Mætti halda að Rolling Stones hefðu lifað á skyri og lambakjöti

Guðni Ágústsson

 

Guðni Ágústsson fyrrverandi alþingismaður og ráðherra skrifar grein í Morgunblaðið í dag og segir alveg mkalaust hvernig sumir menn geti varðveitt æsku sína og haldið ljóma yfir nafni sínu ævina út.  Hann nefnir tónlistarmennina Ragnar Bjarnason og Geirmund Valtýsson  sem dæmi og rifjar síðan upp tónleika sem hann fór á í Washington fyrir margt löngu, með Rolling Stones. Guðni segir að í öll þau skipti sem hann hafi fylgst með tónleikum snillinganna hafi aðallagið og trompið verið „I cant get no“.

 

Þá rifjast alltaf upp fyrir mér að fyrst heyrði ég þetta magnaða lag hljóma á regnvotum strætum Laugarvatns 1965 þegar við skólalýðurinn gengum í kvöldrökkrinu með útvarpstæki undir hendinni að hlusta á Lög unga fólksins, og þetta einstaka lag bergmálaði um staðinn.

Í þá daga hafi krakkarnir skiptst í tvo hópa, margir hefðu sett Bítlana í efsta sæti vinsældalistans en Rollingarnir lifi enn og spili og syngi saman. Hálfri öld síðar séu þeir enn vinsælir, að vísu ornðir gráir fyrir hærum og hrukkurnar prýði andlitið en skrokkurinn og þrekið sé enn á sínum stað.  Jagger hlaupi um sviðið og Charlie Watts lemji húðirnar klukkutímum saman áttræður maðurinn. Og síðan segir Guðni.

Líf þessara manna hlýtur að hafa fengið annan farveg en þann sem þeir voru vændir um í æsku, að vera óreglusamir og nota eiturlyf, svona flottir menn hljóta að hafa lært hófið og reglusemi á öllum sviðum í mat og drykk. Plöturnar sem þeir hafa selt eru orðnar 240 milljónir talsins. Eitt er víst; þeir eru vel á sig komnir og þeir hafa hugsað vel um sál sína og líf sitt því segja má að hér ráði hið fornkveðna „Fögur sál er ávallt ung undir silfurhærum“. Það mætti halda að þeir heðfu lifað á skyri, lambakjöti og tekið inn hákarlalýsi, svo magnað er að sjá til þeirra.

 

Ritstjórn febrúar 8, 2018 11:53