Ókeypis menningar- og heilsukort fyrir fólk á besta aldri

Dagur B. Eggertsson

Borgrárráð samþykkti nýlega tillögu Dags B. Eggertssonar borgarsjóra um að taka upp  Menningar- og heilsukort eldri borgara í Reykjavík frá og með komandi hausti. Kortið á að nýtast öllum Reykvíkingum sem hafa náð 67 ára aldri til að fá endurgjaldslausan aðgang að sundlaugum og menningarstofnunum sem reknar eru af borginni. Þessir afslættir hafa þegar verið innleiddir í fjárhagsáætlun ársins, en töluverð brögð eru að því að eldri borgarar þekki ekki til þessara fríðinda eða nýti sér þau ekki til heilsubótar og menningarauka. Í greinargerð sem lögð var fram með tillögunni segir að tillaga um „frístundakort eldri borgara“ hafi verið ein af tillögunum sem starfshópur um heilsueflingu aldraðra vann undir forystu Ellerts B. Schram, núverandi formanns Félags eldri borgara (FEB) í Reykjavík og nágrenni. Með nýju Menningar- og heilsukorti Reykjavíkurborgar er tekið undir áðurnefnda tillögu. Þegar kortið verður orðið að veruleika má tengja það frekari fríðindum líkamsræktarstöðva eða fyrirtækja sem veita eldri borgurum afslætti og verði það útfært og innleitt í samráði við FEB.

 

Ritstjórn maí 4, 2017 13:10