Misskilningur að eldri starfsmenn hræðist breytingar

 Mannfjöldaspár gera ráð fyrir því að á næstu árum og áratugum muni eldra fólki fjölga meira en ungu fólki. Þörfin fyrir starfskrafta þeirra sem komnir eru yfir miðjan aldur mun því aukast. Þetta segir Jóna Valborg Árnadóttir sem nýlega lauk meistararitgerð sinni í mannauðsstjórnun í Háskóla Íslands. Þar fjallaði hún um þá þætti sem hvetja miðaldra og eldra fólk í starfi og stuðla að starfsánægju þess, en Jóna Valborg gerði á þessu eigindlega rannsókn með ítarlegum viðtölum við átta eldri starfsmenn.

Starfið og samstarfsmennirnir

Markmiðið með rannsókninni var að auka þekkingu og skilning á þessum verðmæta starfsmannahópi og styrkja stjórnendur starfsmannamála til að taka mið af þörfum þessa hóps. Helstu niðurstöður sýna að starfið sjálft og verkefnin, stuðningur stjórnenda og samskipti við samstarfsmenn, leika stórt hlutverk þegar hvetja á miðaldra og eldra fólk í starfi. Engin sambærileg rannsókn er til hér á landi.

Verðmætir starfsmenn

Jóna Valborg segir að lítið hafi verið skrifað um starfsánægju eða hvatningu fyrir þennan aldurshóp. Sjálf hafi hún mikinn áhuga á því hvað fái fólk til að fara á fætur á morgnana og fara að vinna. Hún hafi fundið þegar hún tók sín fyrstu skref á vinnumarkaðinum, hvað það var gott að vinna með sér eldra og reyndara fólki. Starfsmenn sem eru fimmtugir og eldri búi yfir mikilli reynslu, þekkingu og yfirsýn sem geri þá verðmæta. Fyrirtæki ættu þar af leiðandi að leggja kapp á að halda í þá sem lengst og tryggja að þekkingin sem þeir búa yfir glatist ekki þegar þeir hætta störfum.

Finna fyrir fordómum í sinn garð

„Það er í gangi einhver saga um að eldri starfsmenn hafi minni áhuga á námi eða símenntun og að þeir eigi erfiðara með að aðlagast breytingum, segir Jóna Valborg. „Sú er hins vegar ekki raunin þegar rætt er við fólkið sjálft. Það hefur áhuga á að læra og þróast í starfi ef aðstæður bjóða upp á það. Umhverfið hefur mikið að segja til um það hvernig til tekst að virkja fólk til góðra verka“. En hún segir líka að margt af því eldra fólk sem hún ræddi við finni fyrir fordómum í sinn garð á vinnustaðnum. Þetta hafi verið kröftugt fólk sem lét sér annt um heilsu sína, og var áhugasamt. „Skilaboðin frá umhverfinu vinna hins vegar gegn því. Ef skilaboðin eru þau að þú sért ekki nógu hæfur, ekki nógu góður, of gamall og hugsanlega ekki þörf fyrir þig á vinnustaðnum, þá hefur áhrif á sjálfsmynd eldra fólks,“ segir Jóna Valborg.

Vill miðla þekkingu og reynslu

Það var sammerkt með fólkinu í rannsókninni að það hafði mikinn áhuga á að miðla þekkingu sinni til þeirra sem yngri eru. Það vildi finna að það væri mikilvægt , að það væri leitað til þeirra og hlustað á óskir þeirra. Það vill líka fá að fást við fjölbreytt verkefni og hefur mikinn áhuga á að sækja námskeið og ráðstefnur til að bæta við þekkingu sína. Sumir vilja aukinn sveigjanleika í starfi og minna álag. Það er mikilvægt fyrir þá að vera í góðu sambandi við samstarfsmenn sína og að stjórnandi sýni þeim stuðning og meti vinnu þeirra að verðleikum.

Verkfæri fyrir mannauðsfólk

Jóna Valborg segir að eldri starfsmönnum og aldurstengdri stjórnun starfsmannamála hafi verið lítill gaumur gefinn. Sjálf hefur hún smíðað verkfæri fyrir stjórnendur með það fyrir augum að styrkja aldurstengda mannauðsstjórnun í stofnunum og fyrirtækjum. Annars vegar er það svokölluð starfsánægjuvog sem byggir á spurningakönnun og hins vegar hagnýt ráð fyrir stjórnendur til að ýta undir jákvætt viðhorf í garð eldri starsmanna.

Ritstjórn september 5, 2014 15:31