Mætum hækkandi aldri með opin augu

Guðjón Magnússon og Margrét Pálsdóttir eru dæmi um hjón sem ákváðu að mæta hækkandi aldri með opin augu. Hann er 72 ára en hún 68. Margrét tók ákvörðun um að hætta að vinna 65 ára. „Ég var búin að vinna í 45 ár allan daginn, fyrst sem leikskólakennari í nokkur ár og síðan við verslunarstörf og rak leikfangaverslunina Liverpool í 18 ár. Mér fannst vera komið alveg nóg og fyrst ég gat leyft mér að hætta fyrr en ég þurfti gerði ég það,“ segir Margrét og er ánægð með ákvörðun sína en segir að auðvitað henti það sannarlega ekki öllum.

Guðjón hefur verið opinber starfsmaður alla tíð, fyrst sem kennari og síðan varð hann skóla- og menningarfulltrúi í Kópavogi, starfmannastjóri hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur og síðast yfirmaður á skrifstofu forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur þar sem hans starfssvið var fyrst og femst tengslastörf og samskiptamál. Hann starfaði við það þangað til hann ákvað að hætta. Eftir að hann hætti vinnu dreif hann sig í leiðsögunám og lauk því frá Menntaskólanum í Kópavogi. Guðjón hefur alla tíð verið athafnasamur í félagsmálum, setið í stjórum og sinnt ýmsum félagsstörfum.

Myndin er tekin í ferð við Miðjarðarhaf í tilefni af 70 ára afmæli Guðjóns, en á myndinni með þeim er Brynhildur, dóttir þeirra, Rafnhildur Rósa, dóttir hennar, og sambýlismaður Brynhildar, Heimir.

Á undanförnum árum hafa þau Guðjón og Margrét notið sameiginlegs áhugamáls ríkulega sem eru ferðalög en þau hafa farið á eigin vegum um þær slóðir sem þau dreymdi um að sækja heim og geta nú látið verða af. „Við höfum m.a. farið þrisvar með Smyril Line til Danmerkur og ekið um Evrópu og alla leið niður til Miðjarðarhafs og dvalið þar í nokkrar vikur í hvert skipti. Að lifa þar er töluvert ódýrara en hér og munar mestu um matarinnkaup. Við forðumst stórborgir og líður best í litlum bæjum.“

Ósáttur við hvernig staðið er að uppbyggingu hjúkrunarheimila

Guðjón var formaður stjórnar hjúkrunarheimilisins Sunnuhlíðar í Kópavogi um nokkurt skeið. „Þar var ég mest ósáttur við það hvernig staðið er að uppbyggingu hjúkrunarheimila í landinu,“ segir Guðjón. „Framkvæmdasjóður, sem á að kosta uppbygginguna, hefur verið notaður í reksturinn. Kröfurnar, sem gerðar eru af heilbrigðisráðuneytinu um rekstur hjúkrunarheimilanna, samræmast sannarlega ekki þeim fjármunum sem úthlutað er af fjármálaráðuneytinu svo þarna verður mikið misræmi. Það er mjög illa að þessu staðið og engu líkara er en að menn fljóti sofandi að feigðarósi af því aldurssamsetning þjóðarinnar breytist svo ört. Við sjáum það allt um kring að úrræðin vantar fyrir fólk þegar það er orðið veikt.“

Ráð fyrir þá sem halda heilsu þrátt fyrir háan aldur

Hér eru þau Guðjón og Margrét í gönguferð í Skotlandi með Rótarýklúbbnum Borgum.

