Svava Víglundsdóttir á og rekur Kaffi Kyrrð, Blómasetrið og gistiheimilið Setrið í Borgarnesi. Hún er að verða sjötug og vinnur enn við fyrirtækið, enda veitr vinnan henni bæði lífsfyllingu og gleði. Þegar Lifðu núna ber að garði er hún að undirbúa komu Huldumeyja sem eiga pantaða gistingu í gamla sýslumannssetrinu og ætla að halda ráðstefnu í Borgarnesi.
„Það eru Guðrún Bergmann og Bryndís Fjóla sem eiga veg og vanda af skipulagningunni,“ segir Svava, „Bryndís Fjóla er völva og sjáandi. Hún hefur kortlagt álfa-, huldufólks- og dvergabyggðir á Akureyri og í Eyjafirði og nú er komið að Borgarnesi. Í lystigarðinum á Akureyri er líka Huldustígur sem Bryndís Fjóla hefur merkt. Hér er víst að finna blómlegar byggðir margvíslegra hulduvera og Borgarnes kjörbústaður hafmeyja.“
Svava ætlar að sitja fyrirlestra og fara í göngu með huldumeyjunum, enda er hún þess fullviss að okkur sé ekki ætlað að sjá allt og fleira sé til en hið áþreifanlega.
„Ég hef oft fundið ýmislegt á mér,“ segir hún. „Fengið hugboð sem hafa síðan reynst rétt.“
Ástin bankar óvænt upp á
Á borðum í Kaffi Kyrrð er þar af leiðandi að finna alls konar spil sem gestir geta spurt spurninga eða fengið leiðsögn frá englum, gyðjum, véfréttum og spákonum. Mjög margir notfæra sér þetta og Svava segist oft hafa fengið fregnir af því að svörin hafi gagnast vel en hvers vegna settist hún að í Borgarnesi?
„Ég var að elta ástina, “ segir hún. „Ég er fædd og uppalin á Vopnafirði en flutti til Borgarness eftir ég missti allt mitt í gjaldþroti.
Ástin bankaði hins vegar óvænt upp á þegar hún kynntist Unnsteini Árnassyni. Svava rak Hótel Tanga á Vopnafirði í tuttugu ár ásamt fyrrverandi manni sínum, Bjarna Magnússyni en þau skildu og eftir það rak hún hótelið ein. Þá eins og nú stóð hún vaktina nánast allan sólarhringinn. Þessi mikla vinna náði að skila því að lengst af gekk reksturinn þótt ekki væri mikill hagnaður. Halla tók undan fæti og það endaði með að Svava varð að gefast upp og reksturinn fór í þrot. Til að ná sér eftir áfallið fór hún út til Tenerife með móður sinni þá rakst hún óvænt á kúnna, sem ekki var í neinu sérstöku uppáhaldi.
„Þetta var árið 2001 og ég var úti á Kanarí með mömmu heitinni,“ segir Svava. „Við vorum á Klörubar og þar sé ég þennan mann koma út af klósettinu og heilsa, að sjálfsögðu. Hann verður eitthvað skrýtinn á svipinn svo ég spyr hvort hann muni ekki eftir mér og þá segir hann mér að ég sé að taka feil á honum og tvíburabróður hans, honum Unnsteini. Þetta var þá Hólmsteinn sem ég heilsaði. Unnsteinn kom svo og tróð sér við borðið hjá okkur mömmu og þá mynduðust tengsl á milli okkar. Ég flutti svo hingað í Borgarnes um haustið.“
Áfall að missa allt
Þetta voru ekki fyrstu kynni þeirra Unnsteins og Svövu því hann vann lengst af hjá Vegagerðinni. Hluti af starfi hans var að ferðast um landið og merkja bæi. Þá gisti hann oft á Hótel Tanga en hótelstýrunni var hálft í hvoru í nöp við þennan kúnna.
