Losnaðu við elliblettina á náttúrulegan hátt

Þótt þessar brúnu skellur á húðinni séu kallaðar elliblettir geta þær komið fram þegar manneskja er á fertugs- og fimmtugsaldri. Þær eru ekki endilega tengdar ellinni og hægt er að bregðast við þeim.

Fyrst af öllu hvað eru elliblettir? Þeir eru stundum kallaðir lifrarblettir en hafa meira með sólina en starfsemi lifrarinnar að gera. Eins og áður sagði eru þetta brúnar eða stundum svartar skellur sem birtast oftast í andlit, á höndum eða handleggjum eða öxlum. Þeir eru mismunandi stórir og litbrigðin eru þó nokkur. Þeir eru ekki hættulegir og engin ástæða til að hafa áhyggjur þótt þeir taki að birtast.

Sólin er stærsti sökudólgurinn þegar kemur að elliblettum. Þeir sem eru langtímum saman úti í sól geta búist við að melanín taki að safnast fyrir og mynda bletti einkum á þeim stöðum sem hvað mest sólarljós fá. Þeir sem hafa mjög hvíta húð eru viðkvæmari fyrir og fá oftar þessa bletti en þeir sem eru með dekkri húðlit.

Hormónatengdar breytingar

Breytingar á hormónastarfsemi líkamans geta einnig valdið því að þessi blettir komi fram og konur verða oft varar við þá á meðgöngu eða á breytingaskeiði. Sum lyf hafa þær aukaverkanir að elliblettir koma fram. Sólbekkir, sólarlampar og gervibrúnkukrem geta einnig valdið elliblettum. Annað gott ráð ef fólk vill forðast ellibletti er að nota ævinlega krem með góðri sólarvörn og fara aldrei út án þess að bera það á sig.

Sítrónusafi

Sítrónusafi er gamalreynd náttúruleg leið til að fjarlægja ellibletti og var reyndar einnig notuð hér áður til að minnka freknur. Sítrónusýran er mild leið til að fjarlægja dauðar húðfrumur af efsa lagi húðarinnar og ávaxtasýrur lýsa húðina og auka ljóma hennar.

Best er að bera hreinan sítrónusafa á blettina kvöld og morgna með bómullarhnoðra eftir að búið að er að hreinsa húðina vel. Síðan er hann látin þorna á húðinni og síðan er hún þvegin með volgu vatni. Þeir sem hafa viðkvæma húð ættu hins vegar að prófa sítrónusafann á litlum bletti, til dæmis á innanverðum úlnliðnum þar sem húðin er mjög þunn, áður en þeir bera á allt andlitið því sýran getur valdið ertingu. Svo er beðið í sólarhring og ef ekkert gerist er óhætt að nota sítrónusafann á andlitið.

Góð regla er ævinlega að bera á sig gott rakakrem að þessu loknu. Sítrónusýra getur þurrkað húðina og mikilvægt er alltaf að halda húðinni vel rakri.

Vetnisperoxíð

Vetnisperoxíð er önnur leið til að leysa upp melanínið í elliblettum og eyða þeim. Þetta er bakteríudrepandi efni sem hefur lýsandi áhrif eins og sítrónusýran. Hægt er að fá það í apótekum. Það er notað á mjög svipaðan hátt og sítrónusafinn, þ.e. borið á með bómull, látið þorna og síðan skolað af með volgu vatni. Þetta þarf að endurtaka þar til blettirnir taka að leysast upp og hverfa. Gætið þess þó að nota vetnisperoxíð í 3% upplausn. Það er til sterkara en það getur valdið ertingu í húð sé það notað í hærri upplausn. Hið sama gildir hér og ef notuð er sítrónusýra að gæta þess vel að bera gott rakakrem á húðina á eftir og bera á sig sólarvörn. Húðin verður viðkvæmari fyrir sólarljósi eftir að þessi efni hafa verið borin á hana.

Aloe vera og papaya

Aloe vera safi hefur líka reynst vel til að lýsa og fjarlægja ellibletti og hið sama má segja um papaya ávöxtinn. Ekki hafa allir hér á landi aðgang að aloe vera-jurt eða papaya-tré en ávöxturinn er sjaldan fáanlegur. Ef keyptur er aloe vera-safi í heilsuverslun gætið þess vel að hann sé hreinn áður en þið berið hann á. Papaya-ávöxturinn er marinn í skál og maukið borið á húðina. Látið safann eða maukið vera á húðinni í hálftíma og skolið það síðan af.

Eplaedik

Ef nota á eplaedik til að lýsa ellibletti þarf að blanda það til helminga með vatni áður en það er borið á húðina. Berið síðan blönduna á andlitið með bómullarhnoðra, látið þorna og skolið af með volgu vatni.

Grænt te

Hellið upp á grænt te í bolla og látið það kólna. Dýfið bómull í teið og berið það á andlitið, handleggina og handarbökin eða hvar sem ellibletti er að finna. Bíðið í fimmtán mínútur og skolið það síðan af.

Þolinmæði þarf til

Þessar aðferðir eiga það sameiginlegt að þolinmæði þarf til. Ekkert af þessu virkar umsvifalaust og ef ná á árangri þarf að gera þetta reglulega í langan tíma. Það er einnig vert að hafa í huga að þótt elliblettirnir lýsist með tímanum koma þeir aftur ef ekki er hugsað þess betur um húðina. Þegar við eldumst breytist húðin og verður viðkvæmari fyrir alls konar breytingum og umhverfisáhrifum. Melanínið dreifist ekki eins jafnt um líkamann og getur safnast fyrir bletti hér og þar. Við erum einnig líklegri til að verða fyrir skaða af völdum sólar þegar við eldumst. Það er gott að vera meðvitaður um það og hugsa vel um húðina. Hún er stærsta líffærið og hefur mismunandi fegurð á mismunandi æviskeiðum.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn apríl 1, 2024 07:00