum oft á veitingahúsi þar sem við kynntumst veitingamanninum ágætlega. Þessi tékkneski veitingamaður kom til Íslands og dvaldi hjá Þóri og fjölskyldu hans. „Eftir þá heimsókn ákvað ég að flytja út til Prag og keypti fyrsta frjálsa veitingastaðinn í Tékkóslóvakíu,“ segir hann. „Þessi staður var staðsettur í sendiráðshverfinu og sendiherrar hinna ýmsu landa voru fastagestir hjá mér. Á þeim tíma  var barnastjarnan Shirley Temple Black t.d. sendiherra Bandaríkjanna í Tékkóslóvakíu og borðaði mjög oft hjá mér á laugardögum. Svo kom forsetinn stundum,“ segir Þórir og brosir.“Þarna var ég til 1991 en þá voru aðstæðurnar orðnar þannig þar í landi að mér líkaði þær ekki og á mig voru komnar vomur.“ En frekar en að gefast upp og hætta ákvað Þórir að kaupa annan veitingastað og kallaði þann stað Reykjavík. Þórir er mikill athafnamaður og opnaði síðar ísbúð og fleiri veitingastaði í Prag. Hann var síðan skipaður aðalræðismaður Tékkóslóvakíu 1992 og er það enn. „Í anddyrinu í húsinu við Tryggvagötu verður tékkneskur marmari svo Þórir geti gengið á tékkneskri jörð,“ segir Hildigunnur og hlær.

Samdráttur Þóris og Hildigunnar

Þau Þórir og Hildigunnur kynntust fyrst í Vínarborg 2012 þar sem hún var í heimsókn hjá vinkonu sinni sem þar býr. Íslendingafélagið var einmitt að halda þorrablót sem vinkonan bauð Hildigunni á og þar var Þórir. Skömmu eftir að Hildigunnur kom heim til Íslands hafði Þórir samband við hana og hún segist hafa orðið svolítið skelkuð og öll á bremsunni. Hildigunnur var þá fráskilin og þetta samband þeirra þróaðist rólega og Þórir bætir við að auðvitað haldi lífið áfram og allir reyni að gera það besta úr þeirri stöðu sem er hverju sinni.

Ættuð af Snæfellsnesi

Olíutankurinn á Rifi sem Hildigunnur og Þórir keyptu og vilja gera að galleríi og íbúð fyrir listamenn

Hildigunnur er ættuð af Snæfellsnesi og hefur unnið fyrir Snæfellsbæ síðan 1994. Hún hefur sterkar og góðar gengingar þangað og hefur séð um skipulagsmál þar og líkað það mög vel. Hún á oft erindi út á Snæfellsnes vegna vinnu og Þórir fer stundum með henni og lætur sig iðulega dreyma á meðan hún situr fundi og nú er einn af hans draumum að verða að verauleika. Einn daginn voru þau að rúnta á milli funda og benti Hildigunnur Þóri á olíutank á Rifi. Á meðan Hildigunnur sat næsta fund fór Þórir á fund bæjarstjórans, hafnarstjórans og fleiri og þegar Hildigunnur kom af fundinum var Þórir búinn að fá vilyrði fyrir lóðinni og gerði samning um kaup á  olíutanknum. Á lóðinni er líka dæluhús og þau ætla að hefja framkvæmdir á því húsi næsta sumar og gera sér litla íbúð þar. Svo stefna þau að því að útbúa gallerí á neðri hæð olíutanksins og listamannaíbúð á efri hæðinni.

Varð ekkill 2011

Þórir missti eiginkonu sína snemma árs 2011 og var þá á flakki milli Íslands og Tékklands í nokkurn tíma áður en hann flutti alfarið heim. Árið 2012 keypti hann veitingastaðinn Munnhörpuna í Hörpu og ætlaði að breyta þeim stað eftir sínu höfði, en þær hugmyndir segir hann að hafi ekki fengið hljómgrunn hjá húsráðendum í Hörpu. Þórir seldi Jóhannesi í Múlakaffi staðinn og eftir það kom hann við á veitingastað í Austurstræti. Sumarið 2014 ákváðu Hildigunnur og Þórir að ráðast í að kaupa lóð við hlið Borgarbókasafnsins í Tryggvagötu ásamt nokkrum öðrum. Hildigunnur er arkitektinn að húsinu og Þórir hefur haft umsjón með framkvæmdum. Byggingin hefur verið krefjandi síðustu þrjú árin, en nú sjá þau fyrir endann á þessari vinnu. Þau hafa lagt sig fram um að vanda vel til verka og hafa allan frágang eins og best verður á kosið. Ekki er gert ráð fyrir hótelrekstri eða gistiþjónustu í húsinu. Þau eru að reisa húsið með það fyrir augum að þarna verði langtímabúseta fólks sem er ef til vill að minnka við sig húsnæði, en vill gæði og vera á góðum stað í bænum. Upphaflega ætluðu þau að hafa margar litlar úbúðir í húsinu en kvaðir frá borginni urðu til þess að íbúðirnar urðu færri en stærri.

