Bjarki Sigurðsson handboltamaður

Þegar Bjarki Sigurðsson var lítill strákur hafði hann lítinn áhuga á íþróttum en hjólaði mikið og reyndi fyrir sér í knattspyrnu.

,,Svo var það skólabróðir minn og vinur sem dró mig fyrst í handbolta þegar ég var 16 ára og þá með Víkingi, enda búsettur þá í Fossvoginum. Tveimur árum seinna var ég valinn í
æfingahóp landsliðsins sem var að fara keppa að mig minnir í Tékkóslóvakíu. Þjálfarinn þá var Bogdan Kovalcik, sjálfsagt einn harðasti þjálfari sem ég hef haft. Mjög ákveðinn og hefur sjálfsagt komið með það hugarfar inn í þjálfun sem margir íslenskir þjálfarar hafa tileinkað sér.“

Hvaða stöðu lékstu þar?

Ég var upphaflega hægri hornamaður og spilaði þá stöðu með Víkingi og landsliðinu, fór svo að spila hægri skyttustöðu síðar og í raun endaði sem slíkur, þó svo að hornið hafi ekki verið langt undan enda sú staða sem maður spilaði með landsliðinu.

Landsliðið ferðaðist víða um heim og Bjarki segir það hafa verið mikið ævintýri.

,, Já, ferðirnar voru margar,“ segir Bjarki. ,,Við fórum til dæmis til Japan, Suður Kóreu, Bandaríkjanna og austur Evrópu. Það var mikið  um rútuferðir, spilað í mörgum höllum og við vorum heppnir að geta líka aðeins skoðað okkur um.“

Í viðtali sem birtist við þig í Æskunni árið 1990 kom fram að þú hafðir eignast son fimm dögum áður en þið fóruð í keppnisferð. Hvað er sá sonur gamall núna og áttu fleiri börn?
,,Já, það er rétt, drengurinn kom í heiminn fimm dögum fyrir keppnisferð sem farið var í og svosem átti maður ekki von á að fara í þá keppnisferð en konan hjálpaði manni að taka
þá ákvörðun að fara.  Drengurinn  er nú að verða 30 ára í febrúar og er sjálfur kominn með sína fjölskyldu.  Svo á ég  þrjú önnur börn, tvo drengi sem eru
25 ára og 20 ára og svo stúlku sem verður 17 ára á árinu.   Öll hafa þau verið eða eru í sportinu, þrjú þeirra í handbolta, en yngsti drengurinn er í knattspyrnu.“

Bjarki lærði rafvirkjun og vann sem slíkur í nokkur ár.

,,Ég gríp í verkfærin við og við enn í dag.  Ég var mjög heppinn, fékk vinnu sem lærlingur hjá Rafver ehf og eftir nám vann ég áfram hjá þeim.  Frábær tími sem ég átti með fagmannlegu fólki.
Ég neita því ekki, að vinna sem rafvirki er mjög  gefandi og skemmtilegt starf, fjölbreytt en jafnframt líka hættulegt ef ekki er rétt unnið.“

Aðspurður hvort hann haldi enn sambandi við gamla félaga, segir hann svo vera:
,,Við höldum sambandi og komum saman í árlegum jólahittingi og svo hittast líka gamlir félagar úr Víkingi reglulega. Það er ekki hjá því komist því allir þessir einstaklingar eru „handbolta nördar“, það er enginn sem hættir og kúplar sig frá sportinu. Ég hef kynnst frábærum einstaklingum sem margir hverjir eru góðir vinir mínir í dag.“

Saknarðu þessa tíma?
,,Já og nei, auðvitað hugsar maður aftur til  gamalla tíma þegar maður horfir á leiki í dag.  Maður heldur alltaf að maður sé enn þá 20 ára og langar að vera með en skrokkurinn segir samt annað 😊
En maður er þó alltaf með annan fótinn í sportinu þar sem eftir ferilinn  sneri ég mér að þjálfun, var með Aftureldingu, ÍR og HK í meistaraflokki en nú á seinni árum færði ég mig yfir í þjálfun yngri flokka þar sem ég er nú hjá Aftureldingu. Það er mjög gefandi og gaman að vinna með unga iðkendur.“

Stundarðu einhverjar íþróttir núna?
,,Ég fer í ræktina við og við, svo eru það skíðin á veturna og hjólreiðar og golf á sumrin.  Maður þarf að hafa eitthvað fyrir stafni,“ segir þessi glaðlyndi maður að lokum.

 

Ritstjórn febrúar 5, 2020 07:55