„Erlendar greinar um förðun eldri kvenna byrja allar á því að segja „Less is more“ sem á íslensku myndi útleggjast sem „Minna er betra“, segir Heiðar Jónsson snyrtir þegar blaðamaður Lifðu núna spurði hann hvort konur ættu að breyta förðuninni með aldrinum. Og hann heldur áfram, „þannig að farðinn þarf að vera þunnur og með réttri áferð, ekki mattur. Það var lengi viðtekin skoðun að allt ætti að vera matt og púðrað. Meikið þarf að vera með ljóma. Það er misskilningur að ljómi og perlugljái eða sansering, sé eitthvað skylt. Sansering er það versta fyrir eldri húð. Það er mikill munur á þessu tvennu. Perlugljái og fiskhreistur er ekki fyrir fimmtíu plús, en fiskhreistur er notað í sanseringu“, segir hann og telur að eldri konur eigi að nota sér þær nýju línur í snyrtivöruframleiðslunni sem henti þeim. En sanseraður varalitur geti gengið þar sem varirnar haldi yfirleitt eðlilegum línum óháð aldri.
Að fara pent í litina
Heiðar segir að eldri konur eigi ekki að púðra allt andlitið, bara nefbroddinn og þau svæði þar sem húðin sé feit, annars ekki. Hann telur að Það sé rétt að fara pent í liti og ekki nota mikinn augnskugga eða mikinn kinnalit. „En það er alltaf mjög gott að vera duglegur við augnlínuna, eye-lainerinn og maskarann. Útlínan og augun skipta máli og það að taka tíma í að setja á sig maskara. Það er yngjandi og opnar augun“, segir hann. „Eyelainer þarf ekki að vera svartur en maskari má vera svartur. Svarti liturinn er fyrir þær sem hafa alltaf notað svartan eylainer“, segir hann og bætir við að það þurfi að sjá konu áður en hægt sé að fullyrða hvort hún þolir svartan eyelainer eða ekki. En það sé um að gera að nota brúnan, gráan eða dökkbláan eylainer ef það fari betur.
Nota bjarta liti en ekki skæra
Heiðar heldur áfram og segir „Konur sem eru mjög ljósar yfirlitum þurfa að passa sig á dökkum eyelainer en geta notað hann samt. Aðalatriiðð er að hafa litina í förðuninni bjarta, en ekki endilega skæra. Og gera þá greinarmun á skyggingalitum sem eru yfirleitt brúnir eða gráir og venjulegum augnskugga. Skyggingaliturinn er sá sem fer í hvilftina milli augabrúnarinnar og augans. Til að draga augnalokið tilbaka þarf að nota bjartan lit“, segir hann og sama eigi við um kinnalit, hann sé rauðbleikur en skyggingaliturinn meira brúnn, noti konan hvorutveggja. Heiðar segir einnig að það megi auka varalínu sem blýantsfari nemur. Vegna þess að varirnar eigi til að þynnast með aldrinum. „En þegar farið er að teikna út fyrir varalínuna, þarf mikla fagmennsku til að það sjáist ekki. Ef kona teiknar sjálf á sig varir, þarf að nota ansi marga varaliti til að fela það“, segir hann að lokum.