Túliníus Jensen endurborinn

Hrafn Magnússon

Hrafn Magnússon, frv. framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða

Nú í haust endurnýjaði ég kynni mín á meistaraverkinu “Sjálfstætt fólk” eftir Halldór Kiljan Laxnes. Kvöldsaga Ríkisútvarpsins var sem sagt “Sjálfstætt fólk” í snilldarlegum upplestri Arnars Jónssonar,leikara, sem gaf tíðaranda bókarinnar alveg nýja vídd, svo tilkomumikill var upplestur hans á þessu meistaraverki.

Sögusviðið er sveitin, heiðin, fjörðurinn og kaupstaðurinn einkum á fyrri hluta síðustu aldar. Persónur sögunnar eru margar en aðal söguhetjan er auðvitað Bjartur í Sumarhúsum. Því fer þó fjarri að Halldór láti Bjart eiga allt sviðið, heldur koma margar manngerðir við sögu, flestar mjög áhugaverðar. Ég staðnæmist við Túliníus Jensen kaupmann í Víkinni, sú persóna hefur leitað á mig síðustu vikurnar. Ekki vegna þess að Túliníus Jensen sé svo merkilegur í sjálfu sér, heldur vegna þess að mér finnst einatt eins og við Íslendingar höfum aldrei getað almennilega losað okkur við hann og hans nóta. Þetta þarfnast frekari skýringar.

Þeir sem áttu viðskipti við Túliníus Jensen sáu aldrei peninga. Öll viðskiptin innlegg og úttektir voru færð til bókar og þess vegna vissu menn ekki hvernig þeir stóðu fjárhagslega, hvort þeir ættu yfirleitt fyrir skuldum þegar uppgjör kaupmannsins færi fram. Allar líkur væru á að endar næðu ekki saman, en þá var bara að trúa á Guð og lukkuna og þá sérstaklega á góðvild danskra kaupmanna sem  voru með sínar verslanir víðsvegar um landið.

Trú Íslendinga á að fá allar nauðsynjavörur skrifaðar hjá kaupmannavaldinu ríkti meðal þjóðarinnar allt frá dögum danskrar einokunarverslunar og langt fram eftir síðustu öld.

Þegar ég var að velta þessari áráttu Íslendinga fyrir mér að það væri bæði hollt og gott að sjà ekki peninga heldur reikningsuppgjör hjá kaupahéðnum fyrri alda, þá var ég eiginlega glaður yfir því að þessir tímar væru liðnir og þó. Mér sýnist þegar betur er að gáð að árátta okkar Íslendinga að vera í reikningsviðskiptum sé endurborin og Túliníus Jensen sé aftur kominn á kreik og nú hjá þeirri ríkisstofnun sem greiðir svokallaðar “bætur” til eldri borgara og öryrkja.

Hér á ég auðvitað við Tryggingastofnun ríkisins, sem samkvæmt lögum hefur stofnað reikning hjá megin þorra eldri borgara og öryrkja. Stofnunin hefur það verkefni að anda eiginlega ofan í hálsmál “bótaþeganna” og fylgjast rækilega með fjármálum þeirra. Er hugsanlegt að “bótaþeginn” hafi sýnt þá fyrirhyggju að greiða í lífeyrissjóð eða sparað einhverjar krónur til elliáranna og fengið vexti, jafnvel undir verðbólgumarkmiðum Seðlabankans? Svo ekki sé minnst á þá óráðsíu að hafa aflað sér skattskyldra launatekna, en ekki stundað svarta atvinnustarfsemi. Allt er fært á reikning eins og forðum daga hjá Túliníusi Jensen í Sjálfstæðu fólki.

Þá kem ég kannski að því sem ég hefði átt að byrja með í þessari grein minni. Skerðingar almannatrygginga gagnvart eldri borgurum og öryrkjum eru ósanngjarnar og óásættanlegar. Samtök eldri borgara og öryrkja hafa mótmælt látlaust þessum miklu skerðingum, án sýnilegs árangurs. Kannski vill þjóðin að Túliníus Jensen haldi áfram að vinna hjá Tryggingastofnun Ríkisins? Þar með er ég ekki að gagnrýna starfsfólk stofnunarinnar sem vinnur sitt starf með stakri  prýði, þrátt fyrir rangláta löggjöf.

 

 

 

 

Ritstjórn nóvember 9, 2020 08:18