Markús Örn Antonsson fyrrverandi borgarstjóri

Okkur lék forvitni á að vita hvernig Markús Örn Antonsson vertði tíma sínum nú eftir að hafa verið í ábyrgðamiklum störfum lengst af. Í ljós kom að hann situr ekki auðum höndum en gefum honum orðið:

,,Sumum finnst nokkur upphefð í því fólgin að tala um sjálfa sig eða sína nánustu sem „ástríðupólitíkusa“. Aðrir hlakka yfir því að vera fæddir klækjarefir og hafa „killer instinct“.  Fyrir mörgum er pólitíkin fjölskyldumál, kynslóð eftir kynslóð, og stjórnmálin eins og drifkraftur í arðsömu einkafyrirtæki. Ég hef fylgt Sjálfstæðisflokknum að málum, geri það enn og mun ekki breyta út af vananum þó að oft sé ég hlessa og stundum hneykslaður. Ég skilgreini mig sem frjálslyndan, hægra megin við miðju. Þess konar háttalag hefur á stundum verið kallað miðjumoð í Sjálfstæðisflokknum. Það hefur verið mér eiginlegt að geta séð og velt fyrir mér ýmsum hliðum á úrlausnarefnunum án þess að einblína á gallharða flokkslínu í smáu og stóru og þröngva málum fram af harðfylgi hvað sem tautaði og raulaði, einkanlega til að vera ósammála pólitískum andstæðingum. Þarna hefur uppeldi mitt í blaðamennsku og fjölmiðlun vafalaust verið mér nokkur fjötur um fót.

Fjölmiðlarnir eru í sífelldri þróun. Fimm dagblöð voru gefin út á uppvaxtarárum mínum, öll tengd stjórnmálaflokkunum. Þetta þykir mikil goðgá þegar fjölmiðlafræðingar samtímans líta í baksýnisspegilinn. Yfirleitt voru blöðin vel skrifuð og beinskeytt í pólitíkinni en varfærnari í fréttaflutningi en nú tíðkast. Hér starfa margir mjög hæfir fjölmiðlamenn. Og það er gaman að sjá ungt og efnilegt fólk sem vonandi á framtíðina fyrir sér á stærstu miðlunum. En erum við betur stödd nú með fjölmiðla í kreppu? Hjá Fjölmiðlanefnd eru skráðir 198 íslenskir fjölmiðlar. Að hverju stefna þeir? Er samfélagið miklu bættara með breytingunum sem orðið hafa í blaða- og fréttamennsku og með hinum opnu skoðanaskiptum á samfélagsmiðlum? Er heimurinn friðsamlegri? Fjölmiðlamenn segjast vera „fjórða valdið“. Hefur því verið beitt með sýnilegum árangri hér á landi í þá veru að bæta þjóðfélagið?

Ég hafði mikla ánægju af að fá góðan stuðning í prófkjöri 26 ára vorið 1970 og sitja í borgarstjórn í 14 ár og verða síðar forseti borgarstjórnar og  borgarstjóri í skamman tíma. Á þessu tímabili var mikið uppbyggingar- og framfaraskeið í borginni. Breiðholtshverfin í örum vexti og síðar Grafarvogshverfið, þar sem allir gátu fengið lóðir fyrir einbýlishús. Þessu fylgdu aðgerðir til að styrkja innviðina og uppbygging margvíslegrar aðstöðu. Formennska í æskulýðsráði, félagsmálaráði og fræðsluráði voru meðal mikilvægustu verkefna minna í meirihluta Sjálfstæðisflokksins. Þá var seta í borgarstjórn og í nefndum aukastarf eftir kl. 17 eða fyrir kl. 10 á morgnana. Mjög hófleg þóknun en ég hafði aðalstarfa af ritstjórn tímarita hjá Frjálsu framtaki, fyrst og fremst sem ritstjóri Frjálsrar verslunar.

Nú er það kappsmál borgarfulltrúa að fara í gegnum prófkjör og kosningar til að tryggja sér lífsviðurværi, þeir eru orðnir atvinnupólitíkusar og ekki í kot vísað kjaralega séð. Ég fylgist ekki það vel með að ég telji mig dómbæran á störf þeirra. Borgarmálin eru síbreytileg eins og tíðarandinn. Ég þekki það á eigin skinni. Viðtökurnar voru svo sem ekkert sérlega vinsamlegar þegar ég flutti tillögur mínar um frjálsan opnunartíma verslana og frjálsan útvarps- og sjónvarpsrekstur. Eldra fólkinu þótti þetta eitthvað skrítið. „Hvað vill hann upp á dekk þessi ungi maður?“, mátti lesa úr svipnum. Mér finnst margt undarlegt og ótrúverðugt í umfjöllun hinna ungu stjórnmálamanna nú. En framtíðin er þeirra og lausnirnar sem leita þarf verða aðrar en þær sem við af gamla skólanum höfum vanist. Þannig er það nú bara.

