Vending í edrúar  

Ethanól er virka efnið í áfengi og það er í raun eitur sem hefur víðtæk áhrif á líkamann. Alkóhól er orsakaþáttur í sjö tegundum krabbameina, ýtir undir hjarta- og æðasjúkdóma, sykursýki og lifrarbilun. Kannski ekki undarlegt að verið sé að hvetja fólk til að eiga þurran janúar og taka þátt í edrúar í febrúar. Gunnar Hersveinn heimsspekingur og rithöfundur færir þeim sem vilja taka þeirri áskorun ómetanleg vopn í hendur í bók sinni Vending, vínlaus lífsstíll.

Áfengi er mjög víðtækur þáttur í félagslífi nútímafólks og þykir sjálfsagt þegar menn vilja gera vel við sig, slaka á og njóta. Sú vellíðan getur hins vegar verið dýrkeypt bæði heilsufarslega og félagslega. Um það fjallar Gunnar Hersveinn heimspekingur í bók sinni Vending, vínlaus lífsstíll. Hann byrjar á að segja lesendum að sjálfsaga, harðfylgni og góðvild þurfi til að finna gjöfina sem býr innra með hverjum og einum.

Nú orðið vita menn að áfengi er ekki bara skaðlegt þeim sem neytir þess. Allir þeir sem standa nærri þeim sem drekkur í óhófi skaðast. En hvað með hófdrykkjumenn er þeim ekki bara óhætt að njóta síns víns í friði? Hugsanlega en Gunnar Hersveinn færir athyglisverð og sterk rök fyrir því að vínlaus lífsstíll sé uppbyggandi og hollur. Hann talar um tvífarann, þann sem talar gegn skynseminni, gegn heilbrigða hrausta sjálfinu og ræður stundum för. Það má hins vegar þjálfa hugann og sigra tvífarann eða kannski frekar sættast við hann og fá hann í lið með sér í vegferð sinni í átt að betra lífi.

Hollt að láta á móti sér

Það er nefnilega öllum hollt að láta á móti sér, eins og það er kallað. Að aga sjálfan sig og skapa sér gott líf. Hraustur heili og síkvikur hugur halda mönnum ungum. Gunnar Hersveinn færir mönnum í þessari bók góðan leiðarvísi til að feta veginn í átt að því. Hann byrjar á að fara í gegnum orð og hugtök sem eru undirstaða þess að breyta lífi sínu. Fótkeflin eru fyrst, þá hamingja og áfram þar til komið er að lífsreglum, sjálfsaga, ákvörðun og góðvild. Eftir að hafa glöggvað sig á merkingu þeirra og hvernig má nota þau sem tól á vegferð sinni til betra lífs er komið að vendingu. Það orð er stórkostlegt. Komið úr siglingamáli og þýðir að snúa seglum sínum, hagræða þeim upp í vindinn þannig að skipið breyti algjörlega um kúrs.

Í lok bókar er svo að finna lítið stafrófskver fyrir vínlausan lífsstíl. Nokkur af fegurstu orðum málsins er þar að finna ásamt sumum af þeim erfiðustu, frelsi, kærleikur, æðruleysi, þakklæti, yndi og traust eru þar á meðal. Gunnar Hersveinn skrifar skýran, fallegan texta. Það er auðvelt að hrífast með og skynja hvert hann er að fara með ábendingum sínum og leiðarvísum.

Ef menn þurfa frekari hvata að því að taka lífsstíl sinn í gegn má nefna að ethanól er einnig mjög skaðlegt fyrir heilann. Richard Restak, taugalæknir og prófessor segir í bók sinni, Svona kemur þú í veg fyrir elliglöp, að áfengisneysla auki líkurnar á að fólk þrói með sér heilabilun. Bjór er sérstaklega skæður hvað þetta varðar því að sögn Restaks er hann eitur fyrir taugarnar og efni í bjórnum dragi verulega úr virkni taugakerfisins. Hann hvetur fólk til að hætta áfengisneyslu alveg við sextíu og fimm ára aldur því eftir það fækki taugafrumum í heilanum og sannarlega ekki vert að drepa nokkrar þeirra í hvert sinn sem lyft er glasi.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn febrúar 8, 2024 07:00