Magnús Eiríksson, laga- og textahöfundur

Tónlist Magnúsar Eiríkssonar er samofin íslenskri þjóð, engu líkara en hann hafi alltaf verið til eins og mörg önnur stór nöfn í íslenskri tónlistarsögu. En þegar betur er að gáð en þessi maður sannarlega ekki gamall. Hann er enn að semja bæði lög og texta en lætur yngri tónlistarmönnum harkið eftir. Magnús varð ekki  atvinnutónlistarmaður fyrr en um fimmtugt en áður rak hann hljóðfæraverslunina Rín um árabil. Magnús hefur því alltaf verið viðriðinn tónlist á einn eða annan hátt en eftir að hann ákvað að gera tónlistina að atvinnu sinni hófst harkið eins og tónlistarfólk kannast vel við. En hæfileikar Magnúsar sem laga- og textahöfundur gerðu honum kleift að lifa af tónlist sinni og nú segist hann vera hættur að spila á böllum en nýtur afraksturs langs ferils. Nafn hans ber fljótlega á góma þegar talið berst að íslenskum laga- og textahöfundum en Magnús á líklega met þegar kemur að smellum og sígildum popplögum. Nægir að nefna nokkur eins og Óbyggðirnar kalla, Kóngur einn dag, Braggablús, Ég er á leiðinni og Geðibankann. Sagt er um Magnús að hann sé nokkurs konar Paul McCartney Íslands. Hann er í þjóðarvitund okkar líkt og McCartney er hjá Bretum. Hann lærði á klassískan  gítar já Gunnari Jónssyni og hljómsveitargítarleik hjá Karli Lilliendahl. Svo fór hann í Tónlistarskóla Reykjavíkur til að læra hljómgræði, tónheyrt og tónlistarsögu hjá mörgum ágætum kenurum. Hann hefur sagt frá því sjálfur að hann hafi síðan lært einna mest af því að horfa á aðra gítarleikara spila.

Magnús segist vera svo lánsamur að geta nú gert mikið af því sem honum þykir skemmtilegast að gera sem sé að spila tónlist sína og annarra með mörgu af því úrvalstónlistarfólki sem hann hefur starfað með í gegnum tíðina en nú standa fyrir dyrum árlegir tónleikar með Mannakornum sem voru á dagskrá fyrir ári en frestuðust vegna covid og eru nú í tilbúnir til flutnings.

Magnús er fæddur árið 1945  og varð því sjötugur 2015 og 75 ára 2020. Af þessum tilefnum voru haldnir tónleikar í Eldborginni og komust færri að en vildu. Þeir urðu alls þrennir í tilefni sjötugsafmælisins og tvennir á 75 ára afmælinu. Á þessum tónleikum spiluðu margir uppáhaldstónlistarmenn hans og þar á meðal synir hans þrír. Það eru Magnús Örn, sem er trommuleikari og er yngstur og svo Stefán Már sem er gítarleikari og er elstur. Í miðjunni er svo Andri en hann er rafmagnstæknifræðingur auk þess sem hann spilar á bassa og fleiri hljóðfæri. Magnús segir léttur að þeir feðgar gætu þess vegna stofnað hljómsveit því þeir spili allir á fleiri en eitt hljóðfæri. Magnús og eiginkona hans, Elsa Stefánsdóttir, eignuðust þrjá syni og hafa nú eignast sex barnabörn en Elsa lést árið 1999. Þau fluttu saman í Fossvoginn fyrir 50 árum og þar býr Magnús enn. Ýmislegt í lífi Magnúsar gefur til kynna að hann sé vanafastur en hann hefur spilað mikið með sömu tónlistarmönnunum og nefnir Pálma Gunnarsson sem dæmi. ,,Ég hef verið óskaplega heppinn með samstarfsmenn í tónlistinni. Við Pálmi erum búnir að vera lengi að en við kynntumst í gegnum Mannakorn 1975,“ segir Magnús. Hann nefnir líka Kristján Kristjánsson eða KK en samstarf þeirra hófst 1996 og saman hafa þeir gefið út 6 plötur. Nýjasti flöturinn á samstarfi þeirra eru tvennir tónleikar sem voru haldnir í fyrra og stendur til að endurtaka í haust. Á þeim tónleikum auk Magnúsar og KK eru þeir Pálmi Gunnarsson og Eyþór Gunnarsson en allir hafa þeir spilað saman af ýmsu tilefni en aldrei allir fjórir saman fyrr en á þessum tónleikum.

Magnús segist vera alæta á tónlist en er fljótur að finna út hvort honum líkar það sem hann heyrir. ,,Með aldrinum leita ég í gamla tímann og gamla jassinn eins og margir,“ segir hann.

 

Í lokin fer Magnús með eftirfarandi orð úr eigin smiðju sem segja allt um frábært viðhorf hans til lífsins og tilverunnar:

,,Þegar upp er staðið er það eina sem ég vil

að finna gleði og þakklæti yfir því að vera til“

 

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar

Ritstjórn júní 23, 2022 07:00