Lífið er lygilegra en lygin: Saga af glæpum prófessors

Inga Dóra Björnsdóttir

Dr. Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur skrifar

Ég hóf framhaldsnám við New York University, NYU, haustið 1977. NYU sker sig úr flestum háskólum Bandaríkjanna að því leyti að er hann er ekki á afgirtu svæði, heldur inni í miðri borg og eru deildir og skrifstofur skólans staðsettar í byggingum allt í kringum Washington Square sem er í hjarta the Village, eða Þorpsins, sem er við suðurenda 5. Strætis á Manhattan.

Mannfræðideildir við bandaríska háskóla bjóða upp á þrjár námsbrautir. Þær eru þróunarsaga mannsins (physical anthropology) , fornleifafræði og menningar-og félagsleg mannfræði. Ég var á menningar og félagslegu brautinni, en á fyrsta ári varð ég að taka námskeið á öllum þrem greinum. Kennarinn minn í þróunarsögu mannsins var prófessor að nafni John Buettner-Janusch, sem var formaður deildarinnar.

B.J. eins og hann var alltaf kallaður, var einn af fremstu mannfræðingum Bandaríkjanna á sínu sviði, en hann og kona hans Vina höfðu lengi stundað rannsóknir á lemúrum á eyjunni Madagaskar, en lemúrar eru forfeður apanna, og þeir síðarnefndu eru forfeður okkar mannanna. B.J. var einna fyrstur fræðimanna í sínu fagi til að beita erfða-og lífeðlisfræði í rannsóknum sínum á sögu uppruna mannsins.

Hann hafði lengi starfað við Duke háskóla í Norður-Karólínu, sem er einn virtasti háskóli Suðuríkjanna og var hann ráðinn, á afar góðum kjörum, til NYU, til að auka hróður deildarinnar. Hann fékk ekki aðeins ofurlaun, heldur líka glæsilega íbúð á efstu hæð í einum af húsum skólans við Washington Square, með útsýni til allra átta.

Þetta átti vel við B.J. en hann var maður sem barst mikið á.  Hann hélt til dæmis útvöldum nemendum og vinum dýrlegar veislur í íbúð sinni. Bekkjarbróðir minn, sem lenti í einni slíkri, sagði mér að heimili hans hafi verið meira eins og sýningarsalur en íverustaður, en þar var fullt af listaverkum og kjörgripum til sýnis. Í veislunni hafði verið veittur ferskur humar, sem B.J. hafði látið fljúga inn sérstaklega frá Maine og var humarnum skolað niður með dýrindis kampavíni.

B.J. var hávaxinn og spengilegur, með litað ljóst hár, sem fór vel við sólbrúnt andlit hans. Hann klæddist dýrum fötum og vönduðum skóm, og var með gullhring á baugfingri beggja handa. Frá honum stafaði í senn yfirlæti og hroki, en þeir sem þekktu hann vel, sögðu hann hafa mildari hliðar. – En eitt er víst, nemendur  urðu smáir í návist hans og þurftu að leggja mikið á sig til að komast í náðina hjá honum.

Sem deildarforseti hafði B.J. að vonum stærstu og bestu skrifstofuna, og var hún, eins og heimili hans, búin vönduðum húsgögnum, fögru gólfteppi og á veggjum héngu dýrgripir frá Madagaskar.  Í horni skrifstofunnar lá hringstigi upp í rannsóknarstofu hans, þar sem útvaldir doktorsnemar hans unnu að rannsóknum á hans vegum.

Það voru að vonum skiptar skoðanir um B.J. innan deildarinnar og einn af prófessorunum, sem var í sama fagi og B.J., var mjög í nöp við hann.  Þessi maður var Breti að nafni Clifford Jolly.  Jolly grunaði B.J. um græsku og fylgdist í leyni grannt með stafsemi og framferði hans og nemenda hans.  Dag einn árið 1979, tveimur árum eftir að ég hóf nám við deildina, sá Jolly einn af nemum B.J. burðast með stóran pappakassa eftir gangi deildarinnar á leið í geymslu í geymslurými undir stiga í ganginum. Geymslurýmið var læst með hengilás með númeralykli og Jolly, sem hafði einstakt sjónminni, læddist aftan að nemanum þegar hann var að opna lásinn, leit snöggt yfir öxl hans og tókst að leggja talnaröðina á minnið.

