Sextíu og átta ára sjúkraliði fær ekki vinnu

Valdimar Elíasson kemur brunandi á mótorhjóli til fundar við blaðamann Lifðu núna, en ætlunin er að ræða við hann um atvinnumál eldra fólks, vegna þess að Valdimar sem er 68 ára gamall og menntaður sjúkraliði, fær ekki vinnu við sitt fag. „Svo er ég að fara í atvinnuviðtal á eftir hjá Artic Adventure“, segir hann glaður í bragði, en bætir við að hann búist ekki við að það komi neitt úr úr því.

Þú ferð bara með þeim

Valdimar er lærður vélstjóri og var á sjó þar til hann var kominn um þrítugt. Þá fór hann í land og fékk vinnu sem gæslumaður á Kleppi til að byrja með. Það gekk vel og í kjölfarið var hann hvattur til að læra til sjúkraliða. „Deildarstjórinn tók mig inná vaktina og sagði að það væru þrír starfsmenn að fara upp í skóla. Þú ferð bara með þeim, sagði hann og þar með byrjaði ballið, segir Valdimar og hlær.

Vill vinna en kennitalan segir stopp

Það er kennitalan sem ræður

Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. Valdimar vann á geðdeildinni við Hringbraut um tíma, hann vann einnig á sjúkrahúsinu á Neskaupsstað, var þar á sjúkrabílnum í öllum fríum og náði að festa kaup á íbúð. Hann vann síðar í Sunnuhlíð í Kópavogi, hjá Securitas og síðan aftur á Kleppi á deild 14. Valdimar kynntist kínverskri konu, en um það leyti var verið að leggja deild 14 niður og öllum var sagt upp.  Þau fóru til Kína og voru þar í rúma tvo mánuði.  Þegar heim kom sótti Valdimar um öll þau störf sem honum hugkvæmdist. Hann fór á hvlaskoðunarskip sem vélstjóri og hafði yfrið nóg að gera.  „En ég fæ enga vinnu sem sjúkraliði“, segir hann.  „Ég sótti meðal annars um á Grund, en það er aldurinn sem er til trafala, það er ekki verið að tala um reynslu, þekkingu eða stundvísi, það er kennitalan sem ræður“.

Gaman að vinna á Alzheimerdeild

Það skemmtilegasta sem Valdimar veit er að vinna sem sjúkraliði. Honum þótti mjög gaman að vinna á Alzheimerdeild. Hann segir það gefandi starf. „Það er svo gaman að sjá fólk sem getur ekki tjáð sig brosa og hlæja, það lifnar við“, segir hann.  Hann sótti um starf í Mörkinni, en var sagt að svo margir hefðu sótt um að ekki væri þörf fyrir hans starfskrafta, en umsóknin hans yrði geymd. Síðan hefur hann ekkert heyrt.  Kona Valdimars  vinnur sem leiðsögumaður fyrir kínverska ferðamenn og hann vonast einnig til að fá vinnu,  þrátt fyrir aldurinn. Hann segist vera orðinn algert sófadýr, en fái hann vinnu ætli hann að koma sér í form, synda og reyna að léttast.  Hann fékk ekki starfið hjá Arctic trucks, eftir viðtalið,  þar var verið að leita að leiðsögumanni sem ekur einnig farþegum, svokölluðum „driver guide“, en hann er ekki menntaður leiðsögumaður, heldur vélstjóri og sjúkraliði –  með  ranga kennitölu.

 

Ritstjórn október 8, 2019 07:42