Tengdar greinar

Manstu þegar við söfnuðum fyrir geirfuglinum?

Mynd nr. 2

Póstkort („bréfspjald“) með geirfugli gefið út af Helga Árnasyni (1874 – 1954). Helgi var um tíma húsvörður í Safnahúsinu og stóð jafnframt í kortaúgáfu.

Guðrún Helga Sigurðardóttir blaðamaður skrifar:

Geirfuglinn, sem íslenska þjóðin á og varðveittur hefur verið á Náttúrufræðistofnun Íslands, hefur ekki verið til sýnis í langan tíma en er nú til sýnis á vegum Náttúruminjasafns Íslands í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Geirfuglinn er þjóðargersemi sem á sér merkilega sögu.  Margir muna eftir því þegar Íslendingar ákváðu að safna fyrir uppstoppuðum geirfugli sem boðinn var upp hjá Sotheby‘s í London vorið 1971 enda vakti söfnunin og kaupin athygli langt út fyrir landsteinana. Söfnunin hófst með skömmum fyrirvara þegar það spurðist út að geirfuglinn yrði boðinn upp og tókst söfnunin svo vel að fuglinn var keyptur fyrir 9000 pund eða rétt tæpar tvær milljónir króna í þá daga. Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands, segir að það hafi jafngilt verði þriggja herbergja íbúðar. Það var þó ekki átakalaust að kaupa fuglinn því að ekki voru allir á einu máli um að þjóðin ætti að kaupa hann, auk þess sem Íslendingar voru ekki einir um hituna því að bandaríska ættin DuPont bauð líka í fuglinn.

Eftirsóttur fugl

Geirfuglinn er löngu útdauður en hann var ófleygur, um 70 sentimetrar hár og fimm kíló að þyngd meðan hann var og hét. Hann var algengur við Norður-Atlantshaf fram á 16. öld en strax fyrir um þúsund árum var farið að saxast á stofnana vegna veiða enda var fuglinn auðveld bráð, matarmikill og eftirsóttur vegna fitu, olíu og fiðurs. Var þá farið út í eyjar og sker þar sem fuglinn hélt sig og verpti og líklega lítið mál að ná honum því hann var ófleygur, þó góður væri hann sundfugl og nærðist á fiski. Þegar safnarar fóru að borga háar fjárhæðir fyrir fugla strax á fyrri hluta 19. aldar var ekki að sökum að spyrja. Talið er að síðustu tveir geirfuglarnir hafi verið drepnir í Eldey í júníbyrjun 1844.„Geirfuglar voru hér í töluverðum mæli við landnám manna frá Evrópu en líklegt er að stofninn hafi strax eftir það farið hnignandi. Geirfuglinn var af svartfuglsætt og samkvæmt nýlegri erfðafræðirannsókn var álkan einna skyldust honum og þá haftyrðill,“ segir Hilmar.

Fangaður við Hólmsberg

Íslenskar konur hamfletta geirfugla fyrir safnara erlendis. Talið er að fuglarnir hafi verið veiddir árið 1831 í Geirfuglaskeri eða Eldey. Myndin er frá því um 1870 og byggð á lýsingu John Wolley (1823–1859) sem ferðaðist til Íslands árið 1858 gagngert til að fræðast um örlög geirfuglsins.

Íslenskar konur hamfletta geirfugla fyrir safnara erlendis. Talið er að fuglarnir hafi verið veiddir árið 1831 í Geirfuglaskeri eða Eldey. Myndin er frá því um 1870 og byggð á lýsingu John Wolley (1823–1859) sem ferðaðist til Íslands árið 1858 gagngert til að fræðast um örlög geirfuglsins.

Hann bætir við að til séu lýsingar frá Íslandi og Nýfundnalandi, einkum Funkeyju þar sem stærstu geirfuglabyggðirnar voru, á því hvernig sjófarendur stukku af bátunum upp í sker og eyjar þegar færi gafst og létu greipar sópa um fuglabyggðirnar, hirtu öll egg og drápu jafnvel tugi fugla. Fuglarnir voru oft saltaðir og hamflettir. Flestir fuglarnir sem voru veiddir hér við land undir það síðasta voru hamflettir og hamirnir sendir til Kaupmannahafnarháskóla. Þaðan voru hamirnir seldir, gefnir og notaðir sem skiptimynt fyrir aðra safnmuni út um alla Evrópu og vestur um haf. Þessi saga er skráð að miklu leyti og því er vitað um örlög geirfuglanna og hvar þeir eru niðurkomnir.Geirfuglinn sem er í eigu íslensku þjóðarinnar var líklega drepinn við Hólmsberg á Miðnesi vestan við Keflavík 1821 en „talið er að síðustu tveir geirfuglarnir á jörðinni hafi verið drepnir í Eldey 3. júní 1844 en það er ekki öruggt því sagnir annars staðar frá, bæði í Nýfundnalandi og Bretlandseyjum, greina frá því að geirfuglar hafi verið drepnir þar eftir það,“ segir Hilmar. Til eru um 80 uppstoppaðir geirfuglar í heiminum og langflestir þeirra frá Íslandi. Danski greifinn Raben fangaði þann fugl sem Íslendingar eiga og var hann í eigu Rabenættarinnar fram til 1971 þegar hann var seldur á uppboðinu í London. Síðustu átta ár hefur fuglinn verið vel varðveittur í geymslum Náttúrufræðistofnunar í Garðabæ.

Safnahúsið opið á ný

Safnahúsið var opnað á ný fyrir almenning fyrir skömmu og þar stendur yfir sýningin Sjónarhorn – ferðalag um íslenskan myndheim. Sýningin er samstarf höfuðsafnanna þriggja, Listasafns Íslands, Náttúruminjasafns Íslands og Þjóðminjasafns Íslands sem er rekstraraðili hússins. Að sýningunni standa jafnframt Landsbókasafn – Háskólabókasafn, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Þjóðskjalasafn Íslands.Geirfuglinn verður til sýnis í Safnahúsinu fram í miðjan september en þá tekur við sýning á nýjum kjörgrip frá Þjóðskjalasafni Íslands. Grunnsýningin í Safnahúsinu stendur hinsvegar upp í fimm ár. Þátttaka Náttúruminjasafnsins í þessari samsýningu markar merk tímamót í starfsemi safnsins því þetta er fyrsta sýningin sem Náttúruminjasafnið tekur þátt í síðan stofnunin var sett á laggirnar árið 2007. Náttúruminjasafnið býr sjálft ekki að neinu eigin sýningarrými ólíkt því sem gildir um hin tvö höfuðsöfn þjóðarinnar, Listasafn Íslands og Þjóðminjasafn Íslands.Safnið er opið frá 10-17 alla daga í sumar. Verð er 1.200 krónur á mann, 600 krónur fyrir 67 ára og eldri.

 

 

Ritstjórn maí 22, 2015 14:30