Jolly beið síðan átekta á skrifstofu sinni og þegar allir starfsmenn höfðu yfirgefið deildina þennan dag, opnaði hann geymsluna og þegar hann opnaði kassann, sem nemi B.J. hafði komið þar fyrir, blöstu við honum þúsundir smátaflna.  Jolly tók handfylli af þeim með sér og næsta morgunn fór hann með þær til rannsóknarlögreglunar til að fá úr því skorið hvers konar töflur um væri að ræða. Niðurstöður rannsóknarinnar komu ekki aðeins Jolly, heldur líka deildinni, yfirstjórn háskólans, já öllum New York búum, mjög á óvart: Þetta reyndust vera LSD og methaqualone töflur, sem B.J. hugðist markaðsetja í New York og hagnast af. Að sögn leiðbeinanda míns, hefðu töflurnar í umræddum kassa dugað til þess að halda öllum íbúum á Manhattan í vímu heilan sólarhring, hefðu þær komist á markað.

Viðbrögð yfirvalda voru snögg og hörð. Snemma morguns næsta dag var B..J handtekinn á heimili sínu og í sjónvarpinu í New York þennan dag mátti sjá hann niðurlútan, leiddan inn í lögreglubíl milli tveggja lögreglumanna. Nemendur hans, sem unnu á rannsóknarstofunni, voru reknir úr deildinni samdægurs og eins skrifstofustjóri deildarinnar, en B.J. hafði samið við hann um að hann mundi sjá um að koma eiturlyfjunum á markað.

B.J. var að vonum dreginn fyrir dóm, en neitaði allri sök, sagði að nemar hans hefðu framleitt þess lyf án þess að hann vissi af.  Dómarinn tók ekki mark á orðum hans og árið 1980 var hann dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir framleiðslu á eiturlyfjum, fyrir samsæri og fyrir að hafa logið að rannsóknarlögreglunni.  Hann var sendur í fangelsi í Flórída, af sömu gerð og Kvíabryggja, fangelsi fyrir menn sem ekki höfðu framið ofbeldisglæpi.

B.J. var að vonum mjög ósáttur við hlutskipti sitt og á meðan á dvöl hans í fangelsinu stóð, sendi hann nokkrum fyrrverandi starfsmönnum sínum við deildina bréf þar sem hann hótaði þeim öllu illu fyrir það að hafa ekki veitt honum stuðning.

B.J. var náðaður árið 1983 og snéri þá aftur til New York, bitur og í hefndarhug. Hann tók því þó rólega fyrstu árin, en á degi ástarinnar, Valentíudeginum 14. febrúar 1987 tók hann til sinna ráða. Hann bjó til undurfagra konfektmola og þegar molarnir storknuðu, sprautaði hann hvern mola fullan með cyonaði. Síðan raðaði hann molunum í gylltan konfektkassa frá Godiva og fór með hann í blómabúð, þar sem hann lét skreyta kassann með fagurri blómaskreytingu. Síðan lét hann blómabúðina senda blómum prýddan kassann til eiginkonu dómarans, sem hafði fundið hann sekann og sent hann í fangelsi.

Eiginkonan tók sendingunni fagnandi, taldi hana vera frá eiginmanni sínum, sem var að önnum kafinn við vinnu þennan dag, og gæddi sér strax á nokkrum molum. En fyrr en varði var hún lögst sárkvalin í stofusófann. Henni til happs kom unglingsdóttir hennar heim úr skólanum fljótt eftir að þetta gerðist og fór hún með móðir sína á bráðamóttökuna og var eitraða súkklaðinu dælt upp úr henni og var lífi hennar þar með borgið.

Eftir töluverða leit fannst brot af fingrafari litla fingurs B.J. á konfektkassanum og enn á ný var hann handtekinn árla morguns og enn á ný mátti sjá hann á sjónvarpsskjánum í New York niðurlútan milli tveggja lögreglumanna sem leiddu hann inn í lögreglubíl.  Í þetta sinn játaði hann sök og eins og við var að búast, þá hlaut maður sem hafði reynt að myrða eiginkonu dómara, þungan dóm, og var hann dæmdur til 20 ára fengelsisvistar.

Í þetta sinn var ekki um að ræða að fara í lúxusfangelsi í Florída, heldur var hann sendur í eitt af illræmdustu alríkisfangelsum Bandaríkjanna, sem er í bænum Springfield í Missouri ríki. Þar var hann í einangrunarklefa og var hleypt út aðeins einn klukkutíma á dag.

Eftir sex ára dvöl í fangelsinu, áfrýjaði B.J. dómnum og var áfrýjunni hafnað. Þegar honum varð ljóst að hann yrði að dúsa í fangaklefa fram yfir aldamótin 2000,  fór hann í hungurverkfall og urðu fangaverðirnir að neyða ofan í hann mat. Heilsu hans hrakaði hratt upp úr þessu og hann lést úr lungabólgu á fangelsissjúkrahúsinu árið 1992, 67 ára að aldri.

Þeir sem önnuðust hann á dánarbeðinu sögðu að hann hafa játað fyrir þeim að hann iðraðist gerða sinna skömmu áður en hann dó.

 

 

Inga Dóra Björnsdóttir júlí 13, 2020 08:00