Geta fengið stuðning á matmálstímum og  við að setja í vél

„Við þurfum að breyta þjónustunni hjá okkur, það eru breyttir tímar og sama þjónustan hentar alls ekki öllum“, segir Þórhildur Egilsdóttir deildarstjóri á skrifstofu öldrunarmála hjá Reykjavíkurborg, þegar blaðamaður Lifðu núna ræddi við hana um heimaþjónustu borgarinnar við eldra fólk. Þær gagnrýnisraddir hafa stundum heyrst á undanförnum árum að þjónustan við eldra fólk væri ósveigjanleg og ekki miðuð nægilega vel við þarfir þeirra sem nota hana. Nú er verið að huga að  þessu. „Þjónustan þarf að vera sveigjanlegri og nálguninni var breytt þann 1. febrúar síðast liðinn “, segir Þórhildur.

Spyrja fólk hvernig aðstoð það vilji

Hún segir að samkvæmt nýju reglum sé haft meira samráð við fólk sem óskar eftir þjónustunni og það spurt hvernig stuðning það þurfi og hvað sé því mikilvægast. „Stærsta breytingin að hlusta betur á hvað fólk vill og þarf í stað þess að bjóða uppá fyrirfram staðlaða þjónustu sem ekki er hægt að breyta. Nýju reglurnar eiga að koma í veg fyrir þetta, þannig að fólk geti fengið aðstoð með nákvæmlega það sem það þarf. Það er ekki þannig að sama þjónustan henti öllum. Ef þarf að taka ísskápinn er það bara í góðu lagi og þá kannski hægt að sleppa því að ryksuga í það skiptið“ segir hún.

Þeir sem fá þjónustuna taki þátt í því sem verið er að gera

Þórhildur segir að nýju reglurnar leysi af hólmi eldri reglur frá 2006. Lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga var breytt árið 2018, en þá kom inn ákvæði um að það ætti að miða við að þjónustan væri valdeflandi. Miða ætti við einstaklingsbundnar aðstæður hvers og eins og hafa samráð við notendur þjónustunnar. „Þeir setji sér markmið og séu virkir þáttakendur í því sem verið er að gera. Þeir fái hjálp við athafnir daglegs lífs, við heimilishald og við að rjúfa félagslega einangrun ef þess þarf. Allt miðar þetta að því að fólk geti búið sjálfstætt í heimahúsi eins lengi og það vill og getur“, segir hún.

Fá aðstoð á matmálstímum og að setja í þvottavél

Þeir sem ekki eru jafn sjálfbjarga og áður geta fengið aðstoð bæði inná heimilinu og utan þess. Þjónustan skiptist í fjóra flokka. Fjórði flokkurinn er fyrir þá sem hafa væga stuðningsþörf, en fyrsti flokkurinn þá sem hafa mjög mikla stuðningsþörf og svo eru tveir flokkar þarna á milli, mikil stuðningsþörf og meðal stuðningsþörf. Sem dæmi um þá þjónustu sem eldra fólk getur fengið er margvísleg þjónusta við athafnir daglegs lífs og heimilishald. „Það er verið að hjálpa fólki með innkaup, hjálpa á matmálstímum, skipta á rúmum og setja í þvottavél. Stundum þarf fólk líka aðstoð við að fara á fætur og fá sér morgunmat, eða aðstoð við lyfjatöku og það getur líka þurft regluleg innlit frá heimaþjónustunni“ segir Þórhildur. „Það er ekki sama lausn fyrir alla. Það kann að vera einhver sem vill ekki láta þrífa mjög mikið, en fá í staðinn aðstoð við að fara út í búð og kaupa sitt grænmeti. En þetta þarf samt allt að vera innan skynsemismarka“.

Vilja kannski fara á kaffihús

„Stundum getur það verið mikilvægara að styðja fólk til félagslegrar þátttöku en aðstoða það við að þrífa. Við sáum það í Covid að félagsleg einangrun er ekki góð fyrir eldra fólk. Með lagabreytingunni frá 2018, er mögulegt að veita fólki aðstoð, bæði á heimilinu og utan þess“ segir Þórhildur. Ef fólk er einmana, getur stuðningur borgarinnar falist í að hjálpa því að fara út í næstu félagsmiðstöð fyrir eldri borgara, en þær eru 17 talsins í Reykjavík. Hann getur líka falist í að hjálpa fólki að fara út í göngutúr. „En fólk hefur mismunandi áhugamál og þetta verður að fara eftir því hvað hver vill. Meginatriðið er að bjóða ekki upp á eina staðlaða lausn fyrir alla. Það eru ekki allir sem vilja fara í félagsstarf í félagsmiðstöð, kannski vill fólk frekar fara á kaffihús og þá reynum við að koma til móts við það“, segir hún.

Nota tæknina með mannlegu samskiptunum

Liður í þjónustunni er líka að nota velferðartæknina sem ryður sér stöðugt meira til rúms. „ Við förum í skjáheimsóknir til fólks til dæmis til að minna það á að taka lyfin, en förum líka á staðinn . Hugmyndin er að blanda þessu tvennu saman. Við erum núna í herferð við að innleiða meiri tækni fyrir þennan hóp. „Við ætlum ekki að skipta mannlegu samskiptunum út fyrir tæknina, en þetta virkar vel með. Það þarf ekki að tíunda það hvað mannlegu samskiptin skipta miklu máli. Það er ömurlegt að sitja og hitta engan. En í stað þess að einhver komi fimm sinnum í viku heim til fólks, er hægt að nota tæknina með og koma þá sjaldnar“.

Um 3000 manns yfir 67 ára fá þjónustu frá borginni

Til að sækja um þjónustu heim, þarf annað hvort að sækja um rafrænt eða fara til þjónustumiðstöðvarinnar í hverfinu þar sem fólk býr. Þegar umsókn berst, hafa starfsmenn samband við umsækjandann innan þriggja daga. Þrjú endurhæfingarteymi eru starfandi hjá borginni, en í því eru iðjuþjálfar, sjúkraþjálfar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar og fleira fagfólk. Það eru þessir starfsmenn sem koma oftast heim til fólks til að fá upplýsingar um hvernig aðstoð það óskar eftir og meta með því stuðningsþörfina.  Auk þess er veitt heimahjúkrun eftir þörfum. Um 3000 manns í Reykjavík yfir 67 ára aldri fengu þessa þjónustu í febrúar síðast liðnum. Tölur sýna að þörfin fyrir heimahjúkrun fer mjög vaxandi eftir 75 ára aldurinn.

Gengur vel að manna störfin

Þórhildur segir að það hafi gengið vel að manna störfin í heimaþjónustunni. Að vísu sé alltaf erfitt að fá hjúkrunarfræðinga, það sé alls staðar skortur á þeim. Stundum þarf því að forgangsraða verkefnum. Hún segir nú unnið að því að innleiða nýju reglurnar og sérstök manneskja fari út á starfsstöðvarnar til að breyta verklagi með starfsfólkinu þar.

https://reykjavik.is/heimastudningur

https://reykjavik.is/felagsstarf

 

 

Ritstjórn apríl 19, 2022 07:15