Nær allar jólagjafir til útlanda í sjópósti

Fyrir nærri hálfri öld fóru nær allar jólagjafir til útlanda í sjópósti, enda var gríðarlegur verðmunur á honum og flugpósti.  Sem dæmi má  taka að árið 1970 kostaði 244 krónur að senda 2,5 kílóa pakka með sjópósti til Ástralíu en færi hann með flugi kostaði það 1624 krónur.  Á árunum fyrir 1970 flutti nokkuð stór hópur Íslendinga til Ástralíu og jólagjafasendingar voru því tíðar þangað. Til að pakkinn kæmist í tæka tíð þurfti að senda hann af stað í byrjun nóvember.

Gæruskinn, múffur og kápur

Jólagjöfin til ættingja eða vina sem bjuggu í útlöndum fyrir 45 árum var ullarteppi,  ef marka má grein  sem birtist í Þjóðviljanum í nóvember árið 1970.  „Íslenska ullarteppið með fallegum litum og mynstri er góð vinargjöf og ber með sér íslensk hughrif til fjarlægari  staða,“ segir blaðamaður Þjóðviljans sem spurði starfsmenn Rammagerðarinnar hvað væri vinsælast að gefa vinum og vandamönnum í útlöndum.

Vinsælustu gjafirnar reyndust ullar- og skinnavörur. Handunnu ullarvörnar svo sem peysur, slár og vettlingar þóttu veglegri en verksmiðjuframleiddar og voru taldar henta vel til gjafa handa fólki á Norðurlöndunum.

Blaðamaður Þjóðviljans segir raunar að skinnavörur séu frábærar gjafir, svo sem gæruskinn, múffur, kápur og gestabækur. Fólk í Bandaríkjunum sé sérlega hrifið af þeim slíkum vörum.

Fyrir nærri hálfri öld var vinsælt að senda  Álafoss-  eða Gefjunar ullarteppi til vina og vanamanna í útlöndum

Fyrir nærri hálfri öld var vinsælt að senda Álafoss- eða Gefjunar ullarteppi til vina og vandamanna í útlöndum

Ullarteppi eða gæra

Lifðu núna hafði samband við Rammagerðina og bað um aðstoð við finna eitthvað skemmtilegt handa ættingjum og vinum í útlöndum og það var eins og tíminn hefði staðið í stað.  Okkur var bent á að ullarteppi væru góð gjöf handa þeim sem byggju erlendis, í öðru lagi var bent á að mörgum þætti gaman að fá dúka, púða eða annan textíl  með íslenskum mynstrum svo sem laufabrauði eða rjúpu.  Í þriðja lagi voru það gærur af sauðfé sem að sögn eru eftirsóttar af vinum og ættingjum hvar sem eru í heiminum.

Hins vegar senda fáir orðið í sjópósti nú fara flestar gjafir með flugi.

 

Ritstjórn desember 2, 2014 11:34