Meinilla við Rækju-viðurnefnið

Jean Schrimpton

Jean Schrimpton

Jean Shrimpton, eða Rækjan eins og hún var kölluð og Time útnefndi árið 2012 eitt áhrifamesta tískutákn allra tíma, steig sín fyrstu framaskref í London í byrjun sjöunda áratugarins þegar borgin iðaði af lífi og enginn virtist eldri en tuttugu og fimm ára. Fyrir þann tíma voru fyrirsætur yfirleitt ekki þekktar með nafni eins og núna þegar ofurfyrirsæturnar eru nánast jafn vinsælt fjölmiðlafóður og frægir kvikmyndaleikarar og tónlistarmenn. Shrimpton er talin fyrsta ofurfyrirsætan, sem stóð undir því nafni, enda varð hún heimsfræg á skömmum tíma, svimandi hátt launuð og hundelt af blaðamönnum og ljósmyndurnum hvert sem hún fór. Twiggy fylgdi svo fast á hælana og urðu þær tvær álíka tákngervingar og Bítlarnir og The Rolling Stones fyrir „Swinging London“, eins og borginni var lýst á þessu tímabili. London var mekka unga fólksins, þar var gróskan, fjörið, tónlistin og klúbbarnir og þaðan komu tískustraumarnir.

Í framlínu unga og tískulega fólksins í London

Frægðardraumarnir voru þó ekki í farteskinu hjá Shrimpton þegar hún, átján ára, fluttist að heiman frá Buckinghamskíri þar sem hún hafði alist upp á sveitabæ og gengið í klausturskóla. Hún innritaði sig í einkaritaraskóla, en var svo uppgötvuð af ljósmyndara þar sem hún sat einhverju sinni að snæðingi á veitingahúsi. Ekkert skrýtið, stúlkan var afburðafögur, há, grönn og leggjalöng og vakti hvarvetna athygli. Ljósmyndarinn hvatti hana til að fara í módelskóla sem hún og gerði.

Við tóku myndatökur í stúdíóum og í einni slíkri hitti hún David Bailey, mikilsmetinn tískuljósmyndara á þeim tíma, sem tók hana bæði í og upp á sína arma. Shrimpton hefur látið hafa eftir sér að hún eigi feril sinn Bailey að þakka. Þau áttu í ástarsambandi í fjögur ár til ársins 1964, en á þeim tíma reis frægðarsól hennar sem hæst. Sem par voru þau í framlínu unga og tískulega fólksins í „Swinging London” og eftirsótt eftir því.

Lifir ekki í fortíðinni

„Mér fannst mest aðlaðandi við hana að henni stóð í raun og sann nákvæmlega á sama um hvernig hún leit út, botnaði bara ekkert í öllum þessum látum í kringum sig,“ rifjaði Bailey upp í Vogue löngu síðar. Sjálf sagði hún m.a. í Mirror þegar slitnaði upp úr sambandinu að Bailey hefði kennt sér að það væri ekki síður mikilvægt að hafa bein í nefinu og gott útlit.

Andlit Shrimpton tók að birtast á forsíðum tískublaðanna; Haper’s Bazaar, Vanity Fair, Vogue, Elle, Newsweek og Time svo aðeins fáein séu nefnd. Eftir að Bailey hafði tryggt henni samning við breska Vogue sótti hann fast að fá hana í myndatöku í New York. Myndirnar birtust árið 1962 og vöktu heimsathygli á ljósmyndaranum og ekki síður viðfangsefninu. Svo merkilegur þótti atburðurinn að BBC gerði um hann og ástarsamband þeirra kvikmyndina We’ll Take Manhattan, með Karen Gillian og Aneurin Barnard í aðalhlutverkum árið 2012. Shrimpton gat ekki staðið meira á sama, enda kvaðst hún í viðtali í The Guardian hvorki syrgja né lifa í fortíðinni. Þá kærði hún sig kollótta um hver léki hana í myndinni. Gillian, aftur á móti, var yfir sig spennt að leika „manneskju, sem hefði haft svona viðvarandi áhrif á tískuheiminn”.

Hataði sviðsljósið

Áhugaleysið kom blaðamanni The Guardian ekki á óvart, enda mun Shrimpton hafa verið fámál svo jaðrar við fælni allt frá því hún hvarf af tískusviðinu fyrir fullt og allt, rétt skriðin yfir þrítugt. ,,Tískuheimurinn er fullur af döpru fólki með vandamál. Gríðarleg áreitni í umhverfinu tekur sinn toll og gerir fólk útbrunnið. Aðeins þeir útsmognu – eins og Andy Warhol og David Bailey lifa af, “ upplýsti hún í viðtalinu.

