Hvers vegna borðum við of mikið í desember?

Á disknum er girnileg svínasteik með stökkri pöru og rauðkáli. Brún sósan umlykur sykurbrúnaðar kartöflunar. Fólk sest niður við hátíðaborð og borðar á sig gat. Þegar það er löngu orðið satt, heldur það samt áfram að borða, nú er það Ris a la mande. Danski blaðamaðurinn Thilde Danielssen skrifar skemmtilega grein á vef danska ríkisútvarpsins um ástæður þess að fólk borðar oft og mörgum sinnum yfir sig í desember og hvaða hvatir liggja þar að baki. Lifðu núna ákvað að endursegja greinina. Thilde vitnar til neytendasérfræðingsins Morten Sehested Munster sem segir að rannsóknir sýni að fólk borði allt að þriðjungi meira þegar það borðar með öðrum en þegar það borðar eitt. Það sé til að mynda skýringin á því hvers vegna ný ástfangið fólk fitnar oft. Ef fólk er í veislum, sem oft eru margar á aðventunni og um jól, geti það borðað allt að 95 prósentum meira en ef það sæti eitt heima að snæðingi. Skýringin er að við borðum í takt við aðra og höfum gaman að því að segja hvert öðru hversu vel maturinn smakkist.

Frummaðurinn kemur upp í fólki

Því auðveldara sem það er að nálgast matinn því meira borðum við. Það skýrir að hluta til hvers vegna fólk fer á jólahlaðborð og borðar þangað til það er nánast afvelta. Við borðum meira ef við skömmtum okkur á diskana með stórum skeiðum heldur en ef við notum tangir eða gafla við að skammta á diskana. Fólk borðar líka meira af þeim réttum sem eru næst því.  Stærðin á diskunum skiptir líka miklu máli. Því stærri diskar sem eru notaðir því meira setjum við á þá. Ef diskarnir eru litlir þá borðum við ósjálfrátt minna og okkur finnst við verða fyrr södd. Í gamla daga þegar lítið var um mat, borðaði fólk eins og það gat því það var aldrei að vita hvenær það fengi næst  að borða. Frummaðurinn kemur upp í fólki þegar það sér gnægð matar á jólahlaðborðinu. Fólk sem hefur nógan mat í dag hegðar sér á svipaðan hátt og frummaðurinn gerði þegar hann loks fékk gnægð matar.

 Vilja kaupa ríflega til jólanna

 Sjö af hverjum tíu Dönum finnst að það eigi að kaupa ríflega inn til jólanna og það eigi að vera nóg af mat eftir á borðinu þegar fólk stendur upp frá borðum um jól. Fólki finnst að það eigi skilið að borða yfir sig af því það eru jól. Samt veit fólk að það hefur borðað of mikið.  Margir segja sem svo að þeir hafi nú hvort sem er borðað svo mikið og að þeir geti sem best haldið áfram að borða út mánuðinn. Þar að auki er það nýársheit margra að fara í megrun á nýju ári og borða hollari mat. Þessi hugsun fær fólk líka til að borða meira. „Þegar fólk veit að það verður skortur innan skamms, ákveður það að verðlauna sig hér og nú og heldur því áfram að borða eins mikið og það getur í sig látið af jólamatnum,“ segir Morten.

Ritstjórn desember 21, 2015 10:40