Undanfarin ár hefur átt sér stað mikil uppbygging á hótelum á landsbyggðinni. Í mörgum tilfellum er um að ræða einstaklega notaleg hótel rétt við suma af fegurstu stöðum landsins. Yfir vetrartímann þegar ferðamönnum fækkar er því áhugavert og notalegt fyrir Íslendinga að nýta sér þessa gistimöguleika og njóta landsins og náttúrunnar. Hótel Varmaland í Borgarfirði var heimsótt á dögunum og margt kom skemmtilega á óvart.
Byggt var við gamla húsmæðraskólann frá árinu 1946 en mjög vel hefur tekist til. Viðbyggingin skyggir ekki á gamla húsið en kemur í framhaldi af því og gengur alveg að fellinu sem húsið stendur undir. Það var Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins sem teiknaði gamla skólann en staðsetning hans var vel valin því þarna er mikið skjól og skógur sem vaxið hefur upp í kringum staðinn eykur enn á huggulegheitin.
Það er virðingarvert hversu mjög menn hafa lagt sig fram um að varðveita sögu staðarins og víða er að finna muni frá því húsmæðraskólinn var sóttur af metnaðarfullum ungum konum alls staðar að af landinu. Þvottarullur, risastórar hrærivélar og húsgögn gegna hér í sumum tilfellum nýjum hlutverkum en í öðrum eingöngu nýtt til að gleðja augað. Uppi á veggjum eru gömlu skólaspjöldin og hingað koma víst stórir hópar gamalla nemenda og makar þeirra og það fólk hefur mikla ánægju af að leita uppi kunnugleg andlit á þessum myndum. Þess má líka geta að öll herbergin bera nöfn bæja í Borgarfirði en sumir þeirra eru farnir í eyði og frábært að varðveita nöfnin á þennan hátt.
Spennandi umhverfi
Á Varmlandi er mikill jarðhiti og þar eru stór gróðurhús þar sem ræktaðir eru tómatar. En þar er líka sundlaug sem hótelgestir hafa aðgang að en svo er Krauma baðstaðurinn við Deildartunguhver í næsta nágrenni og fyrirtak að bregða sér þangað til að slaka á í einstöku umhverfi þessa vatnsmesta hvers í Evrópu. Aðeins lengra eru giljaböðin í Húsafelli og náttúruperlur á borð við Hraunfossa og Barnafoss. Fossinn Glanni er sömuleiðis innan seilingar og Paradísarlaut. Þessir staðir eiga það sameiginlegt að þangað kemur enginn of oft. Ef fólk er í leit að útivist frekar en afslöppun eru nokkrir golfvellir í Borgarfirði og ganga á Grábrók er alls ekki mikil áreynsla. Hellaskoðun er líka mikið ævintýri og Surtshellir, afhellar hans og Víðgelmir eru meðal stærstu og stórfenglegustu hraunhella landsins.
Á efstu hæð viðbyggingarinnar er veitingastaðurinn Calor. Gluggar eru á öllum hliðum matsalarins og þaðan er glæsilegt útsýni vítt og breitt um Borgarfjörð sem margir telja einn fallegasta stað landsins. Calor er latína og merkir varmi og á það vel við bæði vegna jarðhitans á staðnum sem setur svip á alla upplifun hér en líka vegna þess að maturinn hlýjar gestum að innan. Hér er íslenskt hráefni sett í nýstárlegt samhengi og maturinn sérlega gómsætur. Það er alltaf spennandi að prófa eitthvað nýtt og hér verður enginn svikinn af upplifuninni. Morgunverðarhlaðborðið er líka sér á parti því þar er bæði mikið úrval og allt einstaklega smekklega fram borið.
Borgarfjörður býður auðvitað upp á margt fleira. Í Borgarnesi má sækja menningarviðburði á Landnámssetrinu og hugarró í Kaffi Kyrrð. Í Reykholti gefur Snorrastofa mönnum tækifæri á að efla tengslin við Íslandssöguna og fornbókmenntirnar. En fyrst og fremst felst í því tilbreyting og hvíld að skreppa út úr bænum í eina eða tvær nætur og njóta þess að láta stjana við sig á góðu hóteli. Hótel Varmaland er í þægilegri fjarlægð frá höfuðborginni og sveitakyrrðin þar alltumlykjandi.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.