Íslenskir stríðsfangar

Nú er óðum að létta leynd af skjölum tengdum síðari heimstyrjöldinni á Íslandi í Þjóðarbókhlöðunni. Í kjölfarið hafa margvíslegar upplýsingar komið upp á yfirborðið. Meðal annars gögn tengd handtökum og fangavist Íslendinga í Bretlandi. Fólkið var ýmist handtekið vegna gruns um njósnir eða stjórnmálaskoðana sinna. Þeirra beið erfið vist bak við rimla eða undir eftirliti vopnaðra hermanna. Sumir töluðu aldrei um þetta upp frá því en aðrir tjáðu sig meira.

Ævintýramaður á óhappaskipi

Fyrir nokkru kom út bók um Artic og þau undarlegu örlög sem fylgdu því eftir Gísla Jökul Gíslason

Fyrir nokkru voru systurnar Dagný og Lilja Kristín Einarsdætur í viðtali á Lifðu núna. Þær sögðu frá handtöku föður síns og dvöl í bresku fangelsi. Hann var aðeins sextán ára þegar þetta var og svo óheppinn að hafa ráðið sig á skip sem var nýkomið frá Spáni. Á heimleiðinni höfðu skipstjóri, stýrimaður og loftskeytamaður þess  tilneyddir sent Þjóðverjum veðurupplýsingar. Íslensku sjómennirnir voru því grunaðir um njósnir og Einar látinn gjalda þess að vera um borð þegar hermennirnir komu og handtóku þá. Fangelsið sem hann sat í var í gömlu klaustri og þótt Einar talaði lítið um þessa reynslu sagði hann einhverju sinni frá því að hann hafi verið látinn skræla kartöflur og stundum sofnað ofan í tunnurnar vegna þess að lítill svefnfriður var á næturnar meðan á loftárásum Þjóðverja á London stóð.

Afi minn stríðsfanginn

Lifðu núna talaði einnig við Elínu Hirst eftir að bók hennar, Afi minn stríðsfanginn kom út í haust. Hún lýsir þar einkar vel þeim áhrifum sem handtaka Karls Hirst hafði á líf allrar fjölskyldunnar. Karl hafði ekkert til saka unnið annað en að vera Þjóðverji. Bretar töldu að engu væri að treysta þegar fólk frá óvinaþjóðinni var annars vegar og þess vegna voru allir Þjóðverjar handteknir og fluttir úr landi. Karl endaði í fangabúðum á eynni Mön. Hvað hann þoldi þar er um margt á huldu því hann forðaðist alla tíð að tala um þessa reynslu en vitað er að matarskortur var mikill á Bretlandi meðan á stríðinu stóð og stríðsfangar fóru ekki varhluta af því. Eftir að stríðinu lýkur tekur síðan við tveggja ára barátta við íslensk yfirvöld því dómsmálaráðherrann Finnur Jónsson taldi ekki fyllilega afsannað að Karl hafi verið njósnari og hann stóð því í vegi fyrir því að hann fengi að koma heim. Það var ekki fyrr en amma Elínar, Þóra Marta Stefánsdóttir mætti inn á skrifstofu hans með drengina sína tvo og benti honum á að það væri á hans ábyrgð að börnin væru föðurlaus að hreyfing komst á málið. Karl kom heim en allt var breytt. Sú reynsla að fá hermenn með alvæpni inn á gafl hjá sér, verða að horfa á eftir eiginmanni og föður út í óvissuna og vita ekkert um afdrif hans árum saman skildi eftir djúp sár. Reynsla stríðsfangans breytti einnig skapgerð hans og Elín telur líklegt að öll fjölskyldan hafi glímt við áfallastreitu. Bókin er skrifuð af mikilli hlýju og næmni og er falleg lýsing á afa og ömmu höfundar og sambandi þeirra.

Fangar Breta; Bak við rimlana

Feðginin Sindri Freysson og Snærós Sindradóttir hafa gert sjónvarps- og útvarpsþætti um Íslendinga sem teknir voru höndum á fyrstu árum hernámsins. Tveir þættir hafa verið sýndir í sjónvarpi og fluttir í útvarpi, sá fyrri um sjö Vestfirðinga, með sautján ára stúlku, Ilse Häsler, í forgrunni en sá síðari um Þjóðviljamenn. Vestfirðingarnir voru taldir hafa aðstoðað Þjóðverja, August Lehrmann, flóttamann sem hafði orðið innlyksa á Íslandi eftir hernámið. Aldrei hefur fengist nein fullvissa um að Lehrmann hafi stundað njósnir og ekki heldur var víst að allir Vestfirðingarnir hafi í raun hjálpað honum að leynast. Þættirnir eru hins vegar fádæma vel unnir og fróðlegir.

Hingað til hefur því oft verið haldið á lofti að Íslendingar hafi sloppið einkar vel frá heimstyrjöldinni síðari, jafnvel grætt á henni. Þegar þetta er sagt hafa menn greinilega ákveðið að horfa framhjá þeim íslensku skipum sem skotin voru niður af Þjóðverjum og þeim mönnum sem þar fórust. Sögur þessara fanga leggjast svo einnig á vogarskálarnar og ættu að skapa mótvægi við þá hugmynd að stríðsárin hafi verið dans við dáta, stórgróði af Bretavinnu, tækifæri fyrir heildsala og Marshall-aðstoð.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

 

Ritstjórn janúar 16, 2024 10:00