Þótt Shrimpton hafi forðast sviðsljósið síðustu áratugina, eða eftir að hún fluttist til Cornwall á suðvesturströnd Englands og stofnaði þar Abbey hótelið í Prezance, kom árið 1990 út bókin Jean Shrimpton: Ævisaga. Þar var að vísu draugahöfundur að verki, en hún maldaði ekki í móinn, enda vantaði hana peninga til að gera við þakið á hótelinu sínu. „Ég var samt ekkert hrifin af að bókin kæmi út. Ég hef allt mitt líf hatað að vera í sviðsljósinu, meira að segja þegar ég var fyrirsæta,” sagði hún. Og henni var líka meinilla við viðurnefnið Rækjan, sem festist við hana og er augljóslega stytting á eftirnafninu.

Andlit sjöunda áratugarins

En hversu lítið sem Shrimpton naut frægðarinnar, baðaði hún sig engu að síður í ljómanum í áratug, ferðaðist og lifði sannkölluðu lúxuslífi. Hún hélt áfram að prýða forsíður tímaritanna, var mest myndaða fyrirsætan, frægasta fyrirsætan, fegursta konan og andlit sjöunda áratugarins að mati fjölmiðla. Nafn Jean Shrimpton var sjaldan nefnt öðruvísi en með lýsingarorðum í hástigi. Svo eignaðist hún líka, að margra mati, fallegasta kærastann, kvikmyndaleikarann Terence Stamp, rétt eftir að leiðir þeirra Baileys skildu.

Þau voru saman í þrjú ár, sem Shrimpton lýsti áratugum síðar á þessa leið: „Við vorum sætt par, sem þvældist um og hélt að við værum eitthvað merkileg, borðuðum á fínustu veitingahúsunum kvöld eftir kvöld bara til þess að sýna okkur. Mjög leiðinlegt. Mér fannst ég vera í smáhlutverki í mynd um Terence Stamp.”

Uppnám í Ástralíu og pínupilsatískan

Fylgdarsveinninn Stamp hvarf hins vegar alveg í skuggann á árlegu kappreiðarmóti í Melbourne í Ástralíu árið 1965. Þangað hafði Shrimpton verið fengin gegn dágóðri summu frá Victorian kappreiðarklúbbnum og gerviefnaframleiðanda í borginni til að kynna flíkur úr orlon-efni sem og veita verðlaun fyrir flottasta klæðnaðinn á mótinu.

Uppi varð fótur og fit þegar ofurfyrirsætan steig á ástralska grund í ermalausum kjól sem var tíu sentimetrum fyrir ofan hné, berleggjuð og hatt- og hanskalaus. Ástralir tóku andköf af hneykslan og fjölmiðlar innan lands og utan fóru hamförum svo lá við milliríkjadeilu. Bretar tóku gagnrýnina óstinnt upp, sögðu að „ . . . umkringd konum í rósóttum nælonflíkum, með ömurlega tjullhatta og loðskinnskraga hefði Shrimpton borið af eins og gull af eir”. Lafði Nathan, fyrrum borgarstjórafrú í Melbourne, sagði Shrimpton barnalega og sakaði hana um að kunna ekki mannasiði. „Ungfrú Shrimpton verður að eiga það við sjálfa sig ef hún vill vera í svona stuttu pilsi í London, slíkt tíðkast ekki hér á landi. Mér finnst við [Ástralir] vita svo miklu betur en ungfrú Shrimpton – hérna kunnum við að klæða okkur,” lét lafðin hafa eftir sér.

Talið er að uppákoman hafi markað upphaf pínupilsatískunnar, þótt breski tískuhönnuðurinn Mary Quant hafi reyndar kynnt hana til sögunnar skömmu áður. Í kjölfarið stytti hún bara pilsin enn meira og svo fór að þau hösluðu sér völl um allan heim, meira að segja í Ástralíu.

Þetta sama ár hóf Shrimpton að hanna föt með Quant. Hún hélt fyrirsætustörfunum áfram í nokkur ár, átti í nokkrum ástarævintýrum, m.a. með skáldinu og leikaranum Heathcote Williams, fluttist til Wales, þar sem hún dundaði sér við skriftir og ljósmyndun og síðan til Cornwall. Þar opnaði hún antikverslun, kynntist núverandi manni sínum, Michael Cox og eignaðist með honum soninn, Thaddeus, árið 1978. Saman á og rekur fjölskyldan Abbey hótelið í Penzance. Spurð í fyrrnefndu viðtali í The Guardian hvort hún líti til baka með eftirsjá svaraði hún neitandi: „Ég er döpur sál og ekki viss um að hægt sé að höndla hamingjuna. Lágkúra nútímans er skelfileg. Stundum finnst mér ég vera skemmd vara, en Michael, Thaddeus og hótelið breyttu lífi mínu.”

 

 

 

Ritstjórn ágúst 3, 2014 10:00