„Ljósmyndun og myndvinnsla er skemmtileg og frábær afþreying fyrir eldri borgara. Maður skreppur út, kannski 2-3 tíma, og getur þá verið með verkefni heima í jafn marga daga við að vinna myndirnar,“ segir Guðbjartur I. Gunanrsson, einn stofnanda ljósmyndaklúbbsins Út í bláinn. Sjálfur segist hann þessi misserin hafa mestan áhuga á að mynda fugla. „Ég bý niður undir sjó og maður getur gleymt sér tímunum saman við að horfa á fuglana og mynda þá. Fuglalífið í mínu nánasta umhverfi sérstaklega fjölbreytt,“ segir hann.
„Í klúbbnum okkar Út í bláinn, hjálpum hvert öðru eftir getu og kunnáttu, það er spjallað um myndir, myndatökur og myndvinnslu. Einnig er af og til farið saman í stuttar ferðir til að taka myndir.“ Sjálfur segist Guðbjartur alltaf hafa haft mikinn áhuga á ljósmundun. „Ég fór að taka myndir fyrir fermingu og síðan má segja að ég hafi haft ódrepandi áhuga á að taka myndir.“ Guðbjartur var á sjónum í áratugi, hann var árum saman á skipum Hafrannsóknarstofnunar. Guðbjartur segist í gegnum tíðina hafa tekið mikið af myndum úti á sjó og af fjölskyldunni þegar hann var í landi. Hann vann hjá Slysavarnarskóla sjómanna í nokkur ár, var m.a. stýrimaður á gömlu Sæbjörginni. Hann starfaði líka á vegum Þróunarsamvinnustofnunar í Afríku, þar gegndi hann stöðu kennara, stýrimanns og skipstjóra. Frá þessum tíma á hann fjölda mynda.
Guðbjartur gekkst fyrir því fyrir rúmum áratug að innan Félags eldri borgara á Álftanesi yrði stofnaður ljósmyndaklúbbur. Í upphafi sýndu margir starfsemi klúbbsins áhuga. En þegar frá leið fækkaði félögum á Álftanesi og ekki komu nýir inn í staðnn. Fundir klúbbsins voru auglýstir eins og aðrir viðburðir FEBÁ í sjónvarpsdagskránni sem borin var í öll hús í Garðbæ, Álftanesi og Kópavogi. Í kópavogi sá Marsibil Tómasdóttir auglýsinguna. Sá hún þarna góða hugmynd og kom að máli við Kristjönu Guðmundsdóttur þáverandi formann FEBK um að koma á laggirnar svipaðri starfsemi í Kópavogi. Tók hún strax vel í málið og hafði samband við Guðbjart I. Gunnarsson sem þá var formaður FEBÁ og hafði átt hugmyndina að stofnun ljósmynaklúbbs ásamt Guðrúnu Jóhannsdóttur, sem var formaður FEBÁ þegar klúbburinn var stofnaður. Í Kópavogi tók Grétar Pálsson að sér að formennsku. Á fyrsta fundi mætti ásamt fleirum Guðbjartur af Álftanesi og bauð hann félögum að koma á næsta fund á Álftanesi. Tókst þarna strax hið besta samstarf og voru fundir haldnir til skiptis á Álftanesi og í Gullsmára. Enn hafði fækkað félögum á Álftanesi svo ákveðið var að fundir yrðu aðeins haldnir í Gullsmára enda var þar gott sjónvarp þar sem við getum sýnt myndir í og tengt tölvur við.
Starfsemi út í Bláinn er í miklum blóma um þessar mundir. Félagar eru með ljósmyndasýningu í félagsmiðstöð eldri borgara að Gullsmára 13 í Kópavogi. Þetta er mjög fjölbreytt sýning. 11 félagar í klúbbnum sýna myndir eftir sig bæði i svart hvítu og í lit, alls 84 verk.
„Flest okkar hafa farið á námskeið á myndavélarnar og vinnslu mynda í forritinu Lightroom hjá Pálma Guðmundssyni ljósmyndara hjá ljósmyndari .is en hann hefur kennt þetta í fjölda ára og er mjög góðu leiðbeinandi, eins og sjá má á sýningunni.“ Ljósmyndasýningunni í Gullsmára lýkur þann 17. október. Hér fyrir neðan má svo sjá nokkrar myndir úr safni Guðbjartar.