Margir í útlöndum um jól og áramót

Nokkuð stór hópur Íslendinga á öllum aldri kýs að dvelja í útlöndum um jól og áramót. Kanaríeyjar og Flórida hafa verið vinsælir áningastaðir hin síðari ár.  Samkvæmt upplýsingum Lifðu núna er engin breyting þar á. Nokkuð á annað þúsund hafa tekið stefnuna í sólina um hátíðarnar og einhverjir ætla á skíði.

Ferðatryggingar

Enginn ætti að fara af landi brott án viðunandi ferðtrygginga. Utanríkisráðuneytið segir að æskilegt sé að ferðatrygging taki til alls hugsanlegt tjóns, svo sem lækniskostnaðar, sjúkraflutnings heim, heimferðar vegna alvarlegra veikinda eða dauðsfalls í nánustu fjölskyldu, bætur vegna þjófnaðar og líkamsárásar. Íslenskir ríkisborgarar sem sjúkratryggðir eru á Íslandi eiga rétt á að fá útgefið evrópska sjúkratryggingakortið hjá Tryggingastofnun.  Það staðfestir rétt korthafa til heilbrigðisþjónustu sem verður nauðsynleg meðan á tímabundinni dvöl stendur í EES landi.

Að pakka rétt

Ef fólk pakkar rétt áður en það heldur af stað getur það minnkað verulega óþægindi sem verða ef ferðatöskurnar týnast eða ef þær koma nokkrum dögum á eftir eigandanum á áfangastað. Á vefsíðunni Better Health Channel er að finna nokkuð góð ráð um hvernig best sé að pakka þegar aldurinn færist yfir. Þar er ráðlagt setja ferðaskjölin, myndvélina, símann, tölvuna, gleraugun og nauðsynleg lyf í handfarangurinn. Þá er ferðalöngum einnig ráðlagt að  setja nærföt, sokka og ef til vill  skyrtu með í handfarangurinn. Fólki er bent á að vera í yfirhöfninni þegar farið er um borð, til þess að létta handfarangurinn eða ferðatöskuna.

Dreifið farangrinum

Ef tveir eða fleiri ferðast saman er gott ráð að dreifa skóm og fatnaði á milli, þannig að ef ein taska týnist þá sé fatnaður til skiptanna fyrir þann sem týndi farangrinum sínum í annarri tösku.Það er miklu líklegra að vel merktur farangur skili sér á réttan stað ef hann hefur týnst eða lent á flakki.  Þó töskurnar séu vel merktur að utan er ekki síður mikilvægt að merkja ferðatöskur að innan. Inni í töskunni á að vera hægt að finna dvalarstað viðkomandi og símanúmer. Ekki gleyma á að láta farsímanúmer með landsnúmeri fylgja með. Allt þetta hjálpar starfsmönnum flugvalla og flugfélaga að koma farangrinum til skila.

Ritstjórn desember 10, 2014 11:50