Margar vinkonur mínar hafa dáið alltof snemma

Einn þeirra 28 einstaklinga sem sagt er frá í  bókinni Raddir. Annir og efri ár eftir Jón Hjartarson og Kristínu Aðalsteinsdóttur, er Guðlaug Ólafsdóttir sem fæddist fyrir rúmum 70 árum í Möðrudal á Fjöllum. Síðan lá leið hennar til Akureyrar í Gagnfræðaskólann. Hún gifti sig snemma og var orðin fjögurra barna móðir 27 ára. Guðlaug sótti sér menntun á ýmiss konar námskeiðum og vann utan heimilis, en þau hjónin skildu þó ætlunin hefði verið að eyða ævinni saman og liggja í kirkjugarðinum hlið við hlilð.  Guðlaug hefur tekið mikinn þátt í félagsmálum. Hún kveið því að hætta að vinna, en setti sér svo markmið um það hvernig hún vildi að lífið yrði á efri árum. Hún hét því meðal annars að vera áfram í gleði, hitta einhvern á hverjum degi og drekka marga kaffibolla með vinum og vinkonum.

Mér finnst ég ekkert vera gömul, kannski í anda um þrítugt, en skrokkurinn er töluvert eldri. En það er í rauninni andinn sem skiptir höfuðmáli. Að hætta öllu af því að maður er að verða gamall eða verða gamall af því að maður hættir öllu. Eftir markmiðasetninguna hellti ég mér í ýmiss konar vinnu.

Á árinu 1982 var ég formaður Tómstundaráðs Egilsstaðabæjar og með mér störfuðu frábærir einstaklingar, samfélagslega meðvitaðir og virkir á mörgun sviðum. Ég var 36 ára gömul og hafði fylgst með stofnun fyrsta félags eldri borgara á Akureyri sem Erlingur Davíðsson stóð að. Foreldrar mínir voru þá enn búsettir á Akureyri og pabbi hættur að vinna. Ég fékk gögn og lög félagsins frá Erlingi og við fórum að undirbúa stofnun félags hér. Við komumst að því að hér voru margir eldri borgarar sem lítið höfðu fyrir stafni og hittust sjaldan. Hinn 8. janúar 1984 var félagið stofnað með góðum stuðningi Tómstundaráðs. Foreldrar mínir fluttu í Egilsstaði um þetta leyti og gengu þá strax í félagið og pabbi fór fljótlega í stjórn og varð síðan formaður og gegndi því starfi í nokkur ár. Við stofnun voru félagar 40, en nú eru félagar 220. Nú nýt ég þess að taka þátt í starfi þessa félags og félagið nýtur krafta minna þar sem ég er nú gjaldkeri þess og tek mikinn þátt í starfinu.

Þegar foreldrar mínir fluttu hingað austur bjuggum við tvær systur á Egilsstöðum og nutum þess að geta annast þau í ellinni. Mamma var orðin andlega og líkamlega léleg en pabbi alltaf framsýnn og virkur. Við sáum hvað virkni hans seinkaði ellinni hjá honum. Vafalaust hef ég tekið hann mér til fyrirmyndar en systir mín sagði um daginn, þegar ég var að fara á annan fundinn þann daginn: „Þú ert farin að toppa pabba.“ Ég starfa sem gjaldkeri í tveimur félögum og er einnig í sóknarnefnd og formaður húsfélagsins.

Guðlaug segist aðallega hitta fólk á fundum og í félagsstarfinu, enda virðist fólk alveg vera hætt að fara í heimsóknir. En hún sé svo heppin að tvö barnanna hennar búi á Egilsstöðum og hún bjóði þeim til sín öðru hvrou í mat eða vöfflur og fari líka oft til þeirra.

Það veitir mér mikla ánægju að sjá að ég hef komið börnunum mínum vel til manns og að allir afkomendurnir eru góðar og heiðarlegar manneskjur. Einnig veitir það mér ánægju að hitta vini og spjalla og fá sér jafnvel rauðvínstár annað slagið eða lesa góðar bækur og hlusta á tónlist. Mér finnst einveran geta verið erfið og það er svo margt sem tengist því að vera einn. Fólk á mínum aldri er langflest í sambúð og kona ein á báti á oft ekki heima með pörum, til dæmis í ferðalögum, og það er oft erfitt að vera þriðja hjól undir vagni. Ég hef því stundum reynt að finna einhverja staka til að ferðast með, ég auglýsti meira að segja á einkamal.is og fór í framhaldi af því með konu sem ég þekkti ekkert fyrir til Tyrklands.

Margir kvarta undan neikvæðri afstöðu til eldra fólks en ég hef ekki fundið fyrir því, það er helst að mér finnist að eldri karlar vilji ekki viðurkenna aldur sinn. En það er okkar að bera höfuðið hátt og vera stolt af aldri okkar og því sem við höfum áorkað í lífinu.

Guðlaug segist ekki þurfa að kvíða því að það verði ekki hugsað um hana í ellini. Hún eigi góða að, sé í góðu sambandi við systkini sín og börnin sín, en það séu ekki allir svo heppnir.

Það hræðir mig samt ef ég á eftir að berjast við erfiða sjúkdóma eða fötlun áður en ég fer úr þessari jarðvist. Ég veit eiginlega ekki hverju ég á að trúa varðandi framhaldslíf. Ég er það sem er kallað „næm“ og er mjög tilfinningarík og hef mjög oft orðið fyrir einhverju sem ekki er hægt að skýra. Ég ólst upp á kirkjustað og hef alltaf borið mikla virðingu fyrir trú fólks, sama hverrar trúar það er. Ég hef líka lengi tekið þátt í störfum fyrir kirkjuna. Fyrir mér er eitthvað til sem er okkur æðra og ég held að það sé öllum mjög hollt að trúa á eitthvað, sérstaklega finna guð í sjálfum sér. Hugtakið guð getur hver og einn skilgreint fyrir sig og fyrir mér gæti það bara verið það góða í veröldinni. Ég fann hjá börnunum mínum, þegar þau voru lítil, þörf fyrir að geta hugsað til einhvers góðs, hverju nafni sem það nefndist, þegar þeim leið illa.

Ótrúlega margar vinkonur mínar hafa dáið alltof snemma og þá hef ég yfirleitt hugsað um að ég hefði átt að verja meiri tíma með þeim. Og yfirleitt höldum við alltaf að við höfum nægan tíma til samvista við fjölskyldu og vini en hann er alltaf of stuttur. Ég held að ég hræðist ekki dauðann, nema að því leyti að ég nýti ekki lífið nógu vel til þroska, en mín skoðun er að við séum hér á jörðinni til að auka þroska okkar.

 

 

 

Ritstjórn mars 2, 2021 07:30