Ríkið skili peningum til byggingar hjúkrunarheimila

Landssamtök eldri borgara hafa gagnrýnt það harðlega að hluti af því fé sem allir skattgreiðendur landsins greiða í framkvæmdasjóð aldraðra, hefur farið í að greiða rekstur hjúkrunarheimila. Það stríði beinlínis gegn því hlutverki sjóðsins að reisa ný hjúkrunarheimili, hlutverki sem er afar brýnt. Áttræðum og eldri mun fjölga um 45% fram til ársins 2030, en þeir telja í dag rúmlega 12.400 manns.  Samkvæmt miðspá mannfjöldaspár Hagstofu Íslands  verða rúmlega 18.000 manns áttræðir eða eldri árið 2030, en þangað til eru 12 ár.

Alþingi samþykkir ár eftir ár að verja fénu í rekstur 

Tekjur Framkvæmdasjóðs voru árið 2017 um 2 milljarðar, en þær koma af nefskatti sem er lagður á alla skattgreiðendur í landinu. Á árinu var aðeins hægt að nota 171 milljón kr. til að úthluta til byggingar nýrra hjúkrunarheimila. Verulegur hluti sjóðsins fer í svokallaða leiguleið,en eftir hrun var tekin ákvörðun að heimila sveitarfélögum að byggja hjúkrunarheimili,sem greidd yrðu af Framkvæmdasjóði á nokkrum árum. Sigurður Jónsson sem er fulltrúi Landssambandsins í Framkvæmdasjóði segir að það sé réttlætanlegt að gripið hafi verið til þessara ráðstafana rétt eftir hrun.  „En það versta er og það sem er mjög gagnrýnisvert, er að þriðjungur tekna sjóðsins  á árunum 2011-2017 var notaður í reksturinn. Alþingi hefur frá 2011 samþykkt sérstaka klásúlu við fjárlögin, þar sem heimilað er að nota þennan hluta í beinan rekstur“, segir Sigurður.

Stjórmálamenn gátu ekki látið sjóðinn í friði

Björgvin Guðmundsson fyrrverandi borgarfulltrúi gerir þessi mál að umtalsefni í  grein í Morgunblaðinu í vikunni, undir fyrirsögninni Ríkið hefur vanrækt hjúkrunarheimilin. Þar segir hann að hjúkrunarheimilin í landinu séu alls staðar rekin með halla, ekki eingöngu á Akureyri, og gagnrýnir að ríkið sem geri kröfur um þjónustu og fjölda hjúkrunarfræðinga á hjúkrunarheimilunum tryggi síðan ekki fjármagn til að hægt sé að standa við þær.  Í lok greinarinnar segir hann.

„Mikill skortur er nú á hjúkrunarheimilum . Biðlisti eftir rými er langur, alltof langur. Þetta vandamál hefur lengi verið til staðar. Þegar við Albert Guðmundsson sátum saman í borgarstjórn Reykjavíkur varpaði hann fram þeirri tillögu að stofnaður yfði framkvæmdastjóður til þess að kosta byggingu nýrra hjúkrunarheimila. Hugmyndin hlaut góðar undirtekir. Hún náði fram að ganga. Albert lagði til að lagður yrði skattur á hvern gjaldanda til þess að kosta þennan sjóð. Sjóðurinn byggðist upp og varð öflugur og hefur kostað byggingu margra hjúkrunarheimila. En stjórnmálamenn á Alþingi gátu ekki látið sjóðinn í friði. Þeir fóru að seilast í hann til annarra þarfa. Ríki verður að endurgreiða það fjármagn sem tekið var þannig til annarra nota.

 

Ritstjórn ágúst 23, 2018 09:27