Að forðast flensusmit

Hin árlega flensa er komin til landsins og farin að herja á fólk. Samkvæmt upplýsingum Landlæknisembættisins hafa verið staðfest á áttunda tug flensutilfella. Flestir þeirra sem hafa greinst með flensu eru yfir sjötugt. Um fjörutíu hafa legið á Landspítalanum með flensu og eru þeir allir komnir á áttræðisaldur. Landlæknisembættið telur að flensan leggist þyngst á eldri borgara landsins.

Á vef Danmarks Radio kennir ýmissa grasa og þar hafa birst nokkrar greinar um innflúensuna, sem herjar árlega á Dani á tímabilinu frá desember til mars eða á sama tíma og Íslendinga.  Hér koma nokkur ráð af þessum skemmtilega vef, fyrir þá sem vilja forðast flensusmit, en í stórum dráttum snúast þau um hreinlæti, bæði þitt eigið, fjölskyldunnar, vina og vinnufélaga.

Ekki faðma manneskju sem er með innflúensu.

Taktu frí í vinnunni og vertu heima ef þú veikist.

Þvoðu þér oft um hendurnar með sápu eða sótthreinsandi vökva.

Ekki hósta í lófann á þér, notaðu vasaklút þegar þú hóstar eða hnerrar.

Ekki fikta í andlitinu eða snerta munn, nef og augu, nema þvo þér um hendurnar fyrst.

Haltu öllu hreinu í kringum þig.

Dönsk heilbrigðisyfirvöld ráðleggja auk þess fólki að láta bólusetja sig gegn flensu, einkum þeim sem eru orðnir 65 ára og eldri, ófrískum konum, fólki með langvinna sjúkdóma og þeim sem eru of þungir.  Sjá fyrri grein okkar um bólusetningar gegn innflúensu hér.

Við þetta má bæta að þeir sem lifa heilbrigðu lífi eiga síður á hættu að fá innflúensu og aðra sjúkdóma.  Að lokum nokkrar staðreyndir um flensuna.

Það er vírus sem veldur innflúensu, sem smitast við hósta eða hnerra.

Flensan tekur yfirleitt 1-2 vikur og fyrri vikuna eru menn með háan hita. Þreyta og hósti geta varað lengur.

Hjá nær öllum sem fá flensu, gengur hún yfir af sjálfu sér, en þeir sem eru farnig að eldast eða eru viðkvæmir fyrir geta fengið alvarlegar aukaverkanir. Þeir geta hafnað á sjúkrahúsi eða látist af völdum flensunnar.

Það er ekki hægt að lækna innflúensu, en það er hægt að slá á einkennin með því að taka lyf sem lækka hita og slá á verki.

Innflúensan byrjar yfirleitt að herja á fólk í desember á hverju ári og stendur fram í mars.

Einstaka sinnum, eða um það bil 10 hvert ár geisar stór innflúensufaraldur sem veldur því að um 20% fólks fær flensuna.

 

Ritstjórn janúar 17, 2017 11:56