Það er gott að búa í Reykjavík. Við hjónin njótum þess að stunda Vesturbæjarlaugina. Steinunn er duglegri en ég, fer 40 ferðir í brautinni. Ég tók upp á því að þjálfa mig í skriðsundi, sem einhverra hluta vegna hafði mætt afgangi í sundkennslunni í Laugarnesskólanum forðum daga. Nú gat ég lært sundtökin í skriðsundi á Youtube. Við  álítum sundið nauðsynlega heilsubót fyrir fólk á okkar aldri og erum hissa á því hversu fáir jafnaldrar okkar virðast nýta sér aðstöðuna. Heilsan hefur verið góð, þó að ég hafi ekki  allskostar verið laus við fylgikvilla Elli kerlingar. Ég greindist með sykursýki 2 fyrir 12 árum og hef getað haldið henni í skefjum með góðri aðstoð heimilislæknisins og heilsugæslunnar.

Við hjónin höfum gott samband við nánasta skyldulið og gamla félaga. Fyrir tæpum 40 árum gekk ég í Rótarý, sem lætur gott af sér leiða, „þjónusta ofar eigin hag“, og vann ég að stofnun rótarýklúbbsins í Breiðholti þar sem ég er enn félagi, þó að við höfum verið búsett á Vesturgötunni í 35 ár. Kaffi- eða hádegisfundir með samstarfsmönnum á fyrrverandi vinnustöðum, aðallega úr RÚV, eru líka á dagskrá nokkuð reglulega. Sama máli gegnir um Steinunni og samstarfskonur hennar úr skólastarfinu. Að mínum dómi er það afar mikilvægt fyrir eftirlaunafólk að hlakka til slíkra endurfunda auk hæfilegrar útivistar og líkamsræktar svo framarlega sem það hefur heilsu til.

Gönguferðir geta reyndar verið „trikkí bissness“ eins og vinkona mín Sonja Diego, fréttamaður, tók stundum til orða þegar illa viðraði í heimsmálunum. Það er að minnsta kosti ekki hundi út sigandi í fannfergið og hálkuna nú um stundir. Þess vegna hlökkum við til enn einnar ferðar okkar til Rotterdam, þar sem við höfum verið með annan fótinn í tvö ár. Þar stunda ég langar gönguferðir. Sonardóttir okkar er við ballettnám í Hollandi og við höfum dvalist þar ytra með henni ásamt Sigrúnu Ásu dóttur okkar, sem kemur þangað í heimsókn  og fjarvinnu en er búsett og starfar í London ásamt eiginmanni sínum.  Anton Björn sonur okkar er hæstaréttarlögmaður í Reykjavík og á þrjú börn. Við vonum að heilsufar Evrópubúa verði með þeim hætti næstu mánuði að við getum haldið áfram ferðalögum okkar um nágrannalönd Hollands af meiri þrótti en verið hefur í faraldrinum. Hollendingar eru þægilegt fólk og glaðlynt. Þjóðin mátti áður fyrr þola ýmislegt misjafnt í samskiptum við nágranna en vinnur nú heilshugar að Evrópusamstarfinu. Sannur ESB-vorblær leikur vonandi um mann á götum Rotterdam þegar ég byrja göngutúrana þar að nýju.

Mér hefur fundist stórkostlegt að fylgjast með framþróun í fjölmiðlunartækni síðustu ára. Á menntaskólaárunum byrjaði ég sem lærlingur í blaðamennsku og ljósmyndun á Morgunblaðinu. Árið 1965, þegar ég var 22 ára, vorum við Magnús Bjarnfreðsson ráðnir tveir fyrstu fréttamenn Sjónvarpsins, sem tók til starfa árið eftir. Svo var ég ritstjóri tímaritanna hjá Frjálsu framtaki og gegndi útvarpsstjóraembættinu hjá RÚV í tvígang. Sem eftirlaunamaður leita ég afþreyingar í þeim afkimum nýrrar fjölmiðlunar, sem finna má með tölvutækninni. Í tómstundunum sé ég um heimasíðu Rótarý, rotary.is,  og er einn af ritstjórum Rotary Norden, sameiginlegs tímarits Rótarýfélaga á Norðurlöndunum, sem kemur út í 50.000 eintökum sex sinnum á ári, prentað og rafrænt. Á þessum miðlum er mögulegt að birta texta, ljósmyndir, hljóð og videó. Þess vegna sit ég við skriftir, tek myndir og klippi videó til birtingar. Þar að auki hef ég tekið saman endurminningar mínar, „Tímaflakk með Markúsi“, sem ég skrifa og set upp í tímaritsformi, eitt hefti fyrir ákveðið skeið ævinnar. Heftin eru rafræn en prentuð útgáfa verður svo bundin inn í nokkrar bækur handa afkomendum og kannski Borgarbókasafninu. Maður verður kjaftaglaðari með árunum. Fjögur hefti eru frá gengin en verkinu hvergi nærri lokið!“

Ritstjórn febrúar 23, 2022 07:00