Hildigunnur fann jóga sem leið til bata eftir bílslys.

Er líka jógakennari

Þess má geta að Hildigunnur er líka jógakennari og segist halda sér starfshæfri þannig sem arkitekt. “Ég er lemstruð eftir bílslys og dreif mig í jógakennaranám þegar ég hélt að ég gæti varla unnið lengur sem arkitekt. Með jógaástundun næ ég að vinna áfram við mitt fag,” segir Hildigunnur. Hún var virk í Björgunarhundasveit Íslands í 25 ár og notaði mikið af frítíma sínum í hundaæfingar og hlaup til að týnast fyrir hunda.

Deilibílar

Í húsinu við Tryggvagötu eru 38 íbúðir en ekki nema 12 bílastæði. „Og þá er spurning hvað eru gæði,“ segir Þórir. „Kannski má flokka það sem gæði að þurfa ekki að eiga bíl. Þess vegna kom upp hugmynd um að kaupa „deilibíla“ sem þýðir að íbúar hafa aðgang að bíl ef nauðsyn krefur og geta þá skráð sig á lista og haft tímabundin afnot af ökutækinu. Af 38 íbúðum eru nokkrar 55 fm stúdíóíbúðir og allmargar tveggja-  og þriggjaherbergja íbúðir og fáeinar stórar íbúðir. Þar eru nokkrar svokallaðar loftíbúðir sem eru talsvert stórar  en eru samt bara eitt herbergi, opnar í gegnum húsið. Þannig gefa þær bæði sjávar- og borgartengingu. Hildigunni finnst þessar íbúðir einna skemmtilegastar.

Ruslagámar neðanjarðar

„Við höfum óskað eftir heimild til að hafa ruslagáma neðanjarðar,“ segir Hildigunnur. „Hugmyndin þykir góð en við bíðum enn í voninni um að fá endanlegt leyfi.“ Þau Hildigunnur og Þórir gera ráð fyrir að flytja sjálf í eina íbúðina sem þau eru búin að skraddarasauma utanum eigin þarfir, en Hildigunni hefur langað að flytja aftur í 101 póstnúmerið þar sem hún bjó mjög lengi áður fyrr. Búið er að ganga frá samningum við O-Sushi veitingastaðinn um pláss á jarðhæð hússins og áhugi er á að þar verði líka kaffishús.

Heppin að hafa ekki kynnst ung

Hildigunnur segir hlæjandi frá því að þau Þórir geri sér fulla grein fyrir því að samband þeirra hefði ekki gengið ef þau hefðu kynnst ung. „Við erum bæði mjög fljóthuga og ákveðin og vön að stjórna öllu í kringum okkur svo líkega hefðum við ekki getað látið sambandið ganga á yngri árum. Nú erum við orðin nógu þroskuð til að  takast á við hlutina saman.“ Þórir bætir kankvís við að Hildigunnur segist stundum vera þakklát eiginkonu hans heitinni fyrir að hafa alið hann vel upp og því nú fái hún að njóta rólegri hliðanna á honum.

Fjölskyldan dreifist víða en Hildigunnur og Þórir gera sér far um að hitta þau oft.

Afi og amma á faraldsfæti

Þau Hildigunnur og Þórir eiga barnabörn í Garðabæ, Akureyri, Prag og Zurich. Þau reyna að vera viðstödd afmæli allra barnabarna þegar aðstæður leyfa, svo þau eru mikið á ferðinni. Nú, fimm árum eftir að þau Þórir og Hildigunnur kynntust, eru þau að láta sameiginlega drauma sína rætast.

 

 

 

 

Ritstjórn október 13, 2017 15:17