Gerðu upp gamlan sveitabæ eftir að þau fóru á eftirlaun

Störf kennara hafa ætíð verið mikilvæg og verða það áfram í náinni framtíð.

Nýtt Kennarasamband Íslands var stofnað 11. nóvember 1999 og var Eiríkur Jónsson kjörinn fyrsti formaður þess. Kjörorð stofnþings nýs Kennarasambands var ,,Þú býrð ævilangt að góðum kennara.“  Á þinginu var gengið frá sameiningu kennarafélaganna í eitt félag um leið og eldra Kennarasambandi Íslands og Hinu íslenska kennarafélagi var slitið. Við samruna tveggja kennarafélaga varð til eitt stærsta stéttarfélag í landinu með um það bil sjö þúsund félagsmenn á grunn- og framhalds- og tónlístarskólastigi. Stuttu síðar gengu svo leikskólakennarar í samtökin. Kennarasambandið er bæði fagfélag og stéttarfélag.

Eiríkur Jónsson hóf eftir próf frá Kennaraskólanum 1972 starf sem kennari í Grindavík en móðurættin hans er þaðan svo hann telur að það hafi verið góð byrjun. Þaðan fór hann í Stykkishólm og var þar við kennslu í eitt ár.

Körfuboltinn dró hann til Stykkishólms

,,Það var m.a. körfuboltinn sem dró mig í Hólminn en ég var þá búinn að kynnast strákum í Snæfellsliðinu lítillega. Mér líkaði mjög vel í Hólminum en ástæðan fyrir því að dvölin varð ekki lengri var mikill húsnæðisskortur í Stykkishólmi. Á sama tíma losnaði kennarastaða heima, þ.e. í Reykholtsdal á Kleppjárnsreykjum, og þeirri stöðu fylgdi nýlegt raðhús. Þar var ég í 9 ár að kenna á heimaslóðum. Þá ákvað ég að reyna mig við stjórnun og réði mig sem skólastjóra á Blönduósi og hætti þar vorið 1989, en þá var ég kosinn varaformaður Kennarasambandsins. Þar með var mörkuð leiðin inn í félagsmálastarfið. Síðasta árið sem ég kenndi var í Hafnarfirði en vann þá um leið að hluta hjá Kennarasambandinu. Ég fór síðan í fullt starf árið 1990 hjá Kennarasambandinu, fyrst í stað aðallega á kjaramálasviðinu, en árið 1994 var ég kosinn formaður og gegndi því til ársins 2011. Öll árin sem ég var formaður fékk ég aldrei mótframboð, hvað sem olli því!

Eiríkur Jónsson við málverk af Lómagnúp eftir Tolla

–           Það hefur ekki alltaf verið logn í kringum þig og þitt starf sem formaður Kennarasambandsins, hvernig fannst þér það?

,,Þetta voru bæði góðir og slæmir tímar. Oft á tíðum var þetta erfitt, eilíf barátta fyrir bættum kjörum, kennaralaunin hafa eins og allir vita sveiflast svolítið gegnum tíðina. Á fyrsta ársfjórðungi 1987 voru kennaralaunin töluvert hærri en þau höfðu verið um hríð, og þar á eftir var iðulega verið að leggja fram þær kröfur að kaupmáttur launa yrði jafn góður og hann hafði verið á fyrsta ársfjórðungi 1987. Kringum árið 1990 varð svo mikil niðursveifla í þjóðfélaginu og það bitnaði auðvitað  á launum kennara eins og öðrum.

–           Hafði það ekki talsverð áhrif árið 1994 að kennarastarfið varð í vaxandi mæli talið töluverð ,,kvennastétt“? 

,,Það hafði gerst löngu áður í grunnskólunum en að hluta til varð þessi þróun vegna þróunarinnar í efnahagslífinu á þessum tíma svo það voru ýmsir fleiri þættir sem voru þessu valdandi. Árið 1992 eða 1993 stóð til að kennarar færu í verkfall en það var fellt í atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna. Mér fannst þá að viðsemjandinn, ríkisvaldið, nýtti sér þá stöðu svolítið enda var enginn baráttuvilji hjá kennurum en sú reynsla kom okkur til góða seinna meir.

Þá sögðu margir kennarar, þetta gerum við aldrei aftur, það er að fella verfallsboðun, og færa með því ríkisvaldinu tromp í hendurnar. Í ársbyrjun 1995 voru greidd atkvæði um boðun verkfalls í grunn- og framhaldsskólum og þá var kjörsókn um 95% og verkfallsboðun samþykkt með um 90% atkvæða.

Síðar voru verkföll skólastigabundin, hjá framhaldsskólunum og tónlistaskólunum og hjá grunnskólunum. Eftir að Kennarasambandið var stofnað í núverandi mynd hafa aðildarfélögin sjálfstæðan samningsrétt,“ segir Eiríkur Jónsson.