Guðjón og Margrét hafa góð ráð fyrir þá sem halda heilsunni þrátt fyrir háan aldur.„Það eru ýmis tækifæri og margt um að vera sem hægt er að njóta alla daga ársins en við verðum að bera okkur eftir þessum viðburðum,“ segja þau. „Í dag er tölvulæsi forsenda þess að ná auðveldlega í upplýsingar um allt það skemmtilega og fróðlega sem við eigum kost á. „Ég er sannfærð um að líf fólks verður svo miklu skemmtilegra ef það getur tekið þátt í þessum viðburðum sem eru í boði og margir þeirra eru okkur að kostnaðarlausu. Sem dæmi sækjum við fyrirlestra vikulega hjá samtökunum U3A Reykjavík en heiti samtakanna er skammstöfun fyrir University og the Third Age. Þar eru mjög fróðlegir og upplýsandi fyrirlestrar í hverri viku. Síðan er hægt að finna mjög góða dagskrá á öllum bókasöfnum í landinu. Víða eru ókeypis hádegistónleikar, t.d. í Hörpunni og í Hafnarborg í Hafnarfirði, Kjarvalsstöðum, Fríkikjunni og Listasafni Íslands sem við erum dugleg að sækja. En við þurfum auðvitað að vita af þessum viðburðum til þess að getað notið þeirra.“ Guðjón er mjög liðtækur í félagsstarfi en hann segist taka eftir því að þótt hann sendi tilkynningar út í tölvupósti séu þær ekki lesnar af því fólk opni ekki tölvurnar sínar daglega. „Ef við erum með netið í símanum eru minni líkur á að svona tilkynningar fari fram hjá okkur,“ segir Guðjón. „Þess vegna ætti að tölvu- og símavæða alla eldri borgara vel og þeir yngri ættu að kenna þeim eldri!“

Fær ekkert frá Tryggingarstofnun og finnst hann svikinn

Guðjón var formaður starfsmannafélags Kópavogs og í fyrstu verkfallsnefnd BSRB. „Þá var kastljósinu m.a. beint að lífeyrismálunum og fólki var sagt að það sem við greiddum í lífeysissjóð væri viðbót við það sem Trygginarstofnun myndi greiða þegar kæmi að starfslokum. Niðurstaðan er hinsvegar sú að af því ég er í ákveðnu tekjuþrepi í lífeyri, fæ ég ekkert frá Tryggingastofnun.

Margrét var tekjulægri en Guðjón og fær lágmarksgeiðslur frá Tryggingastofnun en fær einnig greiðslur úr lífeyrissjóði. Margrét hefur greitt skatta og gjöld auk þess að greiða í lífeyrissjóð í 45 ár. Hún hefur í dag sömu tekjur og þeir sem aldrei hafa greitt í lífeyrssjóð og ekki tekið þátt í atvinnulífinu.

Synd að senda fullfrískt fólk heim

Nú er fólk svo miklu frískara en áður og líklega er óhætt að segja að í dag séu sjötugir í álíka líkamlegu ástandi og sextugir voru fyrir 20 árum. Þau Guðjón og Margrét velta því fyrir sér af hverju er ekki meiri vilji fyrir því að nýta allan mannauðinn sem býr í þeim stóra hópi sem er hættur að vinna en hefur í mörgum tilfellum viljann og getuna til að sinna margvíslegum störfum, samfélaginu til góða. Guðjón segist til dæmis undrast það af hverju húsnæði eins og skólar sé ekki nýtt eftir að venjulegum skóladegi lýkur til að kenna bæði börnum og fullorðnum sem eiga í erfiðleikum. “Þá er ég að tala til dæmis um aðstoð við stærðfræði eða tölvur. Úti í samfélaginu er fólk sem er fullfært um að veita þessa þjónustu eftir áratuga starf í faginu en hefur verið gert að hætta að vinna.”

Þegar Guðjón var starfandi hjá Kópavogsbæ sá hann m.a. um fullorðinsfræðsluna sem bærinn bauð upp á. „Sú kennsla var lögð niður af því hún þótti of dýr. Ég fullyrði að það myndu sparast miklir peningar á öðrum sviðum ef boðið væri upp á slíka fræðslu,“ segir Guðjón.

Guðjón við móttöku ráðherra Zimbabwe og fylgiliðs í Hellisheiðarvirkjun.

 

Undirbúningur fyrir starfslok

„Þegar kom að starfslokum okkar ákváðum við að hafa fasta rútínu í daglegu lífi okkar, t.d. vakna á reglulegum tíma, stunda reglulega hreyfingu, rétt matararæði og nægan svefn. Síðan er mjög mikilvægt að taka þátt í félagsstarfssemi með samskiptum við aðra. Maður er manns gaman,“ segja þessi hressu hjón sem eru sannarlega góðar fyrirmyndir.

Ritstjórn desember 1, 2017 09:59