Aldursfordómar

Hildur Jakobína Gísladóttir

Hildur Jakobína Gísladóttir forstöðumaður hjá Vinnumálastofnun og eigandi fyrirtækisins Officium ráðgjöf ehf. skrifar

Undanfarið hefur borið á umfjöllun um aldursfordóma á vinnumarkaði. Neikvæðar staðalmyndir um unga og eldri starfsmenn geta haft áhrif í ráðningarferli og eru í raun ekkert annað en fordómar eða mismunun innan vinnumarkaðsins. Skv. vísindavefnum eru fordómar hugsaðir sem andstæða gagnrýninnar hugsunar og aldursfordómar eru fordómar gagnvart eldra fólki.

Aldursfordómar eru hins vegar bæði í garð eldra og yngra fólks á vinnumarkaði. Neikvæðar staðalmyndir gagnvart ungu fólki á vinnumarkaði innihalda m.a. að þau séu reynslulaus, hafi litla stjórnunarhæfileika og litla samskiptahæfni, séu óþolinmóð, áhættusækin og mikið frá vinnu vegna lítilla barna. Neikvæðar staðalmyndir af eldra fólki eru t.d að viðbragðstími eldra fólks sé minni en yngra fólks, að þau séu tækniheft,séu ekki eins áhugasöm um að læra nýja hluti (þar sem stutt er í að þau detti út af vinnumarkaði), sýni minni hugmyndaauðgi, þori ekki að taka áhættu og séu meira frá vinnu vegna veikinda. Þessar staðalmyndir sýna aðeins tvo liti, svartan og hvítan en það gleymist að miklu fleiri litir eru í litarófinu. Í þessu samhengi hallar meira á eldri aðilana. Rannsóknir sýna hins vegar að það séu enginn tengsl á milli aldurs og og frammistöðu í starfi (Ng & Feldmann,2009). Reynslan og þekkingin hverfur ekki þótt það hægist á hreyfingum með hækkandi aldri.

Það er mikilvægt að atvinnurekendur og ráðningarstofur hafi þessa hugsanarvillu í huga við ráðningar og leggi höfuðáherslu á að starfsmenn hafi mismunandi eiginleika, hæfileika og frammistöðu óháð aldri. Mismunandi persónuleikar, gen, uppeldisaðstæður, menntun og reynsla mótar hvern og einn einstakling. Þannig er hægt að segja að hvorki ungir né eldri séu einslitur hópur, ekki frekar en að halda því fram að allir starfsmenn séu svona eða hinsegin.

Þekking eykst með hækkandi aldri og er því reynsla mjög mikilvægur kostur varðandi eldri starfsmenn eins og máltækið „ sá lærir sem lifir“ segir til um. Það liggur því mikill auður í eldra starfsfólki og að sama skapi liggur mikill framtíðarauður í yngra starfsfólki. Sennilega er vænlegast að hafa teymi samsett af blönduðum aldurshópi starfsmanna til að ná forskoti á markaði og sem breiðustu vídd þekkingarinnar.

Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) áætlar að árið 2050 verði 22% jarðarbúa eldri en 60 ára. Svipuð tala eða 23% er spá fyrir Ísland sama ár. Atvinnuleitendur eldri en 55 ára hjá Vinnumálastofnun eru í dag 1.803 eða 17,1%. Það er staðreynd að fólk lifir almennt lengur en áður,(sí)menntar sig meira en áður og er almennt heilsuhraustara. Við megum ekki láta þennan vannýtta mannauð hjá okkur fara og ef fer sem horfir munu atvinnulausu eldra fólki fjölga. Hver vill sjá þá þróun?

Þessi grein birtist fyrst á bloggi Hildar Jakobínu sem hægt er að nálgast hér.

 

 

Ritstjórn febrúar 11, 2022 14:29