Aðalsteinn Örnólfsson skrifar
Að vera kominn á efri ár er svolítið ævintýri.
Sjúkrakerfið okkar er sérkennilegt. Ég þurfti að bíða í eitt og hálft ár eftir aðgerð. Þökk sé biðlistunum eftir liðskiptaaðgerðum. Ég var númer 600 í röðinni. Heyrði svo útundan mér að ef menn hringdu og væru frekir kæmust þeir framfyrir röðina. Í einlægni minni trúði ég ekki að ástandið væri þannig. Ég hélt að ef ég væri númer 600 þá kæmi röðin að mér, þegar talan 600 kæmi upp. En ég prófaði og sendi tölvupóst og hringdi tvisvar. Þremur vikum seinna var ég kominn í skurðaðgerð. Aðgerðin heppnaðist vel en ég tapaði tveimur golfsumrum í staðinn fyrir nýja hnéð.
Fyrir aðgerð fór ég fyrst til heimilislæknis, hún tjáði mér eftir skoðun að það skemmdi ekki fyrir að ég létti mig aðeins fyrir aðgerðina.
Síðan þurfti ég að fara á Borgarspítalann og í blóðprufu og röntgen. Var í einhverjum úrtökuhópi. Var boðið að koma og þáði það, kann aldrei að segja nei. Þar sagði hjúkrunarfræðingurinn einnig að það skemmdi nú ekki fyrir að ég létti mig aðeins.
Svo þurfti ég að fara aftur til heimilislæknis. Kerfið í Garðabæ er þannig að ég fæ bara þann lækni sem er laus. Þar lenti ég á karlmanni sem sagði við mig: „Ætlar þú að verða offitusjúklingur á lyfjum?“ Ég fór að hlæja, því enginn hafði þorað að segja þetta við mig áður. Það var allt í lagi að segja þetta við mig, en einhverjir hefðu móðgast.
Svo var mér boðið af skurðlækninum að vera í hópi sem mun, eftir árið, meta þjónustuna og hvernig aðgerðin var. Kann aldrei að segja nei. Gaf móttökunni á 5. hæð, skurðstofu, gjörgæslu og móttökunni á 4. hæð einkunn. Get alveg sagt það hér að við eigum frábært hjúkrunarfólk.
Ég tók líka þátt í könnun á ellihrörnun, var látinn reikna út og búa til klukku og segja hvernig klukkan væri 10 mínútur í tvö. Bara skemmtilegt. Það sem maður lendir ekki í á efri árum.
Nú labba ég um með nýtt títaníum-hné og læt hliðið pípa er ég fer erlendis.
Lífið er skemmtilegt!