Nándin skiptir mestu máli

Þegar Kristbjörg Elín Oddsteinsdóttir var 17 ára gömul var kominn tími til að velja framtíðarstarf og menntun, hjúkrunarfræðinámið var í sigtinu, en þegar hún lenti í alvarlegu bílslysi það sama ár og var á sjúkrahúsi meira og minna næstu tvö ár, gerði hún sér grein fyrir því hvernig hún vildi verja kröftum sínum.

Sjúkraliðarnir gerðu lífið bærilegt

Krisbjörg og maður hennar, Tryggvi Agnarsson.

Kristbjörg hálsbrotnaði í þessu hræðilega slysi þegar hún var 17 ára og þurfti að fara í margar aðgerðir. ,,Ég fer ekki ofan af því að við eigum gott heilbrigðiskerfi þegar mikið liggur við,“ segir hún. ,,En þeir, sem gerðu líf mitt bærilegt á sjúkrahúsinu, voru sjúkraliðarnir. Maður kynnist allt öðru umhverfi þegar maður neyðist til að vera sjúklingur á sjúkrahúsi. Þar er önnur veröld og maður verður svo algerlega ósjálfbjarga og upp á aðra kominn. Á þessum tíma þekkti ég ekki einu sinni starfsheitið ,,sjúkraliði“ en það voru einmitt sjúkraliðarnir, sem unnu störfin sem ég fann mest fyrir þegar mér leið sem verst. Hjúkrunarfræðingarnir unnu auðvitað ómetanlegt starf, en þeir og læknarnir voru á bakvið. Ég fann ekki svo mikið fyrir þeim, á meðan sjúkraliðarnir voru þeir sem færðu mér nándina, sem ég þurfti svo mikið á að halda á þessum tíma. Akkúrat þarna fann ég ég út hvernig ég myndi gera mest gagn og hvar ástríða mín lá og sé ekki eftir því,“ segir Kristbjörg og brosir.

Ábyrgðin og eftirfylgnin á sömu hendur

Allt frá þessum tíma, fyrir rúmum 40 árum, hefur Kristbjörgu orðið sífellt

Kristbjörg með dætrum og barnabörnum.

ljósara hversu mikilvægt starf sjúkraliðarnir vinna. Það segir hún að sé sérstaklega augljóst þegar kemur að umönnun þeirra sem eldri eru. ,,Mér hefur lengi þótt að eðlilegra væri að stytta boðleiðina á milli sjúkraliða og lækna. Sjúkraliðar eru í nánustu samskiptunum við fólkið og þekkja þarfir hvers og eins. En með aldrinum eiga flestir erfiðara með að koma væntingum og löngunum á framfæri. Við, sem erum í nánustu samskiptunum, hljótum að vera í bestu stöðunni að meta það. Það er ekki gott að skilaboð frá okkur þurfi að fara í gegnum millilið. Mér þykir þess vegna augljóst að verkaskiptingin verði að breytast. Það er alveg örugglega nóg að gera fyrir alla og enginn væri að taka verkefni frá öðrum,“ segir Kristbjörg og bætir við að með þessu nýja diplómanámi frá Háskólanum á Akureyri, sem hún var að ljúka, muni nýtast heilbrigðiskerfinu okkar vel. Námið er ætlað  sjúkraliðum, sem vilja auka þekkingu sína og efla starfshæfni í geðheilbrigðisþjónustu, öldrunar- og heimahjúkrun,. ,,Með því erum við að taka stórt skref inn í framtíðina,“ segir hún.  Nú geti sjúkraliðarnir rökstutt beiðnir beint við lækninn milliliðalaust. Þar með sé ábyrgðin og eftirfylgnin komin á sömu hendur og það einfaldi lífið fyrir svo marga.

Eldra fólk svo mikll fjársjóður

Þar sem Kristbjörg hefur starfað meira og minna á öldrunadeildum á starfsævi sinni, hefur hún fylgst vel með þróuninni. Hún tók reyndar  hlé eftir fyrstu fimmtán árin þegar börnin voru lítil, en hún á tvær dætur, Eygó Rut og Eydísi Lilju. Þáverandi eiginmaður hennar var í vaktavinnu og þá hentaði ekki að báðir foreldrar ynnu á vöktum. Þá fékk hún dagvinnu í gæðaeftirlitinu hjá Actavis og starfaði þar í 15 ár. Aftur urðu kaflaskil í lífi Kristbjargar. Hún ákvað þá að flytja til Selfoss og sótti um starf á sjúkrahúsinu þar. Ekki leið á löngu áður en hún var búin að finna deildina á sjúkrahúsinu, þar sem eldra fólkið lá og þar leið henni vel. ,,Þar átti ég dásamleg sex ár en þá fæddist mitt fyrsta barnabarn og dóttir mín bjó með fjölskylduna í Reykjavík ,,Mig langaði að vera nær þeim og þá hafði ég líka eignast kærasta í Reykjavík svo stefnan var tekin á höfuðborgina aftur,“ segir Kristbjörg og hlær.

Einmanaleikinn hrollkaldur veruleiki margra

Kristbjörg segir að Covid tímabilið hafi gert okkur ljóst hvað einmanaleikinn geti veriðhrollkaldur veruleiki margra. ,,Ættingjarnir máttu ekki heimsækja heimilisfólkið og margir fundu fyrir mikilli sorg. Þá urðum við að skipta heimilisfólkinu á milli okkar og í lokin vorum við orðin eins og börnin þeirra og það var mjög ánægjulegt hlutverk. Alltaf kemur að því að nándin er það sem skiptir mestu máli,“ segir Kristbjörg og hlakkar til að takast á við sitt gamla hlutverk á nýjum forsendum.

Fyrsti hópur sjúkraliða útskrifaðist úr nýju námi frá Háskólanum á Akureyri nú í júní.

Sólveig Baldursdóttir, baðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn júní 23, 2023 07:32