Nú er tími til að fagna

Kristín Linda Jónsdóttir

Kristín Linda Jónsdóttir hjá Huglind er sálfræðingur, fyrirlesari og aðstoðarfararstjóri hjá Skotgöngu. Hún tekur á móti einstaklingum í sálfræðimeðferð, handleiðslu og ráðgjöf bæði í Reykjavík og Selfossi og heldur námskeið og fyrirlestra hérlendis og erlendis.

 

Sú vissa að það sé okkur gott að fagna og vera glöð hefur fylgt mannkyninu gegnum aldir. Má þar minnast orðanna úr sálmum biblíunnar, fögnum og verum glöð. Hvernig væri að hafa þessi orð biblíunnar að leiðarljósi á aðventu og jólum?

Auðvitað er lífið ekki bara dans á rósum, heldur frekar eins og fram kemur í einni af þekktari kvikmyndum sögunnar, Forest Gump, eins og konfektkassi, þú veist aldrei alveg hvað þú færð næst.  Því er ekki að ætla að efst í sálarsinni fljóti ætíð, fögnuður og gleði heldur þurfum við bæði að seiglast í gegnum þunga og erfiða tíma og leitast við að krydda þá gráu ljósi. Síðast en ekki síst að virkileg taka eftir njóta og fagna á dögunum bestu.

Fræðigreinin jákvæð sálfræði sem byggir á vísindarannsóknum um líðan, lífsgæði, heilsu og hamingju fólks hefur skilgreint fögnuð sem eitt af dýrmætustu verkfærum okkar til að efla okkur, styrkja og bæta sem sálir á jörðu hér.

Doktor Sonja Lyubomirsky professor við Kaliforníuháskóla hefur ásamt sínu teymi rannsakað gagnleg verkfæri jákvæðrar sálfræði og áhrif þeirra á líðan okkar, hegðun, hugsun, heilsu og hamingju um áratuga skeið. Hún hefur útnefnt fögnuð sem eitt af tólf dýrmætustu verkfærunum okkar. Spyrja má, hvernig getur fögnuð verið verkfæri, saman borið við hníf eða hamar? Svarið er að rannsóknir á fjölda fólks sýna einmitt að ef við virkilega notum markvisst fögnuð, eins og við notum hníf til að skera niður hangikjöt eða hamar til að negla nagla í vegg þá virkar það. En þá þufum við að temja okkur að fagna, grípa til fögnuðar oft, eins og við grípum til hnífs í eldhúsverkum.

Virkilega fagna á markvissan hátt svo undirtaki í okkar eigin sálarsal.

Fögnuður, eins og hann er skilgreindur sem verkfæri í jákvæðri sálfræði er: Að temja sér að beina aftur og aftur markvisst athyglinn að, leita uppi, taka eftir og í framhaldi af því að njóta á gagntakandi hátt þess jákvæða, góða, fagra og gleðilega. Þegar við veljum fögnuð sem leiðarljós stækkum við upp og böðum hugann í því sem lyftir, bætir og gleður. Við gefum okkur tækifæri til að fagna og verða gagntekin af dansi norðurljósa, dilla okkur við fjörugt jólalag, lygna aftur augunum og meðtaka bragðið af dásamlegum súkkulaðimola og sannarlega getum við fagnað því að njóta þeirrar náðar að búa við frið og frelsi, fjarri heimsins vígaslóð.

Við hrópum upp af fögnuði, lyftum höndum yfir höfuð, klöppum og brosum út að eyrum, látum fögnuð gagntaka okkur og stækka gleðina hið innra.

Við getum margfaldað fögnuðinn með því að orða upplifanir og hrífa aðra með okkur ef tækifæri er til. Við þekkjum það ef til vill best þegar íslendingar fagna saman góðu gengi landsliðs eða fulltrúa þjóðarinnar á alþjóðlegum vetvangi. Það eykur líka áhrif fögnuðar í sál og sinni að varðveita upplifunina með mynd eða skrifum. Í gær sagði kunningjakona mín mér frá því að hún hefði keypt sér svo dásamlega mjúkt, hlýtt og fallegt rósbleikt sjal og ég fann hvað hún fagnaði því að hafa fundið notalegt sjal að sínum smekk og verið í færum til að greiða fyrir það. Frásögnin endaði á orðunum, og ég ætla virkilega að leyfa mér að nota það.

Einmitt núna á aðventu og jólum skulum við virkilega taka eftir og fagna því fagra, góða og bjarta sem á vegi okkar verður.  Fagna því að geta hlýtt á dásamlega aðventu og jólatónlist að okkar vali og leyfa okkur að drekka núna úr allra fallegasta bollanum.

Kristín Linda Jónsdóttir desember 8, 2024 07:00