„Hann var alls ekki uppáhaldskúnninn minn því hann var alltaf með nesti með sér og gisti í svefnpokaplássi. Þetta var algengt meðal ríkisstarfsmanna þá. Ég segi stundum söguna af því þegar við vorum að vinna fram eftir, ég og vinkona mín sem vann hjá mér og Unnsteinn mætti í gistingu. Hún kemur til mín um það bil hálfellefu um kvöldið og segir hann kominn, þennan sem átti pantað svefnpokapláss. Um leið rennur Vegagerðarbíllinn í hlað. Ég dæsti og sagði að þetta væri þessi leiðinlegi frá Vegagerðinni.“
Svava býr yfir mikilli aðlögunarhæfni og kærleika. Hún er alltaf boðin að búin að aðstoða fólk og er ákaflega félagslynd. Það má eiginlega segja að þau lífsgildi hafi alltaf fleytt henni yfir verstu erfiðleika.
„Það var mjög sérstök lífsreynsla og erfið að missa allt,“ segir hún. „Ég hafði alltaf mikla trú á starfi mínu og vann mikið. Ég reyndi allt áður en til þess kom að reksturinn fór í þrot. Mér fannst ég standa mikið ein þegar þetta dundi yfir samt átti ég yndislega móður, föður, stjúpmóður, bróður og systkini sem hjálpuðu mér mikið. Eitt kvöldið sat ég alein og hugsaði til baka. Þá rann upp fyrir mér að ég átti ekkert eftir, allt sem ég hafði byggt upp þessi síðustu tuttugu ár var farið. Ég fékk eiginlega taugaáfall en náði sambandi við bróður minn og föður og þeir komu mér til hjálpar og læknir var fenginn og ég skreið upp í rúm til pabba og var þar næstu tvær nætur. En þegar upp var staðið þá fór ekki annað en steinsteypa og þessi mikla vinna.“
Lífið er ekki búið
Áfallið var nærri því að buga Svövu. Hún flutti til föður síns og var þar til að byrja með en í raun var það þakklæti sem bjargaði henni.
„Ég hugsaði: lífið er ekki búið og hóf að fara með bænir á morgnana og þakka guði fyrir daginn og biðja hann að leiða mig. Ég þakkaði fyrir hvað ég ætti, börnin mín og fjölskylduna mína og allt fólkið í kringum mig. Ég ætlaði að biðja hann að hjálpa mér í gegnum þetta. Og hér er ég í dag,“ segir Svava.
Það ætti að sannfæra alla um að alltaf leynist von jafnvel í dimmustu dölum. Kaffi Kyrrð er án efa eitt vinsælasta kaffihús landsins. Þar er ævinlega fullt út úr dyrum og á TripAdvisor er stjörnugjöfin í hæstu hæðum og ánægðir ferðalangar eiga vart orð til að lýsa hversu einstök upplifun er að koma þangað. Í fyrra keypti Svava svo gamla sýslumannssetrið, gerði upp og þar er nú vinsælt gistiheimili.
„Sonarsonur minn, átta ára, kom hér í sumar og fékk að fara með mér í húsið,“ segir hún. „Við gengum hér eftir götunni og ég var búin að segja honum að þetta væri þriggja hæða hús. Hann benti á það fyrsta þrílyfta sem við sáum og spurði: „Er það þetta?“ Nei, svaraði ég og svona gekk þetta tvisvar enn áður en við komum á réttan stað. Þegar hann sá húsið horfði hann á mig og sagði: „Amma þú ert rík kona.“ Ég svaraði: „Já ég er rík að eiga þig og Terezu.“ En hugsaði Arion banki er ríkur að eiga ömmu. Hann skoðaði húsið með mikilli lotningu og þegar við komum á þriðju hæðina, þá horfði hann á mig og sagði: „Mig langar að segja þér svolítið amma. Þetta er það fallegasta hús sem ég hef séð í mínu lífi.“ En hann elskar að koma og vera á Kaffi Kyrrð.“
Og er ekki sagt að bragð sé að þegar barnið finnur og í það minnsta fundu Huldumeyjar góða strauma í Setrinu og væntanlegt er frá þeim kort yfir dulmögnuðustu staði í Borgarnesi. Á meðan stendur gestgjafinn í Kaffi Kyrrð vaktina og gefur gestum færi á að spyrja spilin og hver veit nema huldar vættir og hafmeyjar hjálpi þeim að finna svör.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.