Ættlaust fólk sem komst til ríkidæmis

„Thorsararnir voru ekki ein af þessum gömlu fínu ættum hér sem rekja sig margar aldir aftur í tímann. Þetta var ættlaust fólk sem komst til ríkidæmis um hríð“, segir Guðmundur Andri Thorsson sem um þessar mundir, segir sögu langafa síns Thors Jensen á Sögulofti Landnámsseturs í Borgarnesi. Hann segir að tildrög þess að hann réðist í þetta verkefni séu þau að Kjartan og Sirrý sem reka Landnámssetrið hafi beðið sig um að gera þetta.

Guðmundur Andri Thorsson

Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur

Fengu afkomanda til að segja söguna

Þau hafi viljað halda nafni Thors Jensen á lofti, enda málið skylt, þar sem hann lét reisa húsið sem hýsir Landnámssetrið, árið 1889, þegar hann var verslunarstjóri í Borgarnesi. Þar bjó hann um 10 ára skeið með fjölskyldu sinni og hafði mikil áhrif á þróun staðarins með starfsemi sinni. „Þeim datt í hug að biðja mig um þetta af því ég er afkomandi. Ekki af því ég hefði eitthvað í þetta, ég er ekki sagnfræðingur, leikari eða sagnamaður, en ég þekki þessa sögu þokkalega. Hef kynnt mér hana nóg til að láta móðan mása í einn og hálfan tíma eða svo“, segir Guðmundur Andri.

Kom með hugvit inní þær miðaldir sem hér voru

Þegar hann er spurður hvað honum þyki merkilegast við sögu langafa síns, sem kom til Íslands 14 ára gamall og gerðist verslunarþjónn á Borðeyri, segir hann það vera sköpunarkraftinn sem leysist úr læðingi þegar fólk er á mörkum einhvers.  „Thor Jensen var mörgum íþróttum búinn og vel af Guði gerður, en hann er á mörkum þess að vera Dani og Íslendingur. Hann er líka á mörkum þess að vera barn og fullorðinn þegar hann kemur hingað.  Það gefur honum sérstaka tveggja heima sýn.  Hann kemur með nútíma hugvit inn í þær miðaldir sem hér voru. Hann kom heldur ekki hingað sem yfirstéttarmaður, eins og Danir gerðu yfirleitt, horfði ekki niður til Íslendinga – var þarna niðri með þeim.  En hann var búinn að ná sér í verkvit og hugvit. Hann hafði gengið á Det Kongelige Opfostringshus, sem var verslunarskóli í Kaupmannahöfn fyrir fátæka föðurlausa drengi“.

Thor Jensen

Thor Jensen

Notaði fé til að skapa

Thor Jensen varð um hríð efnaðasti maður landsins og Thorsarar áberandi í Íslensku þjóðlífi. Hann var athafnamaður, tók áhættu, varð gjaldþrota og reis upp aftur.  Margt margt fleira mætti um hann segja og það er ugglaust fróðlegt að heyra Guðmund Andra lýsa þessum eldhuga, langafa sínum. „Hann sagðist vera „ráðsmaður yfir fé sínu“. Hann naut vissulega góðs af arðinum af því, lifði ríkmannlega en leit ekki á féð sem sína einka eign. Hann notaði auðinn til að skapa“, segir Guðmundur Andri, en nú um helgina (30.sept – 2.október) verða þrjár sýningar á Söguloftinu þar sem Guðmundur Andri rekur sögu þessa langafa síns.

Ritstjórn september 30, 2016 12:20