Lokun golfvalla

Lifðu núna barst eftirfarandi grein þar sem fjallað er um lokun golfvalla vegna Covid 19.

Eins og kunnugt er hefur lokun golfvalla af sóttvarnarástæðum vakið furðu margra og er undirritaður í þeim hópi.

Þessi ákvörðun er gersamlega óskiljanleg og getur haft í för með sér ákveðið rof í samstöðu um sóttvarnir, ekki síst þegar horft er til knattspyrnuleikja sem fá algera sérmeðhöndlun af hálfu yfirvalda.  Ein rökin fyrir lokun golfvallanna var einmitt að sýna samstöðu með ÍSÍ og þá auðvitað KSÍ.

Ég er í áhættuhópi 60+ og hef engin heilsufarsleg efni á að sýna sérstaka samstöðu umfram aðra með fólki 20 – 40 ára í toppformi.

Á Internetinu finn ég engin dæmi um smit á golfvelli og engin dæmi um að golfvöllum hafi verið lokað vegna Covid19 nema hér. Allir hafa sett nýjar samskiptareglur og virðist ganga vel hjá flestum.

Mér finnst umhugsunarvert að framkvæmdastjóri og stjórn GSÍ voru ekki einu sinni samstíga í þessu feigðarflani sem lokun golfvallanna er. Sá málflutningur að þetta sé barátta golfbakteríunnar er auðvitað ekki boðlegur.  Forystan verður að átta sig á að þetta snýst um útiveru og hreyfingu.  Þeirra ábyrgð er mikil þar sem lokað er fyrir heilsueflingu okkar sem eru í áhættuhópi 60+ og sennilega nánast engin smithætta á íslenskum golfvöllum ef farið er að samskiptareglum.

Rétt er að fram komi að vinnu minnar vegna er ég í frekar nánu sambandi við sóttvarnarfólk og tek allar sóttvarnir grafalvarlega að sjálfsögðu.

Vinsamlega endurskoðið þessa ákvörðun

Vilhjálmur Þór Guðmundsson

golfáhugamaður

Ritstjórn október 15, 2020 12:47