Frítekjumarkið ætti að vera 191 þúsund á mánuði

Hrafn Magnússon

Hrafn Magnússon, fyrrverandi framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða segir að það ætti að hækka frítekjumarkið umtalsvert. Hann segir að þegar stjórnvöld ákváðu að frítekjumark atvinnutekna yrði 109.000 krónur á mánuði 1. janúar 2009 hafi  launavísitalan verið 355,7 stig. Launavísitalan í júlí síðast liðnum var hins vegar kominn upp í 623,9 stig. Vísitalan hækkaði um 75,4 prósent á tímabilinu. „Það merkir að frítekjumarkið vegna atvinnutekna ætti nú að vera 191.187 þúsund krónur á mánuði,“ segir Hrafn.

Hrafn segir ennfremur að hann langi til að vitna í grein Stefáns Ólafssonar prófessors sem hann birti á Pressunni. Þar fjallaði Stefán um breytingar á almannatryggingarlögunum.

Stefán sagði: „Skynsamlegt markmið nú væri að byrja á að hækka frítekjumark vegna atvinnutekna, eins og núverandi rikisstjórn stefnir raunar að.

Eftir umtalsverða hækkun á því ætti svo að halda áfram og stefna að algjöru afnámi allra skerðinga í almannatryggingum vegna atvinnutekna lífeyrisþega.

Ríkinu dugar alveg að fá skatttekjur af atvinnutekjum lífeyrisþega, bæði ellilífeyrisþega og öryrkja.

Þeir sem hafa allan sinn lífeyri úr lífeyrissjóðum hér á landi mega raunar vinna eins mikið með töku lífeyris og þeir vilja, án þess að lífeyrir þeirra skerðist nokkuð. Það eru fyrst og fremst lífeyrisþegar með lægri tekjur og skert réttindi í lífeyrissjóðum sem eru fórnarlömb skerðinga á lífeyri almannatrygginga vegna atvinnutekna. Þetta fer sérstaklega illa með öryrkja sem stunda launaða atvinnu – en vinnuhvatinn er fáum mikilvægari en einmitt örorkulífeyrisþegum.

Með afnámi allra skerðinga vegna atvinnutekna væri vinnuhvatinn hafður í hámarki og bæði skynsemi og réttlæti fullnægt í opinbera lífeyriskerfinu.

Þjóðarbúið myndi hagnast umtalsvert af hinum aukna vinnuhvata sem þeirri skipan fylgir.“

 

Ritstjórn september 13, 2017 13:02