Tengdar greinar

Ólafur Laufdal veitingamaður

Þetta viðtal við Ólaf Laufdal birtist á Lifðu núna í júní 2019. Það er endurbirt hér til að minnast hans, en hann er fallinn frá.

Ég byrjaði 12 ára sem pikkaló á Hótel Borg, segir Ólafur Laufdal veitingamaður, sem nú rekur hótel og veitingastað í Grímsborgum í Grímsnesi fyrir ofan Sogið. Þessi frumkvöðull í skemmtanabransanum segist hafa verið hættur að vinna þegar hann flutti austur. „Ég er núna 74ra ára og verð 75 ára í ágúst“, segir hann. „ En svo kunni ég bara ekki við að vera hættur, ég er ekki í golfi og ekki í veiði, þannig að ég er búinn að vinna uppá hvern einasta dag. Mér hefur þótt þetta skemmtilegt, en það þarf bæði dugnað og ósérhlífni til að reka svona stað, það þarf að vera yfir þessu allan sólahringinn, því það er aldrei lokað. Það er opið á aðfangadagskvöld og gamlárskvöld. Þá er allt fullt hér, en aðallega útlendingar“, segir Ólafur.

Eftir að hafa komist á bragðið sem pikkaló, ákvað Ólafur að leggja fyrir sig störf á hótelum og veitingastöðum og fór í Hótel- og veitingaskólann og þegar hann lauk náminu vann hann um tíma á Grillinu á Hótel Sögu. Þaðan lá leiðin á farþegaskipið Gullfoss, en þar var hann barþjónn í 7 ár. „Svo fór ég að vinna í Glaumbæ og var þar þangað til staðurinn brann 5.desember 1971. Þá fór ég í Óðal sem var á þeim tíma einn flottasti veitingastaðurinn í Reykjavík, svipaður og Hótel Holt í dag, ég varð meðeigandi þar, við stækkuðum staðinn og ég var einn af eigendunum í nokkur ár. Þá keypti ég stað í Ármúlanum sem hét Cesar, hann hafði ekki gengið neitt sérstaklega vel. Ég breytti heitinu í Hollywood og það var eins og við manninn mælt, þetta varð einn vinsælasti skemmtistaður landsins“.

Eftir þetta fór boltinn að rúlla fyrir alvöru hjá Ólafi sem fór næst yfir á Broadway sem tók 1500 manns, en Hollywood var 800 manna staður. Hann byggði svo Hótel Ísland í Ármúla sem tók 2.364 gesti. Hann rak einnig Hótel Borg í 13 ár. Ólafur rak auk þessa alls Fegurðarsamkeppni Íslands í 25 ár og flutti inn um 90 heimsfræga skemmtikrafta, til að skemmta landanum. Þeirra á meðal voru nöfn eins og Tom Jones,  Ray Charles, Bueno Vista Social Club, The Mamas and The Papas og The Troggs. Auk þess vann hann með mörgum íslenskum skemmtikröftum og tónlistarmönnum, þar á meðal Björgvini Halldórssyni sem var skemmtanastjóri á Broadway í 20 ár og Gunnari Þórðarsyni tónlistarmanni. Flestir af þekktustu skemmtikröftum landsins hófu ferilinn hjá Ólafi. „Ég held að enginn í bransanum hafi verið lengur í þessu en ég, eða frá því ég var 12 ára. Þetta eru orðin yfir 60 ár og það hefur enginn haft jafn mikil umsvif og ég“, segir Ólafur. Hann segist hafa lifað hratt, enda gangi allt hratt fyrir sig í skemmtana- og veitingabransanum.  „Það kom upp eitthvað nýtt á hverjum klukkutíma, þegar ég var að reka alla þessa staði á sínum tíma. Það var varla búið að koma í kring einu verkefni, þegar þurfti að fara að huga að einhverju nýju“.

En eftir erilsöm ár, ákvað Ólafur að hætta og sonur hans tók við rekstrinum. Hann og Kristín Ketilsdóttir eiginkona hans, ákváðu að breyta til. „Við áttum sumarbústað við Álftavatn, bústað sem við höfðum átt í 20-30 ár“, segir hann. Þar sem Hótel Grímsborgir eru núna, var hringur með 36 lóðum sem voru ætlaðar fyrir einbýlishús. Þau Kristín ákváðu að selja sumarbústaðinn og byggðu sér 300 fermetra hús á einni lóðinni. „Við prófuðum að vera hérna í hálft ár og líkaði svo vel að við seldum húsið í Arnarnesinu. Ég var eiginlega hættur að vinna“, segir hann.  Eftir það keypti Ólafur eina og eina lóð, byggði 16 hús og á í dag flestar lóðirnar sem eru í Grímsborgum. Þegar hrunið varð fékk hann leyfi til að breyta noktuninni á lóðunum í hótel og er í dag með gistingu fyrir 240 manns. „Það er hægt að fá hjá okkur 200 fermetra hús, 60 fermetra íbúðir, svo eru venjuleg hótelherbergi og 8 svítur. Ég er með flottustu gistingu á Suðurlandi“, segir Ólafur og bætir við að það sé mikið um að fólk komi til sín til að halda brúðkaup og stórafmæli svo sem sextugs, sjötugs og áttræðisafmæli.  „Svo erum við með sýningar, núna erum við til dæmis með ítalskt amerískt kvöld, með Kristjáni Jóhannssyni, Geir Ólafssyni, Þóri Baldurssyni og Eddu Guðnýju Guðmundsdóttur. Fullorðið fólk hefur verið mjög ánægt með þetta“, segir Ólafur.  Síðast liðinn vetur var ABBA sýning í gangi í Grímsborgum, sem var sýnd 40 sinnum og en í  vetur verður þar Bee Gees sýning.

 

Ritstjórn júní 26, 2019 08:06