Tekjur þeirra sem hafa ellilífeyri frá Tryggingastofnun hafa lækkað síðustu þrjú ár borið saman við lágmarkslaun. Laun þeirra allra lægstu hjá TR hafa lækkað sem hlutfall af lágmarkslaunum um 6,7 prósent og voru heildartekjur þeirra 11,8 prósentum undir lágmarkslaunum. Grái herinn hefur höfðað mál til að kanna hvort það samræmist stjórnarskrá að skerða lögbundin eftirlaun frá almannatryggingum. Lifðu núna hefur beðið alla nefndarmenn velferðarnefndar alþingis að svara fjórum spurningum um skerðingar eftirlaun og málssókn Gráa herins. Hér birtist svar Steinunnar Þóru Árnadóttur, alþingismanns og varamanns Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur í velferðarnefnd. Þar með höfum við birt öll svörin sem okkur bárust.
Hvað finnst þér um skerðingar á ellilífeyri í almannatryggingakerfinu og málssókn Gráa hersins?
Eldri borgarar á Íslandi hafa verið duglegir að berjast fyrir kjörum sínum og benda á það sem aflaga fer í almannatryggingakerfinu og er það vel. Við hljótum að vilja tryggja öllum þjóðfélagshópum góð lífsskilyrði óháð aldri eða öðrum þáttum. Sem betur fer hefur stór hluti þeirra sem komnir eru á efri ár það nokkuð gott í íslensku samfélagi og búa við ágæt kjör. Það sést til að mynda glögglega á tekjusagan.is. Þær upplýsingar staðfesta þó einnig það sem við vissum að nokkur hópur býr við fátækt eða verulega kröpp kjör. Því þarf breyta og það er forgangsmálið. Fyrr á þessu ári voru samþykkt lög sem bæta verulega kjör þeirra sem hafa haft lökust kjörin en betur má ef duga skal.
Í 76. gr. stjórnarskrárinnar segir að öllum sem þess þurfi skuli tryggður í lögum réttur til aðstoðar, meðal annars vegna elli. Það er í sjálfu sér hvorki óeðlilegt né rangt að einhverjar skerðingar séu í almannatryggingakerfinu, enda er það félagslegt jöfnunarkerfi. Markmiðið er að tryggja öllum framfærslu en ekki að borga öllum jafnt, óháð þörfum. Skerðingar eru því ekki vondar sem slíkar, heldur snýst málið um hvernig þær eru útfærðar. Það er lykilatriði að skerðingarnar séu ekki það miklar að tiltölulega lágar fjárhæðir éti upp getu fólks til að bæta afkomu sína. Grái herinn hefur að sjálfsögðu fullan rétt á að láta reyna á mál fyrir dómstólum.
Finnst þér eðlilegt að tekjur eldri borgara hækki einu sinni á ári og þá í samræmi við neysluvísitölu en ekki launavísitölu eins og staðreyndin er?
Ég veit ekki hvernig ætti að ákvarða fjárhæð lífeyris almannatrygginga öðru vísi en að gera það árlega í tengslum við fjárlög. Það er misjafnt hvort hækkar meira, vísitala neysluverðs eða launavísitala og dæmi þess í íslenskri hagsögu að launavísitala hafi ekki haldið í við verðbólgu, um þessar mundir eru til dæmis blikur á lofti á vinnumarkaðnum. Í mínum huga er mikilvægast að tryggja að greiðslur úr almannatryggingakerfinu standi undir sómasamlegri framfærslu fólks.
Ert þú þeirrar skoðunar að það eigi að afnema skerðingarnar?
Þessari spurningu er ég þegar búin að svara hér að framan.
Hvað með afnám skerðinga á atvinnutekjur?
Árið 2016, í tíð fyrri ríkisstjórnar, voru gerðar kerfisbreytingar með aðkomu hagsmunaaðila á þeim þætti almannatrygginga sem snýr að greiðslu ellilífeyris. Kerfið var einfaldað, m.a. með því að horfið var frá ólíkum skerðingarhlutföllum bótaflokka og bótaflokkar jafnframt sameinaðir. Eitt fyrsta verk núverandi ríkisstjórnar var að hækka frítekjumark eldri borgara vegna atvinnutekna í 100 þús. kr. á mánuði en hækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna hafði verið eitt helsta baráttumál samtaka eldri borgara fyrir kosningar. Krónutöluupphæðir aðrar en sjálfa lífeyrisfjárhæðina sem er ákvörðuð í tengslum við fjárlög, svo sem frítekjumörk, þarf jafnframt að uppfæra reglulega. Það er nauðsynlegt til þess að viðhalda kaupmætti og til þess að almennar kjarabætur, svo sem launahækkanir, skili sér einnig til lífeyrisþega.