Draumur og veruleiki

Gullveig Sæmundsdóttir

Gullveig Sæmundsdóttir fyrrverandi ritstjóri skrifar:

Ég ólst upp í Hafnarfirði en sótti skóla í Reykjavík í sjö ár. Strætóferðir milli bæjanna voru því fastur liður í tilveru minni yfir vetrartímann. Oft var ég heppin og sat við hliðina á einhverjum sem ég gat spjallað við á meðan vagninn skrölti eftir holóttum malarveginum. En mér fannst líka gott að sitja ein út við gluggann og láta hugann reika. Þá tók ímyndunaraflið oft völdin.

Ég ímyndaði mér til dæmis að ef bara þrír farþegar kæmu inn í vagninn á næstu stoppistöð þá myndi eitthvað rosalega spennandi og skemmtilegt mæta mér þegar ég kæmi heim. Einhver óþekktur ættingi væri kannski í heimsókn með fullar hendur fjár og myndi gefa mér fullt af peningum sem ég gæti notað til þess að kaupa mér föt eða gera eitthvað annað skemmtilegt. Ég ímyndaði mér líka að ef vagninn æki fram hjá fimm pollum í röð þá myndi mér ganga rosalega vel í prófi þann daginn.

En auðvitað var þetta bara óskhyggja og átti ekkert skylt við raunveruleikann. Þess vegna varð ég ekki fyrir sérstökum vonbrigðum þó að þessir barnalegu draumar mínir yrðu aldrei að veruleika. Ég vissi að ég átti engan auðugan ættingja sem myndi gefa mér peninga og ég vissi líka að velgengni mín í prófum færi mest eftir því hvað ég hafði sinnt náminu vel bæði heima og í skólanum. Ég áttaði mig snemma á því að draumar og veruleiki þurfa ekki að vera andstæður. Ég var líka alin upp við að þurfa að hafa fyrir því að ná markmiðum mínum og að meira máli skipti að nýta og njóta veruleikans en lifa í heimi óraunsærra drauma.

Mín kynslóð er alin upp við mikilvægi þess að geta séð fyrir sér og sínum. Í dag er ungt fólk hvatt til þess að láta drauma sína rætast. Auðvitað er mikilvægt að eiga sér drauma og frábært ef einhverjir þeirra verða að veruleika. Ég held hins vegar að það skipti meira máli að átta sig á veruleikanum og öllu því sem í honum felst. Ég viðurkenni að ég hef vissar áhyggjur af unga fólkinu sem leggur stund á nám sem ljóst er að mun aldrei veita því neina atvinnumöguleika og er ekki viss um að eltingaleikurinn við drauminn muni reynast leið til farsældar. Ég hef líka áhyggjur af því að foreldrar og skólasamfélagið skuli ekki hvetja ungt fólk í ríkara mæli en nú er til þess að afla sér annarrar menntunar en bóklegrar.

Hrós vikunnar fá þeir sem njóta drauma sinna en átta sig jafnframt á þeim veruleika sem bið búum við. Og mig er strax farið að dreyma um gott vor og fallegt sumar.

Gullveig Sæmundsdóttir desember 4, 2017 04:47