Góður andi í aðdraganda verkfalla 

–           Það var nokkuð víðtæk umræða á þeim tíma að kennara skorti áræðni til að fara í verkfall, teldu sig ekki hafa vilja þjóðarinnar með sér. Var það staðreynd?

,,Í aðdraganda verkfalls fann maður alltaf mikinn meðbyr allt þar til verkfallið skall á, þá snarsnérist hann. Foreldrar þurftu að hafa börnin heima, og það mótaði afstöðu margra, ekki bara foreldra. Ég sagði oft að það væri enginn vandi að búa til kröfugerð og fara í verkfall, vandinn er fólgin í því að semja sig út úr verkfalli. Í aðdraganda verkfalls og í verkfalli ertu með andann í félaginu með þér. En þegar þú kemur fram með samningsdrög  og vilt mæla með því við stjórn og samninganefnd að ljúka málinu á þeim nótum, þá veistu að þú færð töluverðan fjölda félagsmanna upp á móti þér. Það er í raun alveg sama hvað þú leggur á borðið, alltaf er einhver hópur á móti tillögunni, sem eðlilegt er. Oftast er það launaliðurinn sem veldur mestum ágreiningi. Margir höfðu alltaf þá trú að hægt hefði verið að ná aðeins meiru ef haldið hefði verið áfram aðeins lengur. Fólk vill alltaf meira, sérstaklega þegar það er þegar búið að fórna miklu í verkfalli.“

Í byggingavinnu og gerði upp sveitarbæ

Eiríkur og Björg á Grænhól.

–           Hvað tókstu þér fyrir hendur þegar þú hættir hjá Kennarasambandinu?

Eiríkur segir að þegar að þessm tímamótum kæmi hafi hann ákveðinn í að draga sig alveg í hlé frá félagsstörfum. Hann tók að vísu þátt í tímabundnum verkefnum hjá einstaka félögum í Kennarasambandinu ef eftir því var leitað, en fyrst í stað var hann aðallega í slökun og njóta þess að vera í fríi.

,,Ég fékk tilboð um að koma í byggingavinnu stax árið 2012 og þáði það. Elsti bróðir minn er byggingameistari og ég var að vinna töluvert hjá honum í frítímum hér áður fyrr og lærði margt af honum. Þetta var því í raun upprifjun en um leið margt nýtt sem ég lærði. Ég var síðan í byggingavinnunni til ársins 2016. Konan mín var fram að því að vinna en hún er leikskólakennari og starfaði hjá Kennarasambandinu, var lengi formaður Félags leikskólakennara og síðar varaformaður Kennarsambandsins.

Árið 2016 eignuðumst við gamlan sveitabæ á Barðaströndinni sem heitir Grænhóll. Við tókum okkur til og gerðum hann algjörlega upp, úti sem inni og unnum þá vinnu að mestu leyti sjálf. Við erum mikið þar, jafnt að sumri sem að vetri og erum smám saman að bæta aðstöðuna svo sem með að smíða barnahús og gera hlöðuna hæfa til að halda partý. Þetta  verkefni hefur sem sagt átt hug okkar meira og minna síðustu árin.

Konan mín, Björg Bjarnadóttir, er frá Haga á Barðaströnd en bærinn okkar Grænhóll er í næsta nágrenni við Haga. Bróðir Bjargar og konan hans búa í Haga með kýr og við leysum þau stundum af í fjósinu og njótum þeirra stunda vel. Það má segja að Grænhóll sé orðinn að griðarstað fjölskyldunnar því börnin okkar, tengdabörn og barnabörn njóta þess að dvelja á staðnum.

Ég gríp svo í smíðar af og til ef tækifæri gefst að hjálpa ættingjunum eða vinum og svo fer ég árlega í ca. hálfan mánuð í maí og hjálpa til í sauðburði hjá Indriða vini mínum bónda á Skjaldfönn við Ísafjarðardjúpi.

Golfið er svo sameiginlegt áhugamál okkar hjóna sem gefur okkur mikið, er skemmtilegur félagsskapur og útivera. Sjálfur er ég félagi í Golfklúbbi Mosfellsbæjar og svo erum við bæði félagar í Golfklúbbi borgarstarfsmanna og golfklúbbnum á Bíldudal þar sem við spilum oft þegar við erum fyrir vestan. Eins förum við í golfferðir erlendis helst bæði vor og haust. Það er nauðsynlegt að hafa eitthvað fyrir stafni og reyna líka að gera gagn meðan maður er til einhvers nýtur, hvort sem er við smíðar, bústörf eða létta undir með fjölskyldunni. Við eigum 6 börn og 15 barnabörn. Það er alltaf nóg að stússa þótt við séum bæði komin á eftirlaun,“ segir Eiríkur Jónsson.

Viðtalið við Eirík birtist áður á Lifðu núna í janúar 2022

Ritstjórn júlí 29, 2022 07:00